Fyrir 48 árum lögðu konur á Íslandi niður störf á fyrsta kvennafrídeginum til að sýna fram á mikilvægi kvenna á vinnumarkaði og til að gera kröfu um jöfn réttindi og jöfn laun. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og vissulega mörgu verið áorkað í réttindabaráttunni. Konur eru nú um helmingur kjörinna fulltrúa á landinu, munur á launum karla og kvenna hefur dregist saman og lagalegur réttur jafnast. Enn hallar þó á konur og kvár í íslensku samfélagi.
Fatlaðar konur standa einna höllustum fæti í samfélaginu. Þær mæta fleiri og meiri ónauðsynlegum hindrunum og sæta meira ofbeldi. Þetta sýna bæði reynslusögur fatlaðra kvenna og fjölmargar rannsóknir og skýrslur.
Þótt Ísland hafi fullgilt Samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) og þrátt fyrir að hér hafi átt sér stað þó nokkur vitundarvakning er enn brýn þörf á aðgerðum, umræðu og úrbótum. Þess vegna er nauðsynlegt að konur og kvár standi saman í kvennaverkfalli 24. október og að fatlaðar konur um land allt láti í sér heyra.
Veruleikinn er sá að fatlaðar konur eru mun berskjaldaðri fyrir hvers kyns ofbeldi en ófatlaðar konur, hvort sem um er að ræða heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi eða stofnanalegt ofbeldi.
Fatlaðar konur, og þá sérstaklega konur með þroskahömlun og/eða geðrænar áskoranir, hika margar við að sækja sér nauðsynlega heilbrigðisþjónustu út af viðmóti kerfisins og slæmu aðgengi að því. Stofnanir landsins þurfa að líta í eigin barm og ráðast í grundvallarendurskoðun á því hvernig þær taka á móti og sinna jaðarsettum hópum, eins og fötluðum konum.
„Forræðishyggja er rótgróið vandamál sem fatlaðar konur þurfa að takast á við“
Þá er réttur fatlaðra kvenna til fjölskyldulífs takmarkaður. Fjöldi dæma sýnir að seinfærar konur eru sviptar forsjá barna sinna, jafnvel áður en þær hafa fengið tækifæri til þess að sýna fram á annað. Forræðishyggja er rótgróið vandamál sem fatlaðar konur þurfa að takast á við.
Staða fatlaðra kvenna á vinnumarkaði er að sama skapi óviðunandi. Þær eiga yfirleitt erfitt að fá störf við hæfi, eins og reyndar fatlað fólk almennt. Spila þar fordómar og þekkingarleysi stórt hlutverk. Við þurfum að tryggja að íslenskt atvinnulíf, einkageirinn og sá opinberi, bjóði upp á sveigjanleg störf og viðeigandi aðlögun.
Þegar litið er til þess hóps sem kemur inn á örorku ár hvert er enginn hópur þar stærri en konur um og yfir fimmtíu ára aldri. Þessar konur eru flestar einstæðar mæður, hafa unnið láglaunastörf og njóta lítils stuðnings. Það er ólíðandi að konur missi heilsu og starfsþrek á besta aldri sökum ólíðandi aðstæðna.
Samfélagið þarf að standa saman og tryggja möguleika fatlaðra kvenna til atvinnuþátttöku og tryggja sanngjörn laun.
Ég vil gera 6. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks að lokaorðum mínum í þessari grein, en það er bráðnauðsynlegt að íslensk stjórnvöld lögfesti samninginn án tafar:
6. gr. Fatlaðar konur
- Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra.
- Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fullu þróun, framgang og valdeflingu kvenna í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og grundvallarfrelsis sem samningur þessi kveður á um.“
Höfundur er formaður ÖBÍ réttindasamtaka
Athugasemdir