„Við eigum að fræðast um ólíka kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu – vegna þess að það skiptir máli að við lærum um fjölbreytileika samfélagsins og að við skiljum hann.
Við erum ólík en við eigum öll okkar drauma, þrár og langanir. Og gott samfélag er samfélag þar sem við virðum hvert annað og vinnum saman að því að við öll fáum að blómstra á okkar eigin forsendum. Ég trúi því að það sé samfélagið sem við langflest viljum.“ Þetta skrifar Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í færslu sem hún birti á Facebook í kvöld í tilefni þeirra umræðu sem blossað hefur upp undanfarna daga um að allt of langt sé gengið í að fræða börn og ungmenni um fjölbreytileika samfélagsins þegar kemur að kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu.
Sú umræða á meðal annars rætur sínar í því að Eldur Deville, forsvarsmaður samtakanna 22, gerði sér ferð í Langholtsskóla ásamt tveimur öðrum vegna ábendinga sem hann sagðist hafa fengið um veggspjöld sem fjölluðu um kynhneigð, og þar með talið BDSM. Fólkið frá samtökunum 22 tók meðal annars upp myndbönd af starfsfólki skólans. Málið hefur verið tilkynnt til lögreglu. Í kjölfarið hefur spunnist umræða um bókina „Kyn, kynlíf og allt hitt„ sem kynfræðslubók fyrir börn á aldrinum 7– 10 ára.
Hluti af ótrúlega döpru bakslagi
Katrín segir í færslunni að hún hafi fengið fjölda skeyta um þessi mál þar sem kennarar og starfsfólk skóla er sakað um innrætingu á þessu sviði. „Þessi umræða hefur blossað upp með ógnarhraða – en er vissulega vel þekkt víða um heim. Hún er hluti af hinu ótrúlega dapurlega bakslagi sem hefur orðið gagnvart réttindum hinsegin og kynsegin fólks – einmitt þegar við höfum náð fram langþráðum umbótum í lögum og regluverki þegar kemur að réttindum þessa hóps. Og þetta bakslag er ekki bara á Íslandi – það er víða um heim. Það er ekki þannig að réttindi hinsegin og kynsegin fólks skerði réttindi annarra. Það er ekki þannig að fræðsla um að fjölbreytileika sé innræting eða slíkri fræðslu sé ætlað að þvinga fólk í einhverja tiltekna átt.“
Forsætisráðherra segir að sonur hennar hafi til dæmis lært um túrverki í dag. Það sé ekki vegna þess að hann upplifi þá endilega sjálfur í sínu lífi, heldur sé mikilvægt að hann viti um hvað þeir snúast. „Vegna þess að við viljum skilja allar þær ólíku manneskjur sem skapa eitt stykki samfélag. Þá skiptir máli að skilja að reynsluheimur þeirra er ólíkur. Þess vegna er fræðsla um þessi mál mikilvæg.“
Annar leiðtogi stjórnmálaflokks tjáði sig líka um málið á Facebook í kvöld, en með öðrum hætti. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hlekkjaði við frétt DV um gagnrýni Guðrúnar Ágústu Ágústsdóttur, uppeldis-, fíkni- og fjölskyldufræðings, um Kyn, kynlíf og allt hitt og skrifar: „Þetta er óhuggnanlegt og óhjákvæmilegt að ræða málið. Það getur ekki talist fordómafullt að ræða barnavernd. Þetta verður varla mikið rætt við stefnuræðu forsætisráðherra en farið verður yfir málið á fimmtudaginn í hlaðvarpsþættinum „Sjónvarpslausum fimmtudögum”.“ Um er að ræða hlaðvarpsþætti sem Miðflokkurinn heldur úti.
Þeir hafa skorið upp herför og vantar hvorki mannskap né peninga. Það sjást jafnvel hér á Íslandi í kommentum um kynhneigð áberandi mörg erlend nöfn.
Úganda er eitt dæmi frá Afríku þar sem þetta ber slæma ávexti og fólki er illilega misþyrmt og drepið.
Ég væri ekki hissa á að við sem eitt frjálslyndasta land í heimi hvað það varðar erum sérstakt skotmark þeirra. Þegar öll þeirra rök bíta ekki þá verður börnum teflt fram: barnaníð. Minnir á "Pizzagate".