„Heldur þú í alvöru að það sé hollt fyrir íslenskt samfélag almennt sé að það komist upp að fjármálaráðherra sé að selja pabba sínum banka?“ Þannig spurði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins, þegar hann mætti á opinn fund fjárlaganefndar í morgun til að ræða sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins í Íslandsbanka fyrir rúmum mánuði.
Bjarni svaraði því til að þetta væri „bara áróður sem þú ert að flytja hér. Þetta er framsetning sem stenst ekki skoðun.“
Á meðal kaupenda á hlut ríkisins í Íslandsbanka var félagið Hafsilfur, í eigu Benedikts Sveinssonar. Félagið keypti fyrir tæpar 55 milljónir króna af þeim 52,65 milljörðum króna sem 22,5 prósent hlutur ríkisins var seldur fyrir. Benedikt er faðir Bjarna sem kom fram fyrir hönd ríkisins í tengslum við söluna á hlutnum í Íslandsbanka.
Í minnisblaði sem fjármála- og efnahagsráðuneytið sendi fjárlaganefnd í byrjun viku sagði að engar sérstakar reglur hefðu gilt um viðskipti ráðherra eða fjölskyldumeðlima hans í tengslum við sölu ríkissjóðs á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Bjarni sagði í svörum sínum til Björns Leví að ef „þingmaðurinn er svo sannfærður um að hér hafi stjórnsýslulög verið brotin, að hér hafi lög um peningaþvætti verið brotin, hér hafi margar aðrar lagagreinar verið brotnar, þá hlýtur hann bara að vera rólegur vegna þess að allt er þetta til skoðunar hjá Ríkisendurskoðun.“
Enginn með fleiri atkvæði á bakvið sig
Björn Leví spurði Bjarna einnig hvort hann haldi „í alvöru að þú komist upp með að selja „pabba þínum banka eftir allt sem hefur gengið á á undan“.
Svo taldi hann upp mörg mál tengd Bjarna sem ratað hafa í umræðu, svo sem Vafningsmálið, viðskipti tengd sjóði 9, skýrslumálið svokallaða og eignarhald Bjarna á aflandsfélaginu Falson, sem var opinberað í Panamaskjölunum og sagði að allstaðar annarsstaðar í siðmenntuðum samfélögum hefði öllum þessum málum fylgt afsögn.
Bjarni svaraði því til að þetta væri áróður. „Ég hef aldrei átt í vandræðum að mæta kjósendum í þessu landi, ganga í gegnum kosningar, mæta þér og öðrum mótframbjóðendum, svara fyrir mig og mín mál. Uppistaðan af öllu því sem þú ert að telja er áróður. Nú gengum við til kosninga í september síðastliðinn. Þar var einn þingmaður sem fór með fleiri atkvæði á bak við sig en nokkur annar. Og það er sá sem þú ert að tala við núna.“
Pólitískar áhyggjur, ekki lagalegar
Á fundinum var meðal annars rætt um þær áhyggjur sem Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hefur sagst hafa viðrað í aðdraganda sölunnar en hún hefur sagst hafa verið á móti því að hlutur ríkisins í Íslandsbanka yrði seldur í lokuðu útboði. Þeim skoðunum hafi hún komið fram við aðra ráðherra, en hún situr meðal annars í ráðherranefnd um efnahagsmál með forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.
Þegar Lilja mætti í fyrsta sinn í gær fyrir Alþingi til að svara fyrir þessi ummæli, sem hún lét fyrst falla í viðtali við Morgunblaðið 11. apríl, sagði hún að allir þrír ráðherrarnir í ráðherranefnd um efnahagsmál hefði haft áhygglur af söluferlinu.
Bjarni var spurður út í þessar yfirlýsingar Lilju á fundinum í morgun. Bjarni svaraði því til að hann telji að Lilja hafi verið að viðra pólitískar áhyggjur af sölunni en ekki lagalegar. „Pólitískar áhyggjur af því hvernig menn geti viðhaldið góðum stuðningi meðal þjóðarinnar eftir því hvaða leið er farin. Og kannski er það það sem ráðherra er að vísa til að það hefur skapast mikið uppnám og moldviðri út af þessari framkvæmd, að það hafi ræst sem hún hafði áhyggjur af, að það væri erfiðara að viðhalda pólitískum stuðningi þegar að allur íslenskur almenningur ætti ekki aðild að framkvæmd útboðsins.“
Athugasemdir