Ein af stóru spurningunum sem ekkert svar verður við þegar árið 2023 verður gert upp, er þessi: Hver eða hvað drap kokkinn?
Umræddur kokkur er að sjálfsögðu, eða réttara sagt, VAR rússneski auðkýfingurinn og stríðsherrann, Jevgení Prígósjín, einnig kallaður „kokkur Pútíns“.
Það er ekkert grín að lenda uppi á kant við Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Að falla í ónáð hjá honum boðar ekki gott. Ákveðnar líkur eru á að það endi bara með líkkistu, eða þess vegna bara einhvers staðar úti skurði.
Undirritaður skrifaði grein fyrr á árinu um þennan mann, Jevgení Prígósjín, hinn kjaftfora leiðtoga Wagner-hópsins, hér á Heimildinni.
Þá var hann nýbúinn að standa fyrir byltingar eða uppreisnartilraun gegn „keisaranum“ sjálfum, Pútín. Manninum sem hefur haft Rússland í hendi sér undanfarna tvo áratugi eða svo.
Það var hugað af Prígósjín að gera það, en að öllum líkindum kostaði það hann lífið. Því menn ögra ekki Pútín, það er nánast eins og að undirrita eigin aftöku. Pútín er grimmur og óvæginn. Það hefur hann sýnt frá fyrsta degi í embætti. Enda hrynja menn gjarnan niður eins og flugur í kringum hann.
Dottið út um glugga
Á vefsíðu Sydney Morning Herald er að finna „áhugaverða“ samantekt á dularfullum dauðsföllum í Rússlandi undanfarin misseri. Menn hafa verið að „látast“ með skringilegum hætti, m.a. detta út um glugga á sjúkrahúsum og svo framvegis. Hversu líklegt er það?
Eða eins og spurt er í upphafi greinar SMH; ðHvernig geta menn með lífverði og bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu bara dottið niður dauðir?“
Á Wikpedia-síðu má lesa um hin dularfullu andlát þessara manna, sem flestir voru moldríkir, svokallaðir „olígarkar“ - auðmenn, menn sem vissu ekki aura sinna tal. Þar er t.d. sagt frá skyndilegu andláti fyrrum forstjóra Lukoil, sem er eitt stærsta olíufélag Rússlands. Sá hét Ravil Maganov. Hann datt út um glugga á spítala í Moskvu. Hversu líklegt er það?
Og það vildi þannig til að sama dag og þetta gerðist voru allar myndavélar spítalans „í viðgerð.“ Hversu líklegt er það?
Skömmu eftir innrás Pútíns í Úkraínu (í lok febrúar 2022), kallaði Maganov, sem kom frá Suður-Rússlandi, eftir því að endir yrði bundinn á stríðið, sem hann kallaði „sorglegt.“ Var hann í flokki gagnrýnenda stríðsins. En svo bara deyr hann. Andlát hans er aðeins eitt dæmi um það sem farið er að kalla „skyndidauðasyndrómið í Rússlandi“.
Að vísu má ekki alveg afskrifa sjálfsmorð, en Rússland er í þriðja sæti á heimsvísu að því er sjálfsmorð varðar. Maganov var 67 ára gamall þegar hann datt út um gluggann, en árið 2019 fékk hann sérstaka orðu fyrir vel unnin störf í þágu rússneska ríkisins. Þá hafði hann unnið hjá Lukoil frá 1990.
Hvernig dó kokkurinn?
En víkjum aftur að kokkinum. Hvað grandaði honum? Það er stóra spurningin sem einhverjir vita svarið við en almenningur veit ekki svarið við. Sennilega fáum við aldrei að vita rétta svarið.
Jevgení Prígósjin var leiðtogi þessa grimma Wagner-málaliðahóps, sem gerði sig sekan um stórfellda stríðsglæpi í Úkraínustríðinu, sérstaklega í og við borgina Bakmút. Hún er nánast rústir einar eftir aðfarir Wagner-liða og nánast allir 70.000 íbúar hennar flúnir.
