Konur lögðu niður störf 24. október 1975 til að sýna fram á mikilvægi framlags þeirra til samfélagsins. Boðað hefur verið til kvennaverkfalls í sjöunda sinn og munu konur og kvár leggja niður launaða og ólaunaða vinnu í heilan dag til að mótmæla vanmati á vinnuframlagi kvenna og kynbundnu ofbeldi. Margt hefur áunnist í baráttunni gegn kynjamisrétti á síðustu árum, þökk sé hreyfingum femínísta og hinsegin fólks, svo sem lagaleg viðurkenning á tilvist kynsegin fólks, jafn réttur foreldra til fæðingarorlofs og stórbætt aðgengi að þungunarrofi. Þó er enn langt í land til að við getum sagt að hér ríki fullt jafnrétti á milli kynja, og er það bersýnilegt þegar við rýnum í stigveldi og valdatengsl á vinnumarkaði.
Kerfislægt vanmat á framlagi kvenna og kvennastörfum
Á vinnumarkaði má sjá kynjað stigveldi, þar sem karlar eru oftar ofar í stigveldinu en konur – oftar í betur launuðum störfum og með meiri völd. Konur eru t.d. enn í miklum minnihluta meðal stjórnenda fyrirtækja þrátt fyrir að þær hafi verið meirihluti háskólanema hátt í fjóra áratugi. Jafnframt eru konur mun líklegri en karlar til að vera í störfum sem samræmast ekki menntun þeirra. Staða fólks af öllum kynjum á vinnumarkaðnum er alltaf samofin annarri félagslegri stöðu þeirra í samfélaginu og konur og kvár sem tilheyra einnig öðrum hópum sem eru í minnihluta eða eru jaðarsett mæta margþættum kerfislægum hindrunum og misrétti á vinnumarkaði. Kynsegin fólk mætir miklum kerfislægum hindrunum í samfélaginu vegna kynvitundar sinnar, og erlendar rannsóknir sýna að það á einnig við um stöðu þeirra á vinnumarkaði. Konur af erlendum uppruna verða fyrir margþættri mismunun, en þær eru mun líklegri til að vera í störfum sem samræmast ekki menntun þeirra, fá enn lægri laun og vinnudagar þeirra eru lengri og óreglulegri en gengur og gerist meðal kvenna á Íslandi.
Jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði var helsta baráttumál kvennafrís árið 1975 þar sem lögð var áhersla á að vinna þyrfti bug á vanmati á störfum kvenna, launamisrétti og aðgerðarleysi í dagvistunarmálum. Þessi baráttumál eiga því miður enn við í dag, og er kynbundinn munur á atvinnutekjum vitnisburður um það. Konur eru í dag með 21 prósent lægri atvinnutekjur en karlar og lægri atvinnutekjur kvenna en karla má að miklu leyti rekja til rótgróinnar kynjaskiptingar á íslenskum vinnumarkaði, þar sem konur og karlar starfa í mismunandi atvinnugreinum. Störf kvennastétta eru kerfisbundið vanmetin og birtist það í lágum launum þeirra sem þar starfa miðað við laun í hefðbundnum karlastörfum. Kynjaslagsíða er á þeim atriðum og viðmiðum sem hafa áhrif á launasetningu starfa, má þar nefna virði starfa, ábyrgð, álag og aðbúnað. Hér er um að ræða gildismat sem rekja má til rótgróinna hugmynda um hlutverk karla og kvenna í samfélaginu. Við höfum byggt velferðarkerfið okkar á þessum vanmetnu störfum, en konur sem starfa við ræstingar, umönnun barna, sjúkra, fatlaðs og aldraðs fólks eru á einna lægstu launum í íslensku samfélagi. Það hefur því viðgengist áratugum saman að atvinnurekendur, þar með taldir opinberir aðilar, hafi veitt sjálfum sér afslátt við launasetningu ómissandi kvennastétta.
