Þjáningin hvílir ekki á rökfræði eða skynsemi. Það er vissulega hægt að læra að minnsta kosti 38 leiðir til að vinna kappræður og það er merkileg mælskulist að geta ávallt haft rétt fyrir sér. Á Gazaströndinni hafa aftur á móti allir rangt fyrir sér nema börnin og aðstandendur þeirra, öll börn beggja megin manngerðu línunnar í Palestínu. Börnin hrópa:
STOPP! Hættið umsvifalaust og látið okkur í friði! Semjið, sættist, dauðinn er ekki eftirsóknarverður!
Stríðsherrar, látið þau í friði! Börnin spyrja ekki: Hver byrjaði? Hver sprengdi moskuna, kirkjuna, sýnagóguna, sjúkrahúsið, hverfið mitt, húsið mitt?
- Þau bæta ekki fölskum forsendum inn í röksemdarfærslur sínar til að sannfæra „andstæðinginn“.
- Þau leita ekki að mótrökum.
- Þau vísa ekki í alþjóðlegar reglugerðir um hvenær megi drepa í stríði og hvenær ekki.
- Þau beita ekki klækjabrögðum.
- Þau flokka ekki önnur börn eftir kynþætti, þjóðerni eða búsetu.
- Þau geta verið þrjósk en þau kunna enga þrætubókarlist.
- Þau vilja fá að vera í friði fyrir átökum, stríði, deilum, flækjum og spilltum valdakörlum.
Börn falla ekki fyrir hugtökum eins og „mannúðlegur hernaður“ sem felst í því: að upplýst er daginn áður að sprengju verði varpað á bygginguna sem þau búa í, að þau hafi tíma til að yfirgefa hverfið sitt, sjúkrahúsið, skólann eða norðurhlutann til að flýja yfir í suðurhlutann og ganga þar inn í flóttamannabúðir án allra nauðsynja, án alls.
Friðarreglan: særið engan
Friðarreglan er aftur á móti mannúðleg, hún hljómar svona: særið engan og er regla sem fullorðnir eiga að fylgja skilyrðislaust. Friðarreglan er grunnurinn og ef henni er fylgt er hægt að gefa öðrum góðar gjafir.
Það krefst hugrekkis að velja regluna um friðinn: að nema staðar og hlusta á innri rödd mannshjartans, röddina sem velur lífið. Friðarreglan skilgreinist ekki af stríði og hún merkir ekki stríðslaust ástand eða vopnahlé eins og flestallir heimsleiðtogar virðast telja. Hún er friðarmenning sem skapar jafnvægi og öryggi. Hún segir ekki hvað fólk á að gera, heldur aðeins hvað það megi ekki gera.
Ofbeldið og hefndin hafa tekið nógu mörg börn frá okkur. Ofbeldi er aldrei réttlætanlegt. Hvorki hjá þeim sem gerir árás né þeim sem gerir gagnárás. Ofbeldi skapar og kveikir elda haturs sem breiðast hratt út eins og sinueldur. Afl ófriðar er græðgi, heimska, kúgun, illska og hatur. Afl friðar er jöfnuður og gjafmildi.
Vítahringur haturs og ófriðar
Það eru til þúsund bækur um deiluna í Palestínu, um ofbeldið og hatrið, friðarferlið og alls konar lausnir. Röksemdarfærslan hefur oftast verið annaðhvort/eða, sem er samskonar lausn og finna má í Mósebókum ritningarinnar. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, fót fyrir fót, skeinu fyrir skeinu en þessari aðferð fylgir einnig líf fyrir líf og þá væntanlega barn fyrir barn og jafnvel börn fyrir hvert dáið barn. Þetta er aðferðin sem virðist fylgt.
Valdafólk sem tekur og traðkar á öðrum skapar vítahring haturs og ófriðar. Valdafólk sem aðhyllist aðskilnaðarstefnu girnist yfirleitt land og auðævi annarra með landtöku og hernámi. Öll aðgreining og mismunun stafar af mannavöldum og hvílir á fordómum, græðgi og drottnunargirni. Hversu oft þurfum við að segja þetta:
Við öll erum jafnborin til virðingar og réttinda sem eru undirstaða frelsis, réttlætis og friðar í heiminum.
Andspyrna knúin áfram af mótmælum
Hvar sem mannshjartað slær, hversu illa sem lífið leikur það, er eitt sem það vill forðast: ofbeldi. Þessi ósk hefur þrátt fyrir allt búið í hjarta mannkyns frá ómunatíð. Takið ykkur stöðu og sýnið samstöðu. Andspyrna er knúin áfram af mótmælum, ekki ofbeldi. Mótmæli gegn ofbeldinu voru í öllum helstu borgum Evrópu um liðna helgi, 20-22. október.
Við verðum því að snúa af vegi illskunnar og horfa til fimm ráða friðarmenningar. Mótmælum alltaf ofbeldi og drápum á börnum, hættum að láta leiða okkur af leið til að tala um aukaatriði, lærum að sjá andlitin á bak við grímurnar. Við þurfum ekki að læra aðferðir til að sigra í kappræðum, við þurfum að standa saman og mótmæla, ekki láta heilaþvo okkur. Fimm ráð friðarmenningar eru einföld gjöf:
- Mótmælið öll!
- Ræktið vinsemd.
- Sýnið kærleika.
- Særið engan.
- Réttið hjálparhönd.
Stöndum með börnunum, ekki með spilltu körlunum
Stríð, ofbeldi og refsing virkar vissulega strax en mildi, fyrirgefning og friðsemd tekur tíma. Sextánda heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er friður og réttlæti: Að stuðla að friðsælum og sjálfbærum samfélögum fyrir alla jarðarbúa, tryggja öllum jafnan aðgang að réttarkerfi og byggja upp skilvirkar og ábyrgar stofnanir á öllum sviðum. Öll börn jarðar eiga rétt til friðar og óspillts umhverfis. Við vitum að það er satt.
Stöndum með börnunum, ekki með spilltu valdakörlunum – hættið að hlusta á þá!
Karlarnir sem ætluðu að semja sín á milli, að þessu sinni, án þess að leysa Palestínudeiluna sjálfa voru leiðtogar Ísraels, Bandaríkjanna, Sádi-Arabíu, Súdan, Bahrain, Marokkó og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Aðskilnaðarstefnuríkið Ísrael semur með öðrum orðum við einræðisríkin í kring og grefur um leið markvisst undan allri réttindabaráttu í Palestínu, eins og Magnea Marinósdóttir bendir réttilega á í greininni Ögrun, ofbeldi og hatur í Heimildinni #026.
Þjáningin sem skapast hvílir ekki á rökfræði, skynsemi eða samningum annarra. Hún er raunveruleg og staðbundin. Það er hægt að lina hana þótt skaðinn verði ekki bættur og það taki tíma að byggja upp traust. Þetta er ekki spurning um að sigra í kappræðum heldur er skyldan við börnin, friðinn og réttlætið.
Hlustum á börnin!
Athugasemdir