Okkur hinum leið alveg ágætlega en við höfðum ekki hugmynd um líðan og upplifun bekkjarfélaga sem féllu ekki innan norma samfélagsins.
Við höfum á síðustu árum séð unga kynslóð vaxa upp sem hafa varpað af sér hlekkjum vanþekkingar. Þau hefa fengið fræðslu gegnum skólakerfið. Eftir að hafa upplifað myrkur vanþekkingar í þessum málum er næstum óskiljanlegt að sjá bylgju fordóma og upplýsingaóreiðu sem ríða nú yfir samfélagsmiðla og ná jafnvel að skjóta upp kollinum í fjölmiðlum sem áður nutu virðingar. Í þeim birtist fortíðarþrá eftir tímum þegar ekki var rætt opinskátt um fjölbreytileika kynvitundar og kynhneigðar. Við megum ekki láta slíka fordóma ná tökum á samfélagi okkar. Við þurfum að vera vakandi.
Í dag sakna ég ekki þeirra tíma sem ég ólst upp við. Tíma þöggunar. Raunar skammast ég mín fyrir þessa tíma, tími sem var bókstaflega banvænn. Í dag vitum við að börn og ungmenni sem féllu utan þess sem við hin köllum normið og ólust upp á tímum vanþekkingar fengu banvæna sjúkdóma. Þessir sjúkdómar voru geðrænir, þeir voru tilkomnir vegna vanþekkingar okkar allra, fordóma sem fylgdu vanþekkingunni.
Rannsóknir sýna margfaldar líkur á alvarlegum geðsjúkdómum, svo sem kvíða, þunglyndi og sjálfsvígshugsunum hjá hinsegin og kynsegin ungmennum sem alast upp í samfélagi þekkingarleysis. Besta leiðin til að afhjúpa fordóma og vanþekkingu er þekking. Þekking varpar ljósi í skúmaskot. Þekking er máttur. Þekking er forsenda samkenndar og samstöðu. Þekking getur bjargað lífi.
Athugasemdir (3)