„Það er mjög mikilvægt að skoða þetta: Að settar verði reglur á gjafir til sveitarfélagsins. Ég held að það sé mikilvægt að sveitarfélög standi ekki í skuld við fyrirtæki sem hafa svona hagsmuna að gæta. Ég held að það sé mikilvægt að fólk geti treyst því að sveitarfélagið sé ekki í svona samskiptum við hagsmunaaðila,“ segir Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, sveitastjórnarkona úr VG sem situr í sveitarstjórn Múlaþings, aðspurð um gjöf sem Múlaþing fékk frá laxeldisfyrirtækinu Fiskeldi Austfjarða fyrr í sumar.
Gjöfin, 6 til 8, milljónir króna fólst í greiðslu á mengunarvörnum í Seyðisfirði, nánar tiltekið akkerum til að stöðva olíuleka úr flakki skipsins El Grilló.
Heimildin greindi frá gjöfinni í morgun. Hún kom fram í fundargerð frá Umhverfis- og framkvæmdanefnd Múlaþings frá því á mánudaginn. Gjöfin fólst í að Fiskeldi Austfjarða gaf sveitarfélaginu fjögur akkeri og setti þau niður til að halda niðri olíugildru sem er yfir flaki skipsins El Grilló og olía lekur úr.
„Okkur var boðin aðstoð til að bregðast við bráðavanda.“
Ákvörðunin fór ekki fyrir sveitastjórn
Ásrún segir að það sé mikilvægt að ásýnd sveitarfélaga sé þannig að íbúarnir geti treyst þeim. „Ég held bara að til þess að fólk beri traust til stjórnsýslunnar í sveitarfélögum hér á landi þá þurfi að setja reglur um þetta. Þetta þarf að vera þannig,“ segir Ásrún Mjöll.
Fjallað er um gjöfina í fundargerð Umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings frá því á mánudaginn. Fram kemur í fundargerðinni, undir liðnum „ábyrgð fylgjandi því að gefa og þiggja“ að fulltrúar minnihlutans spyrji sig spurninga um gjöfina frá laxeldisfyrirtækinu. „Við, fulltrúar V-lista og M-lista, köllum eftir því að settar verði skýrar reglur um gjafir til sveitarfélagsins í ljósi umræðna á fundinum.“
Ásrún segir aðspurð að ákvörðunin um að þiggja gjöfina hafi ekki farið fyrir sveitastjórn Múlaþings.
Yfirhafnarvörður: Brugðist við bráðavanda
Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður á Seyðisfirði, tók ákvörðunina um að þiggja gjöfina frá Fiskeldi Austfjarða. Hann segir að hann hafi haft samband við laxeldisfyrirtækið til að kaupa akkerin til að halda olíugildrunni niðri en að fyrirtækið hafi þá einfaldlega boðist til að gefa þau. „Þetta voru bara akkeri sem þeir voru að fara að henda. Þeir sögðu bara: Þið getið fengið þau fyrir ekki neitt. Þeir ætluðu að henda þeim hvort sem var. Svo áttu þeir leið hér um hjá Fiskeldi Austfjarða og þeir buðust til að setja akkerin niður og ég þáði það. Landhelgisgæslan ætlaði að gera þetta en komst ekki í þetta strax. Við vorum að glíma við olíuleka og það þurfti að bregðast við. Við gátum ekkert beðið lengur.“
Rúnar segir að ákvörðunin um að þiggja aðstoð Fiskeldis Austfjarða hafi alfarið verið hans. „Ég ber algjörlega ábyrgð á þessu og enginn annar og var ekki að gera neitt sem ég mátti ekki gera. Okkur var boðin aðstoð til að bregðast við bráðavanda. Við ætluðum að kaupa þennan búnað af þeim og Gæslan ætlaði að setja þetta niður.“
Rúnar segir að talið um verðmæti á gjöfinni, 6 til 8 milljónir, sé byggt á getgátum. „Ég hef ekki hugmynd um hvað þetta kostar og hef engar forsendur til að tjá mig um það.“
Athugasemdir