Vísbendingar eru um að kynjamisréttið sé að ganga á heilsu og velferð kvenna
Ólaunuð umönnunarábyrgð og misrétti út ævina
Lægri atvinnutekjur kvenna en karla má jafnframt rekja til ólaunaðrar umönnunarábyrgðar sem hvílir á herðum kvenna, en umönnunarábyrgð hér á landi er með því hæsta í Evrópu. Á síðastliðnum árum hefur verið mikill skortur á leikskólaplássum og nýverið hafa mörg stór sveitarfélög tekið upp á því að skerða eða nota neikvæða hvata til að stytta dvalartíma barna á leikskólum sem hefur aukið mikið álag á foreldrum, enda hefur þörfin á þessari þjónustu ekki minnkað. Þessi þjónustuskerðing kemur sérlega illa við konur sem tilheyra hópum sem eru í viðkvæmri og/eða jaðarsettri stöðu í samfélaginu, svo sem vegna uppruna, eru í láglaunastörfum eða búa við krefjandi félagslegar aðstæður. Stór hluti kvenna minnkar við sig launaða vinnu til að sinna ólaunaðri vinnu innan veggja heimilisins og umönnun fjölskyldumeðlima, en 30 prósent kvenna á íslenskum vinnumarkaði eru í hlutastörfum á móti 12 prósent karla. Langt hlé frá störfum eða lækkað starfshlutfall leiðir ekki aðeins af sér launaskerðingu, heldur hefur veruleg áhrif á tækifæri kvenna til framþróunar á vinnumarkaði og bitnar á lífeyrisréttindum þeirra í framtíðinni. Misréttið sem konur verða fyrir í dag fylgir þeim frá vöggu til grafar.
Heilsa, velferð og öryggi kvenna í húfi
Vísbendingar eru um að kynjamisréttið sé að ganga á heilsu og velferð kvenna. Kulnun og örmögnun er risastór ógn við heilsu kvenna. Konur búa við lakara heilsufar og verri lífsgæði en karlar. Þrátt fyrir að meðalævilengd kvenna sé lengri en karla, þá lifa þær mun fleiri ár við slæma heilsu. Konum hefur fjölgað meðal örorkulífeyrisþega á síðastliðnum árum og má sjá kynjamun á ástæðum örorku. Örorkulífeyrisþegar, ásamt einstæðum mæðrum og konum af erlendum uppruna, eru þau sem líklegust eru til að búa við fátækt hér á landi. Fjárhagslegt sjálfstæði er forsenda til að tryggja öryggi og frelsi kvenna. Kynbundið ofbeldi ógnar lífi kvenna og kvára, en 40% kvenna á Íslandi hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi á lífsleiðinni og oft eru ofbeldismennirnir tengdir þeim fjölskylduböndum. Fjárhagslegt öryggi er lykilatriði, en það er mun erfiðara fyrir konur að slíta ofbeldissambandi ef konur eru fjárhagslega háðar maka sínum.
Leiðréttum kerfisbundið vanmat
Leiðrétting á kerfisbundnu vanmati á störfum kvenna og aðgerðir til að tryggja jafna stöðu kynja á vinnumarkaði er ekki aðeins réttlætismál heldur einnig mikilvægt efnahagsmál. Félagið Femínísk fjármál hefur ítrekað bent á að það sé skynsamlegt fyrir stjórnvöld að fjárfesta í bættum kjörum stórra kvennastétta, m.a. þegar kemur að launum, mönnun og aðbúnaði á vinnustöðum, til að gera þessi störf meira aðlaðandi og fyrirbyggja brottfall kvenna langt fyrir aldur fram af vinnumarkaði vegna langtímaveikinda og örorku. Sú fjárfesting myndi skila sér margfalt til baka til langs tíma, svo sem með auknum tekjum í ríkissjóð vegna aukinnar atvinnuþátttöku og minni útgjöld vegna almannatrygginga, heilbrigðisþjónustu og annarra félagslegra úrræða. Ásamt því að tryggja og bæta þessa ómissandi þjónustu öllu samfélaginu til heilla.
Þetta kalla ég ekki jafnrétti. Við getum ekki beðið lengur. Stígum langþráð skref í átt til jafnréttis og krefjumst aðgerða strax!
Athugasemdir