Það sem ég hef lært í lífinu er að það er bara til eitt vandamál í lífinu. Það, að ég skuli fyrst nýverið hafa áttað mig á þessu, sýnir hvað þetta hefur þvælst fyrir mér um dagana. Foreldrar, ég þar með talinn, og skólar, gera alltof lítið af því að draga úr þessu vandamáli. Þvert á móti auka þeir oft á það. Ímyndum okkur allt neikvætt sem nöfnum tjáir að nefna – það myndi minnka og einhvern tíma í fyllingu tímans, hverfa, ef það yrði tekið hraustlega á þessu vandamáli. Að sama skapi myndi allt sem gott og jákvætt er í heiminum vaxa og dafna.
... að það er einn megintilgangur með lífinu. Því miður er lítið gert í því að stefna að því að ná þessum tilgangi. Foreldrar, skólar, fjölmiðlar, samfélagið í heild, enginn er undanskilinn. Allt sem er gott fær næringu, allt sem er vont visnar. Einhver sagði að í öllum tækjust á tvenns konar öfl; hið góða afl og hið illa. Hvort þeirra ynni, réðist af því hvort maður nærði.
... að það er eitt meginmarkmið með lífinu. Ástæður þess eru lífeðlisfræðilegar og snerta alla, bæði líkamlega og andlega.
... að það þarf að skera skólakerfið upp. Það eiga að vera þrjú meginfög og byrja strax í leikskóla – sem ég held að sé besta skólastigið í landinu.
... að lífið kemur stöðugt á óvart, samanber:
Oft mig undrar mest
í okkar veru,
að eins og fólk er flest
fæstir eru.
... (reyndar fyrir löngu), að það eru til háskólamenntaðir hálfvitar en hámenntaðir menn sem aldrei hafa sest á skólabekk. Fólk sem skreytir sig með alls kyns menntun og gráðum en er stútfullt af fordómum og alhæfingum, er ómenntað að mínu mati.
Einhver sagði við mig einhvern tíma að menntun legði fólki þá skyldu á herðar að vera menntun sinni trúr. Það er mikið vit í þessu.
... að það eru margar leiðir til að lifa lífinu og oft stendur valið á milli tveggja leiða. Til dæmis þeirra að fara annars vegar þægilegustu leiðina eða hins vegar þá skynsömustu. Að fyrri leiðin sé oft farin, er okkur öllum mjög dýrkeypt.
„Heilbrigð og gæfusöm börn eru það dýrmætasta í lífinu. Skítt með mann sjálfan miðað við það.“
... að ranglæti og misskipting er held ég það versta sem ég veit. Það er til nóg af öllu fyrir alla jarðarbúa, að ekki sé talað um Íslendinga. Eitthvað kemur samt í veg fyrir að allir hafi nóg. Þess vegna er fátækt og hungur alltof víða.
... að hjá þjóð sem telur sig menntaða, er alltof mikið um fordóma, ekki síst gagnvart útlendingum. Sá sem er fordómafullur er ekki vel menntaður, því megintilgangur menntunar er að draga úr fordómum og fáfræði.
... að ég þoli ekki skrum og fagurgala.
... að heilbrigð og gæfusöm börn eru það dýrmætasta í lífinu. Skítt með mann sjálfan miðað við það. Þar á eftir koma vinir.
Fótboltinn færði flesta vini
Um vináttuna orti Hjálmar heitinn Freysteinsson læknir:
Gulli og perlum að safna sér
sumir endalaust reyna
vita ekki að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
Gull á ég ekki að gefa þér
og gimsteina ekki neina
en viltu muna að vináttan er
verðmætust eðalsteina.
... að ekkert í lífinu hefur fært mér fleiri vini en fótbolti.
... að fótbolti er besta verkfæri sem til er til góðra verka. Þess vegna er sorglegt þegar fólk nýtir ekki þetta verkefni til slíks.
... að fótbolti er og hefur alltaf verið minn læknir og lyf í senn (fallegur söngur hefur líka lækningamátt).
... að það er bara einn hlutur í heiminum sem gefur rétt svar við öllum samviskuspurningum.
... að lífið er vegferð sem hægt er að sleppa eða taka sér far með. Fólk ætti að gera það, eða eins og sagt var:
Teygðu þig í lífið og tak þér far með því
teygaðu‘ af þess hreinu, svölu lindum.
Því ef maður gerir það ekki, fer það framhjá manni, rétt eins og andartakið sem er það eina sem maður á, sagði Björn heitinn Runólfsson, bóndi á Hofsstöðum í Viðvíkursveit í Skagafirði:
Frá því lífs míns fjör var vakið
og fór að stríða,
aleiga mín er andartakið
sem er að líða.
En lífið er ekki endalaust (það vissum við fyrir):
Enginn tefur tímans rás
né tómarúmið auða.
En markaður er mönnum bás
milli lífs og dauða.
... að sumir eru úlfar í sauðargæru:
Velvild þín og vinsemd lúta
að væntumþykju og minna öll
á þumalskrúfur, þrýstikúta,
þakrennur og niðurföll.
... að lifa spart en:
Löngum hef ég lifað spart
af litlu hef að raupa,
eignast hef þó ansi margt
sem ekki er hægt að kaupa.
... að ... og nú finn ég ekki orðin og þá er betra að þegja, eins og Steinunn heitin Jakobína Guðmundsdóttir, ljósmóðir frá Skriðinsenni í Árneshreppi, orðar það svo snilldarlega í þessari gullfallegu hringhendu (fleiri eru sagðir hafa ort vísuna en ég eigna Steinunni hana):
Fann ég eigi orðin þá
er ég segja vildi.
Varð svo fegin eftir á
að ég þegja skyldi.
... að:
Að lifa það er að læra
þá list að vera til.
Gangi okkur öllum sem best að vera partur af því síkvika listaverki sem lífið er.
Athugasemdir