Lög um velferð dýra, þar sem m.a. er kveðið á um að dýr skuli laus við ótta og þjáningu og að þau skuli aflífuð með skjótum og sársaukalausum hætti, eiga ekki við um veiðar á eldislaxi sem nú eru hafnar í ám á Vestfjörðum.
Um 3.500 laxar sluppu nýverið úr kvíum fyrirtækisins Arctic Fish í Patreksfirði og hafa gengið upp í ár á Vestfjörðum og víðar. Kafarar vopnaðir skutulbyssum á vegum fiskeldisfyrirtækisins fara nú um árnar og reyna að veiða þá. Tilgangurinn er að reyna að lágmarka það tjón sem flótti laxa um gat á kvínni getur valdið á lífríkinu.
Aðferðir þessar hafa vakið nokkra athygli, ekki síst í ljósi þess að skutulbyssur, reyndar hlaðnar sprengiefni, hafa verið mikið til umræðu vegna harðrar gagnrýni á hvalveiðar. Í því sambandi hefur verið vísað til dýravelferðarlaga og fagráð um velferð dýra m.a. sagt að veiðar á hval með þeim aðferðum sem beitt er geti ekki samrýmst lögunum.
Því leitaði Heimildin til Matvælastofnunar, sem hefur eftirlit með því að farið sé að lögum um dýravelferð, og spurði: Samrýmast veiðar froskmanna á eldislöxum í ám, þar sem dýrin eru drepin með skutli, ákvæðum dýravelferðarlaga?
„MAST hefur í sjálfu sér aðeins eftirlit með eldisfiski og seiðum sem eru í ræktun á meðan þau eru í varðhaldi, ef svo má að orði komast,“ segir Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá MAST. Á hann þar við að eftirlit MAST nái til þess tíma þegar fiskar og seiði eru í kerjum eða kvíum. Þegar kemur að veiðum í ám er eftirlitið hins vegar komið á borð annarrar stofnunnar, Fiskistofu.
Dýravelferðarlög undanskilja villtan fisk
Hins vegar, bendir Karl Steinar á, kemur fram í 2. grein laga um velferð dýra að þau taki ekki til hefðbundinna veiða og föngunar á villtum fiski. „Þannig að dýravelferðarlögin ná ekki yfir það hvernig fiskur er veiddur. Hvort sem þeir eru skutlaðir, veiddir með krók eða með flottroll eða hvernig sem er.“
En hann er ekki villtur, er það, eldislaxinn sem slapp?
„Um leið og hann er kominn út úr kvíunum og farinn upp í árnar þá er komið fram við hann eins og villtan fisk,“ svarar Karl Steinar. „Þá er hann kominn út úr lögsögu MAST og yfir í lögsögu Fiskistofu sem svo skipuleggur þessar veiðar.“
Karl Steinar segir að spurningar um velferð fiska rétt eins og annarra dýra eigi vissulega rétt á sér. Sambærileg stofnun MAST í Noregi hafi t.d. skilgreint aðferð laxveiðimanna sem kallast „veiða-sleppa“ sem dýraníð. „Við erum ekki komin þangað en þessi aðferð að skutla eldislaxa í ám viðgengst í Noregi við sambærilegar aðstæður og upp eru komnar hér.“
Kafararnir verktakar Fiskistofu
Aðkoma norskra kafara er eitt af nokkrum úrræðum sem gripið hefur verið til vegna þess að eldislaxar hafa fundist í íslenskum ám, segir Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri lax- og silungsveiðisviðs Fiskistofu. Hann segir kafarana verktaka hjá stofnuninni, hún kosti aðgerðirnar en mun fara fram á það við Arctic Fish að þeir endurgreiði kostnaðinn, líkt og kveðið er á um í lögum um fiskeldi.
Guðni segir aðgerðirnar unnar í samráði við hagsmunaaðila, þ.e. Landssamband veiðifélaga og viðkomandi veiðifélög. Sérfræðingur frá Fiskistofu fylgist með veiðunum og taki þátt í aðgerðinni, m.a. með því að koma sýnum til Hafrannsóknastofnunar. „Stjórn og útfærsla aðgerða er í höndum Fiskistofu,“ ítrekar hann. „Eldisfyrirtækin hafa verið upplýst um gang mála, en hafa að öðru leiti ekki aðkomu að aðgerðinni.“
Spurður út í aðferðir við veiðarnar og þau veiðarfæri sem eru notuð segir hann að Fiskistofa geti mælt fyrir um að óhefðbundnar aðferðir vegna veiða í rannsóknarskyni og stofnunni beri skylda til að mæla fyrir um að leitað sé að eldisfiskum og þeir fjarlægðir úr ám.
„Þarna koma vel í ljós skilin á milli villtra dýra og dýra í haldi manna gagnvart lögum og reglum.“
Strangar reglur gilda um aflífun úr kvíum
En félagar strokulaxanna sem ekki tókst að flýja út um gat kvíarinnar í Patreksfirði heyra undir „lögsögu“ MAST og strangar reglur gilda um slátrun þeirra, reglur sem eru samræmdar innan Evrópu. Lax úr kví er rotaður strax og hann er tekinn úr vatni og er í kjölfarið blóðgaður. Þær reglur eru settar með velferð dýranna að leiðarljósi.
„Þarna koma vel í ljós skilin á milli villtra dýra og dýra í haldi manna gagnvart lögum og reglum,“ segir Karl. Þegar eldisdýr sleppi út í náttúruna breytist skilgreining veiða á þeim í augum laganna, að minnsta kosti þegar um fiska er að ræða. „Það getur vel verið að það ætti að skoða það eitthvað sérstaklega en þessi aðferð sem verið er að beita við veiðarnar á eldislöxunum er mjög áhrifarík. Það er mjög mikilvægt að ná þeim upp úr ánum.“
Athugasemdir