Fimm ætlaðir eldislaxar voru veiddir í Mjólká í Arnarfirði á Vestfjörðum á fimmtudaginn í síðustu viku, 24. ágúst. Laxarnir hafa verið sendir til greiningar hjá Hafrannsóknarstofnun og Matís. “ Það voru starfsmenn Fiskistofu sem veiddu fiskana fimm eftir að hafa fengið ábendingar um að mögulega eldislaxa væri að finna í ánni. Þetta segir Guðni Magnús Eiríksson, starfsmaður Fiskistofu, í samtali við Heimildina.
„Það voru og eru laxar í Mjólká og þegar að svoleiðis er þá er mjög líklegt að það geti verið einhverjir eldislaxar þar. Það sem við gerðum var að veiða fiska og velja þá sem voru með einhver eldiseinkenni. Það veiddust alls átta fiskar, þremur var sleppt og fimm voru sendir til greiningar. En það liggur ekki fyrir niðurstaða úr þeirri greiningu: Hvort þetta hafi verið eldisfiskar eða villtir laxar,“ segir Guðni Magnús og bætir því við einkennin hafi verið „minniháttar uggaskemmdir“.
Greiningin tekur mögulega um mánuð: „Ég myndi halda að niðurstöðu sé að vænta innan fjögurra vikna.“
„Það voru og eru laxar í Mjólká og þegar að svoleiðis er þá er mjög líklegt að það geti verið einhverjir eldislaxar þar.“
Stærsta slysasleppingin og hæsta sektin
Guðni Magnús segir aðspurður að mögulegt sé að umræddir laxar hafi komið úr stærstu slysasleppingu Íslandssögunnar, hjá Arnarlaxi í Arnarfirði árið 2021. „Það er ekki útilokað.“
Nokkrir eldislaxar úr þeirri slysasleppingu, þar sem allt að 82 þúsund eldislaxar sluppu úr sjókví fyrirtækisins, veiddust í Mjólká í fyrra, eins og Stundin greindi frá. Slysasleppingar geta verið umhverfisvá þar sem eldislaxarnir geta erfðablandast villtum íslenskum löxum og þar með sett laxastofninn hér á landi í hættu.
Þegar eldislaxar sleppa úr sjókvíum leita þeir gjarnan aftur á það svæði þar sem sjókvíarnar voru. Þetta er það sem gerðist í fyrra þegar eldislaxarnir úr sjókví Arnarlax í Arnarfirði leituðu aftur í fjörðinn og fóru upp í Mjólká, sem er stutt affall frá Mjólkárvirkjun. Mjólká er ekki sjálf með villtan laxastofn.
Í þessu felst að eldislaxar sem sleppa úr sjókvíum geta verið að leita aftur á það svæði þaðan sem þeir sluppu í mörg ár eftir að slysasleppingin átti sér stað. Þannig að áhrif slysasleppingar liggja ekki fyrir fyrr en mörgum árum eftir að hún á sér stað.
Þessi slysaslepping hjá Arnarlaxi leiddi til þess í fyrra að laxeldisfyrirtækið fékk hæstu sekt sem Matvælastofnun hefur lagt á slíkt fyrirtæki hér á landi.
Átta eldislaxar hafa veiðst í Patreksfirði
Annar möguleiki er að laxarnir séu úr slysasleppingu hjá laxeldisfyrirtækinu Arctic Fish í Patreksfirði. Greint var frá því í síðustu viku að göt hefðu fundist á sjókví fyrirtækisins og veiddust eldislaxar í kjölfarið í nágrenni við umrædda kví. Á þessari stundu liggur ekki fyrir hversu margir eldislaxar sluppu úr þeirri kví.
Karl Steinar Óskarsson, deildarstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun, segir að Fiskistofa hafi veitt sex laxa í net í sjó sem talið eru að séu úr kvínni í Patreksfirði auk þess sem íbúi hafi veitt tvo laxa á stöng í Örlygshöfn í firðinum. En orðið hefur vart við laxa stökkva í auknum mæli í firðinum eftir þessa slysasleppingu.
Hafrannsóknarstofnun hefur séð grunsamlega fiska
Í slíkum tilfellum þar sem ætlaðir eldislaxar koma á land eru þeir sendir til Hafrannsóknarstofnunar sem svo sendir laxana til greiningar hjá Matvælastofnun. Í slíkri greiningu er hægt að komast að því úr hvaða sjókví og þar með frá hvaða fyrirtæki eldislaxarnir eru.
Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri ferskvatnslífríkis hjá Hafrannsóknarstofnun, segir aðspurður að eldislaxarnir fimm séu farnir í greiningu. „Fiskistofa fór í þennan leiðangur um daginn, í Mjólká. Þetta eru einu staðfestu fiskarnir. Svo höfum við verið að heyra af og sjá grunsamlega fiska í teljurum. En þetta eru óstaðfestir fiskar.“
Myndir úr laxateljurum sem sýna mögulega eldislaxa, meðal annars úr Laugardalsá á Vestfjörðum, hafa einnig ratað í umfjöllun fjölmiðla, meðal annars á mbl.is í gær.
Guðni segir að hann hafi heyrt af tveimur meintum eldislöxum sem eru á leiðinni til Hafrannsóknarstofnunar til greiningar. Þessir laxar eru úr Laxá í Dölum og Staðarhólsá og Hvolsá. „En þetta eru bara meintir eldislaxar ennþá.“
Ingimundur Bergssson, framkvæmdastjóri Stangveiðifélags Reykjavíkur sem er leigutaki Laugardalsár, segir að einn ætlaður eldislax hafi veiðst í ánni sem hann veit um. „Þessi fiskur er á leiðinni til Hafrannsóknarstofnunar. Þeir skoða þetta bara þar.“
Séu þeir úr kví má gera ráð fyrir að 1000x fleiri hafi sloppið.
Það sem veiðist er eins og að finna nálar í heystakk.