Ræða ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, vakti óvænta athygli í síðustu viku. Á ráðstefnu hagsmunaaðila í sjávarútvegi sem fram fór í Hörpu hæddist háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að samráðherra sínum. Gaf hún í skyn að allt það sem viðstöddum gremdist við stjórnun sjávarútvegsmála – aðgerðir á sviði hvalveiða, sjókvíaeldis og Samkeppniseftirlitsins – ætti sér samnefnara sem kallaðist Svandís Svavarsdóttir.
Við fyrstu sýn virtist sem Áslaug hefði niðurlægt Svandísi fyrir alþjóð og fullum sal af fólki. Væri betur að gáð blasti hins vegar við önnur mynd.
Barnið sem reynir að koma sér í mjúkinn
Árið 1887 málaði þýski myndlistarmaðurinn Carl Röhling málverk sem gengur undir heitinu „Atvikið í Teplitz“.
Sumarið 1812 hittust í sumarleyfisbænum Teplitz í Bæheimi tveir af merkustu listamönnum 19. aldar, tónskáldið Ludwig van Beethoven og skáldið Goethe. Segir sagan að þeir hafi gengið um bæinn og rætt andans mál er þeir mættu hópi tignarfólks. Goethe vék úr vegi fyrir fólkinu, tók hatt sinn ofan og hneigði sig djúpt. Á Beethoven að hafa fylgst með athöfn Goethe af vanþóknun, þvínæst skorðað hattinn fast á höfuðið og arkað beint í gegnum mergðina af hertogum og hertogaynjum.
Ekki er hægt að fullyrða með vissu að „atvikið í Teplitz“ sem Carl Röhling fangaði á striga hafi átt sér stað. Þó er ljóst að Beethoven, sem hafði mikið dálæti á Goethe fyrir fund þeirra í Teplitz, fannst Goethe setja niður við undirlægjuhátt sinn frammi fyrir valdi og auði. Hann skrifaði útgefanda sínum: „Goethe leggur meira upp úr lystisemdum hirðlífsins en er við hæfi af skáldi.“
Það getur verið ábatasamt að hneigja sig fyrir valdi. Það fer hins vegar fáum vel að hneigja sig of djúpt.
Það er dapurleg sjón að sjá eitt merkasta skáld Þjóðverja bugta sig og beygja fyrir yfirlætislegu hirðfólki í verki Röhling. Að sama skapi er það dapurlegt að horfa upp á ráðherra ríkisstjórnar reyta af sér brandara sérsniðna að heimsmynd og hagsmunum kvótakónga landsins eins og hvert annað hirðfífl.
Á meðan Goethe hneigir sig á málverki Röhling sést Beethoven standa úrillur en keikur, kominn í gegnum þvöguna. Á Beethoven horfir einn af spjátrungslega klæddu hefðarmönnunum, undrandi og örlítið gramur, með svip sem segir: Gleðispillir.
Sjávarútvegsdagurinn í Hörpu var eins og endurgerð á atvikinu í Teplitz. Á meðan hin íslenska hirð sat við uppábúin borð með hvítum dúkum og horfði á Áslaugu Örnu bugta sig birtist þar ljósmynd af matvælaráðherra á flennistórum sjónvarpsskjá. Á myndinni stóð Svandís með bros sem náði ekki til augnanna en teinrétt. Við þeim sem sátu úti í sal blasti: Gleðispillir.
Framferði Áslaugar Örnu á Sjávarútvegsdeginum hefur verið líkt við einelti vinsælu krakkanna í grunnskóla á saklausum samnemendum. En Áslaug tilheyrir ekki þeim hópi. Áslaug er barnið sem reynir að koma sér í mjúkinn hjá forsprökkum ógnarstjórnar skólalóðarinnar. Hún híar á fórnarlamb eineltisseggjanna í von um að komast sjálf undir verndarvæng þeirra sem hafa hreðjatak á samfélaginu.
Að hneigja sig of djúpt
Það getur verið ábatasamt að hneigja sig fyrir valdi. Það fer hins vegar fáum vel að hneigja sig of djúpt. Meira að segja stórskáldið Goethe komst ekki frá því klakklaust.
Ljósmyndinni af matvælaráðherra yfir ræðu Áslaugar Örnu var vafalaust ætlað að vera Svandísi til háðungar. Hún átti að sýna leiðindapúkann, stein í götu. En hughrifin urðu önnur.
Í frásögn um atvikið í Teplitz skammar Beethoven Goethe fyrir að hneigja sig fyrir hirðinni. Hann segir það þvert á móti hirðarinnar að hneigja sig fyrir þeim.
Á meðan Áslaug Arna reyndi að koma sér í mjúkinn hjá þeim sem hún taldi hafa völdin frekar en að sýna sitt eigið vald (eins og Goethe) arkaði Svandís óeiginlega í gegnum hirðina í Hörpu án minnstu undirgefni eða lotningar (eins og Beethoven).
Þegar Áslaug Arna birti mynd af andliti Svandísar Svavarsdóttur í Hörpu í síðustu viku sýndi hún óvart hið rétta andlit flokks síns. Sjálfstæðisflokkurinn hyggst ekki leiða stefnumótun í sjávarútvegsmálum heldur láta teymast.
Niðurlægingin á Sjávarútvegsdeginum var ekki Svandísar heldur Áslaugar Örnu.
Athugasemdir (11)