Ég var nýflutt að heiman þegar amma heitin kíkti í heimsókn í litlu íbúðina. Að vanda kom hún færandi hendi. Í þetta sinn þó ekki með kleinur eða smákökur, heldur hlaðin eldhúsáhöldum til gjafar. Þiggðu þetta, Halla Hrund mín, sagði hún og dreifði rösklega úr djásninu á eldhúsborðið. Mér var litið yfir misstórar ausur, handþeytara, skeiðar og steikarspaða, flest af sitt hvorri sortinni og alls ekki af nýjustu gerð. „En, amma, það má græja þetta allt í IKEA,“ hikstaði ég rúmlega tvítug um leið og ég hugsaði hvað það yrði nú fallegt að hafa þetta allt í stíl. En amma var ekki af baki dottin (frekar en fyrri daginn). „Ég hef tekið frá og safnað fyrir þig það sem ég á tvennt af. Þá þarftu ekki að eyða í vitleysu og getur nýtt peninginn í eitthvað viturlegra.“
Þessi orð mælti konan sem hafði um árabil nýtt hverja auðlind sveitabæjar þeirra afa af natni og uppskorið allt frá verðlaunamjólk yfir í fyrsta flokks afurðir. Þannig byggðu þau sjálfbæran og úrræðagóðan rekstur, juku verðmæti og komu sínu fólki á legg. Samfélög hafa að undanförnu einmitt verið að reyna að innleiða hugsun ömmu aftur sem mótsvar við „henda öllu“-hagkerfinu sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna, oft með einnota borðbúnað sem birtingarmynd. Nýtni er nefnilega ekki stöðnun heldur hvetur hún til nýsköpunar og sóknar með það sem við höfum á milli handanna hverju sinni og styður við sjálfbærni um leið.
Hugsunin á heldur betur við í auðlindanýtingu, en þar á meginmarkmiðið alltaf að vera að fá sem mest verðmæti fyrir alla nýtingu. Þannig má skapa velmegun fyrir núverandi kynslóðir, án þess að ganga of langt á möguleika þeirra sem á eftir koma. Í samhengi loftslagsmálanna hefur Alþjóðlega orkumálastofnunin til dæmis bent á að á heimsvísu megi bæta orkunýtni, og þar draga úr orkuþörf, til að ná 40% af markmiðum Parísarsáttmálans er tengist losun frá orkuframleiðslu. Einnig er mikilvægt að horfa á nýsköpun heilt yfir í hringrásarhagkerfinu til að komast í mark.
Áherslan á þessi mál hefur aukist töluvert á Íslandi og eigum við Íslendingar enn fjölmörg tækifæri til að nýta orkuna okkar betur, af virðingu fyrir okkar dýrmætu endurnýjanlegu orkulindum og náttúru. Dæmi um nýlegar aðgerðir á orkusviðinu eru lög sem gefa færi á að bæta nýtingu núverandi virkjana með því að stækka þær með betri tækjabúnaði án þess að fara inn á óröskuð landsvæði. Annað dæmi er snjallmælavæðing orkukerfisins þar sem tæknin getur hjálpað okkur að dreifa betur álagi á raforkukerfið sem sparar bæði kostnað við fjárfestingu í dýrum innviðunum og dregur úr raforkuþörf. Þriðja dæmið er vinna opinberra fyrirtækja við að styrkja æðar raforkukerfisins, rafmagnslínurnar sjálfar, sem eykur getu til að flytja orkuna á milli landshluta svo við nýtum orkuframleiðslu landsins hverju sinni sem best, óháð búsetu fólks og fyrirtækja.
„Samfélög hafa að undanförnu einmitt verið að reyna að innleiða hugsun ömmu aftur sem mótsvar við „henda öllu“-hagkerfinu sem á rætur að rekja til Bandaríkjanna, oft með einnota borðbúnað sem birtingarmynd“
Rafvæðing bílaflotans er einnig frábært dæmi um orkusparandi aðgerð. Rafbíll umbreytir um 80-90% af raforkunni yfir í hreyfiorku, á meðan venjulegur bíll nýtir einungis 20-30% af orkuinnihaldi eldsneytisins yfir í hreyfiorku. Rafbíllinn nýtir því orkuna mun betur en sá hefðbundni og ef orkan kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og hér á landi, þá næst mikill ávinningur í samdrætti á losun gróðurhúsalofttegunda um leið.
Að lokum má nefna sögu af gulli okkar Íslendinga, jarðhitanum, en þar hefur áherslan á niðurdælingu vatns á háhitasvæðum eftir notkun vatnsins, og aukin vöktun jarðhitahola, skilað sér í að við getum nýtt hvert og eitt jarðhitasvæði lengur. Svokölluð fjölnýting jarðhitans gerir það einnig að verkum að sama heita vatnið er notað margsinnis til að skapa verðmæti. Ég endurtek; sama vatnið! Í raforkuframleiðslu, húshitun og svo ýmis önnur nyt – allt frá snjóbræðslu gangstétta yfir í matvælagerð – í stað þess að kasta því á glæ. Samhliða þessari mikilvægu áherslu geirans vinnur Orkustofnun að því að auka áherslu á orkusparnað frekar, meðal annars í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun fyrir húshitun sem er mikilvægt nú þegar mannfjöldi vex og atvinnulíf ferðaþjónustu stækkar.
Bestu fréttirnar eru sennilega að þau nýsköpunarverkefni sem spretta nú fram á orkusviðinu – og munu taka þátt í að móta framtíðina – vinna mörg einnig að því að efla nýtni enn frekar. Hugbúnaðarlausn Snerpu Power styður við betri nýtingu raforkuframleiðslu. Geosilica, nýtir kísil úr jarðhitavirkjunum og eykur þar með virði auðlindarinnar og eflir heilsu fólks um leið. Áherslan á nýtni kemur einnig fram í E1 hleðslulausninni sem dregur úr álagi á innviði með því að vera eins konar „Airbnb fyrir hleðslustöðvar“. Að auki má nefna Alor, sem vinnur að umhverfisvænni rafhlöðum sem gætu jafnað álag þar sem notkun er sveiflukennd og Sidewind, sem framleiðir orku frá vindi á flutningaskipum og hefur möguleika á að draga úr olíuþörf, kostnaði og mengun allt í senn. Nýjasta dæmið í deiglunni er Atmonia, sem eykur nýtni grænnar orkuframleiðslu við áburðargerð og minnkar sótspor um leið.
Í samhengi karllægs orkugeirans er einnig áhugavert að nefna að allt eru þetta verkefni þar sem konur eru á meðal stofnenda eða leidd af kvenfrumkvöðlum og marka því nýja tíma á fleiri en einn hátt.
Með slíka áherslu á nýtni og nýsköpun í farteskinu getum við náð enn lengra fyrir samfélagið. Ekki bara mest, heldur best í því hvernig við nýtum og njótum afraksturs orkumálanna í nútíð og sókn. Eða, nýtni var það, heillin, eins og amma myndi orða það.
Höfundur er orkumálastjóri.
Athugasemdir