Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish vinnur að því að skoða hvað fór úrskeiðis í kvínni í Kvígindisdal sem göt komu á í ágúst, meðal annars hvort ljósastýringu í kvínni hafi verið ábótavant. Þetta kemur fram í svörum frá Stein Ove Tveiten, forstjóra Arctic Fish, til Heimildarinnar.
Blaðið greindi frá því í dag að Matvælastofnun gruni að Arctic Fish hafi ekki notað ljósastýringu í kvínni með réttum hætti áður en götin komu á hana og 3500 eldislaxar sluppu út. Fyrir vikið urðu fleiri af eldislöxunum kynþroska en hefði átt að vera en þetta eykur líkurnar á erfðablöndun við villta, íslenska laxa. Laxar úr kvínni hafa synt upp í ár hér á landi í talsverðum mæli og veiðst þar.
„Rekstrarleyfishafi skal við eldi frjórra laxa notast við ljósastýringu“
Óvissa með ljósastýringu
Heimildin spurði Arctic Fish tveggja spurninga um þetta atriði. Í svari sínu segir Stein Ove að hann geti ekki svarað spurningum um ljósastýringuna á þessu stigi þar sem málið sé í skoðun. „Við vinnum að því að skoða þau vandamál sem þú nefnir en höfum ekki ennþá lokið þeirri vinnu. Við munum þurfa að tjá okkur um þau síðar þegar við höfum greinarbetri mynd af stöðunni.“
Samkvæmt þessu svari liggur ekki fyrir hvernig ljósastýringunni var háttað hjá Arctic Fish í í umræddum kvíum. Ef eldislaxarnir hefðu ekki verið kynþroska má ætla að þeir hefðu ekki synt í eins miklum mæli upp í íslenskar ár og þeir hafa gert á liðnum vikum. Þetta þýðir að ef eldislaxarnir hefðu ekki verið kynþroska þá hefði skaðinn af götunum og slysasleppingunni ekki orðið eins mikill. Ljósastýringin er því eins konar varnagli til að lágmarka skaðann ef til slysasleppingar kemur.
Skilyrði um ljósastýringu í rekstrarleyfi
Í rekstrarleyfi Arctic Fish í Patreksfirði sem Matvælastofnun gefur út er skilyrði um það að félagið verði að viðhafa ljósastýringu í kvíum sínum. Nú liggur fyrir að þessu ákvæði rekstrarleyfisins var ekki fylgt í tilfelli annarrar kvíar Arctic Fish í Patreksfirði en spurningin er hvort því hafi heldur ekki verið fylgt í kvínni sem götin komu á - kví númer 8. í Kvígindisdal. Ljósastýringin á að koma í veg fyrir að laxarnir verði kynþroska en með þessu er gerð varrúðarráðstöfun til að reyna að koma í veg fyrir erfðablöndun við villta laxastofninn.
Í rekstrarleyfinu segir orðrétt um þetta: „Rekstrarleyfishafi skal við eldi frjórra laxa notast við ljósastýringu þ.e. hafa kveikt ljós í kvíum meðan dagsbirtu gætir ekki frá 20. september til 20 mars.“
Í reglugerð um fiskeldi kemur fram að Matvælastofnun geti endurskoðað eða afturkallað rekstrarleyfi laxeldisfyrirtækja ef svo ber undir. Þar segir meðal annars: „Matvælastofnun skal endurskoða rekstrarleyfi a.m.k. einu sinni á gildistíma þess, svo sem ef heimild til afnota af landi breytist og/eða ef upp koma aðrar ástæður sem krefjast endurskoðunar.“
Matvælastofnun getur einnig, ef svo ber undir vegna brota á ákvæðum rekstrarleyfis, afturkallað leyfið en þá þarf laxeldisfyrirtækið að hætta rekstri á viðkomandi svæði.
Athugasemdir