Löngum var talið að lífverur þyrftu að búa yfir heila til að geta lært af mistökum. Svo virðist hins vegar ekki vera. Danskir og þýskir vísindamenn sýndu nýverið fram á að marglyttur læra af mistökum sínum þrátt fyrir að vera heilalausar. Það tók marglytturnar aðeins örfáar mínútur að læra að forðast fyrirstöður í fiskabúri sínu. Sýndu þær þannig fram á getu til að læra af reynslu sem aðeins var talin á færi dýrategunda með mun þróaðri vitsmuni.
Hollara að hlusta
Síðastliðið sumar reyndu Samtök ferðaþjónustunnar að kæfa óánægju almennings yfir ágangi greinarinnar og bæta ímynd sína með markaðsátakinu Góðir gestgjafar. Voru landsmenn hvattir til að spyrja sig að því hvað ferðaþjónustan hefði gert fyrir þá. Spurningin virtist þó fyrst og fremst retórísk og svöruðu samtökin henni sjálf: „Bein flug til miklu fleiri borga.“ „25.770 störf.“ „Miklu fleiri kaffihús og veitingastaðir.“ „Gönguskíða-námskeið í boði á veturna.“ Lögðu samtökin fram þá ósk, sem minnti í senn á heilaþvott og hótun, að fólk hefði hugföst „gæðin“ sem fylgdu erlendum ferðamönnum.
Herferðin féll í grýttan jarðveg.
En þótt heilaleysi standi ekki í vegi fyrir því að lífvera læri af mistökum er heili ekki nokkur trygging fyrir því að lífvera læri af reynslunni.
Svo virðist sem Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafi hirt mislukkaða markaðsherferð ferðaþjónustunnar úr endurvinnslutunnunni og endurnýti nú úrhrakið. SFS stendur þessa dagana fyrir markaðsátaki sem ber yfirskriftina „Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig?“ Á ný virðist spurningin retórísk. Hyggjast samtökin fara í fundaferð um landið þar sem lofað er „upplýsandi erindum“. Í auglýsingamyndbandi fyrir herferðina spyr Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS: „Hvað er það sem þú vilt vita um sjávarútveg?“
Stærstu atvinnugreinar landsins bæði spyrja spurninganna og svara þeim. Þeim væri hins vegar hollara að hlusta.
Fiskur, rauðvín og Camembert
Orðspor íslensks sjávarútvegs er í molum. Ný könnun starfshóps matvælaráðuneytisins sýnir að 55,8 prósent landsmanna telja sjávarútveginn spilltan. Aðeins 8,7 prósent telja hann heiðarlegan.
Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, Hjálmar Sveinsson, furðaði sig á því tómlæti sem talsmenn útgerðarinnar sýndu því litla áliti sem Íslendingar hefðu á greininni. „Ef allt væri með eðlilegum hætti ættum við að vera jafn stolt af honum og Frakkar af sinni merkilegu rauðvínsgerð eða ostagerð,“ sagði Hjálmar.
Hafið ólgar í æðum Íslendinga. Við erum eyjaskeggjar, komin af sjómönnum, alin upp á stappaðri ýsu. Sjórinn er okkur matarkista og lífæð. Óttablandin virðing fyrir ægi er okkur í blóð borin, þakklætið er okkur eðlislægt. Hjálmar hefur á réttu að standa. Ef allt væri með „eðlilegum hætti“ værum við jafn stolt af íslenska fiskinum og Frakkar eru af Châteauneuf-du-Pape og Camembert ostinum.
Svo er hins vegar ekki.
Eins og ferðaþjónustan reyna Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi að bæta ímynd greinarinnar með markaðsátaki. En vandi sjávarútvegsins er ekki aðeins ímyndarvandi.
Skoðanakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrr á árinu sýnir mikla óánægju landsmanna með fiskveiðistjórnunarkerfið. Tæp 57 prósent landsmanna segjast ósátt með viðskipta- og stjórnunarhætti íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Rúmlega 83 prósent telja auðlindagjöld eiga að vera hærri en þau eru nú. Í könnun sem gerð var 2019 sögðu 90 prósent svarenda mikla þörf á ákvæði um náttúruauðlindir í stjórnarskrá.
„Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig?“ spyrja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Nær væri að spyrja: „Hvað gæti sjávarútvegurinn gert fyrir þig?“
Árið 2021 jók sjávarútvegurinn hagnað sinn um 124 prósent milli ára. Frá 2009 og til loka 2021 rann 71 prósent alls hagnaðar til eigenda útgerðarinnar en aðeins 29 prósent fór í opinber gjöld.
En sjávarútvegurinn sviptir landsmenn fleiru en ábatanum af auðlindinni.
Árabáturinn, togarinn, botnvarpan. Stappaður fiskur, steiktur í raspi til hátíðarbrigða. Ef allt væri með „eðlilegum hætti“ væri þetta saga okkar og sjálfsmynd. En óskammfeilni sjávarútvegsins, sem berst af miskunnarleysi fyrir því að það verði ekki börn þessa lands sem erfa fiskinn heldur aðeins þeirra eigin börn, sviptir þjóðina huglægri hlutdeild í fiskimiðunum. Það finnur enginn til stolts gagnvart íslenska fiskinum eins og við erum stolt af söngkonunni Björk og útflutningi á íslensku skyri.
Í von um að bæta ímynd sína mata stærstu atvinnugreinar landsins almenning af staðhæfingum almannatengla og láta sem okkur sé jafnnauðsynlegt að kyngja þeim og matskeið af þorskalýsi. En aðeins breytingar á fyrirkomulagi sjávarútvegsins munu skapa sátt um greinina.
„Hvað hefur sjávarútvegurinn gert fyrir þig?“ spyrja Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Nær væri að spyrja: „Hvað gæti sjávarútvegurinn gert fyrir þig?“
Þess vegna mætti spyrja, hvað hafa íslenskir togarar og dragnótaskip gert lífríkinu?
Er tímabært að gera skoðanakönnun um hve hátt hlutfall þjóðarinnar telji blaðamenn og pistlahöfunda setja fram upplýsingar af heilindum og gæta að óhlutdrægni?
En álit almennings á greininni mótast líklega af stærstum hluta af framsetningu tiltölulega fámenns háværs hóps blaðamanna og pistlahöfunda sem láta skrif sín stjórnast af öfund og illmælgi.
Sif segir “Árið 2021 jók sjávarútvegurinn hagnað sinn um 124 prósent milli ára. Frá 2009 og til loka 2021 rann 71 prósent alls hagnaðar til eigenda útgerðarinnar en aðeins 29 prósent fór í opinber gjöld.”
En Sif sleppir því að upplýsa um að engin önnur atvinnugrein utan bankastarfsemi, greiðir hærra hlutfall hagnaðar í opinber gjöld.
Árlegt skattspor sjávarútvegs (allir skattar sem koma til vegna starfseminnar, þar á meðal tekjuskattur og útsvar þeirra sem starfa í greininni) frá 2009 til 2021 liggur að meðaltali á bilinu 70-80 milljarðar.
En það jafngildir árlega um einni milljón á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Engin þjóð sem við höfum tölur frá, fær jafn mikinn arð af hverju veiddu kg fisks eins og íslendingar gera.
Smekklaus samlíking Sifjar á hagsmunasamtökum og heilalausri veru, lýsa líklega betur hugarangri hennar í garð þeirra sem eru að gera hlutina vel og græða á því, en þeim sem skrif hennar beinast að.
Hvað er til ráða? Pólitík, stofna "Auðlindaflokk almennings"? -Þetta varðar jú allar náttúruauðlindir landsmanna - auðlindir sem allir landsmenn eiga að eiga og geta notið góðs af: Fiskur í hafinu, fiskeldi í sjó, ferðaþjónusta þar sem gert er út á náttúru landsins, orka unnin úr náttúruöflunum. Hauður, haf og himinn lagt undir!
A erindi inna öll heimili landsins þo eg vildi bæta ymsu við.
Þessu getum við almenningur breytt í næstu kosningum með því að kjósa flokka, sem ætla að breyta í þágu almennings, lausnin frá kvótakerfinu/spillingu stjórnmála og rústun sjávarbyggða er DAGA-kerfi-frjálsar handfæraveiðar og allur fiskur seldur á fiskmarkaði.
Eg spyr þig hvaða flokk a að kjosa?