Eftirspurn eftir grænni raforku er mikil og ljóst er að hún muni ekki minnka næstu áratugi. Framboð mun aldrei ná að anna eftirspurn, enda óseðjandi þörf eftir ódýrri, endurnýjanlegri raforku. Það þýðir samt ekki að hér sé einhver orkukreppa. Þvert á móti sýnir það að í tilviki endurnýjanlegrar orku eru íslensk stjórnvöld í þeirri lúxusstöðu að geta valið leiðina fram á við. Að geta valið hvaða eftirspurn eigi að bregðast við og hvernig við viljum nýta þá orku sem er framleidd á kostnað sameiginlegrar náttúru okkar. Því miður hefur það samtal ekki þokast neitt á síðustu tveimur árum. Ráðherra heldur fast í þann hluta stóriðjustefnunnar að lausnin sé alltaf fleiri virkjanir, en hugmyndafræðin um endalausan vöxt í raforkuframleiðslu er löngu úrelt.
Það viðmið sem ráðherra hefur gert að sínu birtist í hraðsoðinni skýrslu starfshóps um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum sem var skilað í fyrra. Í stað þess að vinna sjálfstætt mat valdi hópurinn að safna sex sviðsmyndum frá hagsmunaaðilum, þar sem öfgakenndasta sviðsmyndin kallar eftir því að auka þurfi raforkuframleiðslu um 125% til ársins 2040. Á þann óskalista orkugeirans er hrúgað saman orkufrekum tæknilausnum til að viðhalda óbreyttu samfélagsástandi, ásamt því að viðhalda stóriðjunni sem í dag notar 80% þess rafmagns sem framleitt er á Íslandi, en lítill gaumur er gefinn að því að vinna að nauðsynlegum samfélagsbreytingum til að draga úr orkuþörf til framtíðar. Þessar hugmyndir orkugeirans hefðu vel mátt vera hluti af samtalinu um leiðina fram á við, en hafa í staðinn verið teknar upp af ráðafólki sem grunnforsendan. Umhverfisráðherra talar eins og það sé nánast náttúrulögmál að það þurfi á mettíma að tvöfalda orkuframleiðslu í landi sem nú þegar framleiðir meiri raforku en nokkuð annað ríki miðað við höfðatölu.
Almenningur vill skoða fleira
En hvað finnst almenningi? Þó að hugmyndaheimur ráðherra nái ekki lengra en að sjá nýjar virkjanir sem eina möguleikann þá er nefnilega ekki sömu sögu að segja um almenning. Fyrir forvitnisakir lét þingflokkur Pírata framkvæma könnun á viðhorfi fólks til raforkuþarfar á Íslandi. Í niðurstöðum Maskínu kemur fram að rúmlega helmingur Íslendinga telur mikla þörf á aukinni raforku hér á landi. Það er áhugavert en ætti ekki að koma á óvart. Hávær umræða frá hagsmunaöflum um meintan orkuskort í landinu hefur skilað sínu, en þetta þarf líka að skoða í samhengi við þá staðreynd að hvergi liggur fyrir hversu mikil raforkuþörfin gæti verið. Þar skilar ríkisstjórnin enn auðu.
Landsmenn eru hins vegar ekki sammála um hvernig best sé að mæta mögulegri raforkuþörf. Samkvæmt könnuninni telja 43 prósent svarenda mikilvægt að fjölga virkjunum en rúmlega þriðjungur svarenda í könnunni, 36 prósent, taldi hins vegar mikilvægt að minnka umsvif stóriðju. Þetta eru tveir álíka stórir hlutar Íslendinga sem hafa mjög ólíka sýn á það hvernig hægt er að ná markmiðum um orkuskipti.
Munurinn er bara sá, að ríkisstjórnin talar aðeins máli annars sjónarmiðsins – þess að nýjar virkjanir séu leiðin til að fá raforku í ný verkefni. Fólkið sem vill draga úr vægi stóriðjunnar – sá þriðjungur þjóðarinnar sem vill nýta eitthvað af því gríðarlega magni raforku sem við framleiðum nú þegar til meira gagns – á skilið að stjórnvöld skoði þau mál af jafn mikilli alvöru. Mætti ekki krefjast þess að álverin nýttu bestu fáanlegu tækni? Miðað við útreikninga Landverndar myndi ígildi einnar Hvammsvirkjunar sparast ef ál væri framleitt með sömu orkunýtni og í Noregi. Og er ekki tímabært að reikna út hvaða áhrif gætu orðið af brotthvarfi eins álvers?
Þurfum aðgerðir frá ríkisstjórninni, ekki innantómt tal um virkjanir
Í dag stendur stjórnmálafólk frammi fyrir því að þurfa að gera róttækar breytingar á samfélaginu til að loftslagsbreytingar hafi ekki óafturkræf áhrif á lífsskilyrði framtíðar. Þar skiptir máli að geta lagt gamlar kreddur til hliðar og hugsað út fyrir kassann. Þó að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra komi úr gamaldags botnvirkjunarflokki, þá verður hann að vera með í því – og það er ekki nóg fyrir hann að bera einfaldlega fram óskalista orkugeirans eins og þar sé eina púslið sem vantar að koma fyrir. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum eru víðs fjarri að skila þeim árangri sem þeim er ætlað. Nýjasta dæmið er í útreikningum Umhverfisstofnunar, þar sem fram kemur að fyrir árið 2030 stefni í að losun gróðurhúsategunda dragist aðeins saman um 24% þrátt fyrir markmið í stjórnarsáttmála um 55% samdrátt í losun. Þegar staðan er svona slæm þá þjónar ofuráhersla ráðherra á virkjanamál kannski helst þeim tilgangi að dreifa athyglinni frá aðgerða- og árangursleysi ríkisstjórnarinnar, því ekki einu sinni í stórkallalegustu orkulíkönum þarf mikið af nýrri orku fyrir árið 2030.
Á næstu árum þarf að ná miklum árangri í samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, en þær aðgerðir sem eru nauðsynlegar í fyrstu skrefunum gera ekki nema að litlu leyti kröfur til nýrrar raforku. Frekar en að leggja ofuráherslu á að virkja meira þarf að huga að flutningskerfi og orkunýtni bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum – að ógleymdu því að setja skýrar reglur um að raforku sé forgangsraðað í þágu heimilanna í landinu og grænnar uppbyggingar. Þar er um að ræða einfaldar aðgerðir sem bæta lífsskilyrði víða um land. Ef horft er til lengri framtíðar þarf síðan að setja skýran ramma utan um það hversu mikla raforku samfélagið þarf og þá er mikilvægt að skoða hvar sé hægt að sækja þessi orku.
Í stað þess að einblína á að spilla sífellt fleiri náttúruperlum til þess eins að mæta óseðjandi þörf stórnotenda eftir ódýrri grænni raforku þá er hægt að fara nýjar leiðir. Þriðjungur þjóðarinnar kallar eftir því. Stjórnmálafólk má ekki bugast undan virkjanapressu hagsmunaafla heldur þurfa þau að hafa hugrekki til þess að setja bæði metnað og tíma í að móta næstu skref í orkumálum. Í sameiningu er hægt að taka ákvarðanir sem eru náttúrunni og framtíðarkynslóðum fyrir bestu.
Athugasemdir (3)