Og til að gera langa sögu stutta, þá hrapaði flugvél, sem Prígósjín og aðrir toppar úr Wagner-hópnum voru í, með undarlegum hætti þegar hún var á leið frá Moskvu til Sankti Pétursborgar. Á myndböndum sést vélin falla til jarðar og annar vængurinn er af henni.
Í samtali við CNN sagði sérfræðingur í öryggismálum flugvéla að það væri afar sjaldgæft að vængir dyttu bara sí svona af flugvélum. Á myndböndum heyrist einnig að vélin var enn í gangi þegar hún féll úr um 30.000 feta hæð.
Þetta gerðist þann 23. Ágúst síðastliðinn, eða nákvæmlega tveimur mánuðum eftir byltingartilraun Prígósjín og Wagner-liða. Hann var helst að mótmæla meintri vangetu varnarmálaráðherra Rússlands, Sergei Sjógú og yfirmanni rússneska herráðsins, Valerí Gerasimov, í stríðinu gegn Úkraínu. Prígósjín vildi meina að þeir væru ekki nógu harðir í horn að taka, að þeir gengju ekki nógu hart fram.
Með í ógæfuförinni var einnig Dimítrý Útkin, raunverulegur stofnandi Wagner-hópsins og yfirlýstur nasisti, sem og Valerí Chekalov, en talið er að hann hafi verið einskonar fjármálastjóri hópsins.
Nýtt stríðsfyrirtæki
Wagner-hópurinn er í raun (eða var?) stríðsfyrirtæki með viðamikla starfsemi í Afríku og Mið-Austurlöndum. Stríð er jú meiriháttar „bissness“ ef þannig má að orði komast. Að öllum líkindum verður Wagner-hópurinn, (eða hlutar hans) nú smám saman felldur undir rússneska herinn með einum eða öðrum hætti, menn munu reyna að „slétta“ yfir þetta „frávik“ og þetta „vesen" sem Prígjósjín skapaði. Margt bendir til þess að stofnað verði nýtt „einkarekið stríðsfyrirtæki“ undir stjórn Kreml, þ.e.a.s. Pútíns og hans manna. Í fyrstu neitaði Pútin alfarið að rússneska ríkið hefði nokkuð með fjármögnun hópsins að gera, en síðar kom annað á daginn.
Á myndböndum sem Wagner-liðar birtu á Telegram-síðu sinni eftir flugvélahrapið, mátti sjá brakið og líkin liggja á víð og dreif, en alls voru tíu manns um borð, þar af ein flugfreyja. Öll létust. 30.000 fet eru um 10 kílómetrar.
Miklar sögusagnir fóru strax í gang um dauða kokksins, sem hafði verið í innsta hring Pútíns. Hann hafði farið frá því að vera smákrimmi og pylsusölumaður í Pétursborg á 10. áratug síðustu aldar, en náð að vinna sig alla leið inn hina gylltu sali Kremlar. Náð að auðgast á góðum samningum um mat og vistir til handa rússneska ríkinu, meðal annars skólamat.
Þegar hann lést í „flugslysinu“ var hann því auðmaður, jafnvel er talið að auður hans hafi verið í kringum milljarð dollara, en hafa verður vissan fyrirvara á þessum tölum, rétt eins og með aðrar upplýsingar sem koma frá Rússlandi þessa dagana. Hvað er verður um auð hans nú er ekki vitað. Prígósjín var giftur og þriggja barna faðir.
Á meðan kokkurinn hrapaði til dauða var „einu-sinni-vinur-hans“ forseti Pútín staddur í borginni Kúrsk, að hengja orður í hermenn sem höfðu tekið þátt í „hinni sérstöku hernaðaraðgerð“ í Úkraínu.
En ekki má kalla Úkraínu-stríðið „stríð“ í Rússandi, þá ferðu í fangelsi. Fyrir þetta hafa þúsundir manna hafnað í rússneskum fangelsum frá upphafi innrásarstríðsins í Úkraínu. Því Rússland er alræðisríki.
