Í ágúst 2014, við upphaf sumarleyfa í breskum skólum, stóðu þyrluforeldrar Lundúnaborgar í eldhúsinu og smurðu nesti – í flestum tilfellum glútenlaust súrdeigsbrauð með heimagerðum hummus eða vegan osti – þegar kvað við frétt sem olli því að foreldrunum svelgdist á lífrænu haframjólkurkaffinu sínu.
Virtur breskur listamaður, Jake Chapman, lýsti því yfir að börnin þeirra væru of heimsk til að njóta listar.
Í sumarleyfum leggjast skólabörn eins og engisprettufaraldur á listasöfn Lundúna. Eitt af tíu boðorðum metorðagjarnra millistéttarforeldra kveður á um að svo að litla Mia og litli Mike megi verða góðir og gegnir meðeigendur í lögfræðifyrirtæki eða verkfræðistofu þegar þau verði stór þurfi þau að þekkja Rothko frá Pollock.
En Chapman sagði slíkar heimsóknir á söfn helbera tímasóun. Hann sagði það „hroka“ í foreldrum að ætla að börnin þeirra væru fær um að skilja list og móðgun við listamenn.
„Ítrekað blasir hins vegar við að hinir fullorðnu eru of heimskir til að skilja börn.“
Hér skal hvorki fullyrt um gáfnafar barna né hvort þau séu of heimsk til að skilja list. Ítrekað blasir hins vegar við að hinir fullorðnu eru of heimskir til að skilja börn.
„Ótrúlegt yfirlæti“
Nýverið bárust fréttir af því að bókaútgáfan Óðinsauga hygðist gefa út barnabókina Sagan af Dimmalimm í breyttri útgáfu. Verkið, sem gjarnan er sagt fyrsta íslenska myndasagan, samdi listamaðurinn Guðmundur Thorsteinsson, þekktur sem Muggur, handa systurdóttur sinni árið 1921.
Í hinni nýju útgáfu verksins er lágstemmdum teikningum Muggs, fínlegum pensilstrokum og hrjóstrugu landslagi, skipt út fyrir fumlausar útlínur, blómleg engi og ærandi litagleði. Dimmalimm er orðin að Disney-prinsessu.
Útgáfuævintýrið er allegóría um ástandið í listaheiminum í dag.
Í gær var opnuð sýning í nýlistasafninu Tate Modern í London á verkum kanadísk-bandaríska myndlistarmannsins Philip Guston. Sýningin átti upphaflega að vera árið 2020. Stjórnendur safnsins ákváðu hins vegar að fresta henni. Var ástæðan olíumálverk Guston af félögum í Ku Klux Klan sem þóttu ekki viðeigandi í kjölfar „black lives matter“ byltingarinnar.
Þáverandi sýningarstjóri sýningarinnar, Mark Godfrey, sem hafði varið mörgum árum í undirbúning hennar, sakaði stjórnendur safnsins um „ótrúlegt yfirlæti í garð safngesta“. Hann benti á að verk Guston væru einmitt ádeila á rasista heimsins og væru skopstæling af Ku Klux Klan mönnum. Guston hefði sjálfur verið gyðingur sem flúði ofsóknir í Úkraínu og hefði alla tíð verið ötull baráttumaður gegn kynþáttafordómum. „Með því að slaufa eða fresta sýningunni eru þau skilaboð send út að safnið „skilji“ málverk Guston en það treysti ekki áhorfendum til að skilja þau,“ sagði Godfrey.
Godfrey var leystur frá störfum í kjölfar athugasemda sinna og hefur enga aðkomu að nýju sýningunni um Philip Guston.
Andlegt ungbarnamauk
En aftur til ársins 2014. Yfirmaður góðgerðarsamtakanna „Börn í söfn“ brást ókvæða við yfirlýsingu Jake Chapman um heimsku barna. Dea Birkett sagði það „dæmigert af listaelítunni að segja að við hin séum einfaldlega ekki nógu gáfuð til að skilja þau“. Hún spurði: „Hversu margar doktorsgráður segja þau að við þurfum að hafa til að geta notið Picasso eða Pollock?“
„Það færist í aukana að menning sé matreidd ofan í okkur eins og andlegt ungbarnamauk eftir uppskrift listfræðilegra næringarfræðinga“
Börn hafa lengi mátt þola yfirlæti sjálfskipaðra varðmanna menningarneyslu. En nú virðist vera búið að gera okkur öll að smábörnum.
Verk Philip Guston voru nýverið sýnd í Listasafni Boston í Bandaríkjunum. Áður en gengið var inn á sýninguna fengu gestir afhentan bækling eftir áfallasérfræðing um hvernig þeir ættu að undirbúa sig andlega fyrir sýninguna. Hinn brottræki sýningarstjóri Mark Godfrey var ekki hrifinn. „Ein leið til að takast á við erfiða hluti er að hlæja að þeim. Ef þér er sagt að þú munir verða fyrir áfalli þegar þú sérð eitthvað er erfitt að koma auga á tilraun listamannsins til að breyta einhverju hræðilegu í eitthvað fyndið.“
Það færist í aukana að menning sé matreidd ofan í okkur eins og andlegt ungbarnamauk eftir uppskrift listfræðilegra næringarfræðinga með háskólagráðu í menningarstjórnun, sem ákveða hvað við þolum og hvað við þolum ekki. Kynslóðum saman hafa börn virt fyrir sér vatnslitastrokur Muggs sem renna út fyrir óljósar útlínur dregnar með blýanti. En samtíminn krefst skýrra lína og afdráttarlauss litavals. Blæbrigði kalla á „triggerwarning“. Orki eitthvað tvímælis er því slaufað.
Gerilsneyðing vitsmunanna er arfleifð okkar.
Athugasemdir (2)