Þennan dag voru einmitt 80 ár frá lokum hinnar grimmilegu orrustu um Kúrsk í seinni heimsstyrjöldinni. Þar mættust Rússar og skriðdrekasveitir Þjóðverja, nasista. Hinir fyrrnefndu unnu. Talið að allt að milljón manna hafi farist.
„Sérstök jarðarfararaðgerð“
Nokkrum dögum eftir andlát Prígósjín og staðfestingu þess fór svo fram í Pétursborg einskonar „leynijarðarför“ þar sem kokkinum var potað niður. Gárungarnir hafa kallað þetta „sérstaka jarðafararaðgerð“.
„Hetja Rússlands“ (JP fékk þá orðu í fyrra!) var nú komin gröfina. En engar upplýsingar um stað eða stund fengust, allt gert til þess að vekja sem minnsta athygli, enda sagt að Kremlarbóndinn hafi viljað forðast það eins og heitan eldinn að kokkurinn, fyrrum vinur hans, fengi mögulega stöðu píslarvotts. Víðs vegar um Rússland sýndi almenningur hins vegar stuðning við þennan grimma mann og lagði fram blóm til minningar.
Eftir um hálft ár verða 10 ár frá því að átökin í Úkraínu hófust, sem eru nánast bein afleiðing hruns Sovétríkjanna árið 1991. Fyrir um áratug síðan, árið 2014, læddust „litlir grænir menn“ inn á Krímskaga, í ómerktum herbúningum og hernámu svæðið.
Þar var einn stjórnenda náungi að nafni Igor Girkin (notar einnig „stríðsnafnið“ „Strelkov“ ) en undanfarin misseri hefur hann gagnrýnt Pútín og frammistöðu hans í stríðinu á bloggi sínu. Nokkrir svokallaðir „stríðsbloggarar“ hafa fengið að leika lausum hala í Rússlandi og talsvert verið vitnað í skrif þeirra.
Igor, mikill þjóðernissinni, hefur nú verið handtekinn og ákærður, meðal annars fyrir „að hvetja til öfgaaðgerða“. Hversu öfugsnúið getur allt verið í Rússlandi um þessari mundir?
Í þjóðina er pumpað stanslausum áróðri og lygum, í gegnum fjölmiðlakerfi sem sjálft er orðið svo öfgakennt, að þar munar menn ekkert um að tala um notkun kjarnorkuvopna gegn Úkraínu og fleira slíkt. Öllu auðvitað stjórnað úr miðstöð öfganna, Kreml. Frjáls fjölmiðlun er ekki lengur til í Rússlandi og blaðamenn geta auðveldlega látist með dularfullum hætti.
1937 gengur aftur
Í almennri umræðu í Rússlandi er nú árið 1937 sífellt oftar nefnt. Það er árið þegar ofsóknir Jósefs Stalíns, einsgrimmasta harðstjóra sögunnar, gegn sínum eigin mönnum, flokksfólki og öðrum, náðu hámarki. „Hreinsanir Stalíns“ var þetta kallað.
Þó hann hafi aldrei fengið opinbera greiningu má álykta að hann hafi verið illa haldinn af ofsóknarbrjálæði, séð skrattann í hverju horni eins og sagt er. Að minnsta kosti um 750.000 manns voru myrt og um milljón manns enduðu í Gúlagi (þrælkunar og vinnubúðum).
Er Rússland samtímans smám saman á leiðinni í þessa átt? Þar er fólk nú handtekið fyrir minnstu sakir og hin minnstu mótmæli gegn mesta stríði í Evrópu frá lokum seinna stríðs. Ekki skrýtið að spurt sé.
Gjörsamlega sleppir því að nefna ofbeldis valdarán lýðræðislega kjörins forseta í Kív 2014 að undirlagi erlends ríkis eða fjöldamorð hægri öfgamanna og nýnasista í Odessa 2.maí sama ár sem var orsök þess að fólk á donbass svæðinu stóðu upp og börðust gegn morðóðum Azov nýnasista sveitum úkraínumanna