Stríðsástand ríkir nú á ströndum við Miðjarðarhafið. Ekki er þó um eiginlegt stríð að ræða heldur svo kallað „sólstóla-stríð“.
Heimamenn við Costa Blanca strandlengjuna á Spáni, sem orðnir eru þreyttir á að komast ekki að á eigin baðströndum fyrir túristum, gripu nýverið til örþrifaráða. Þeir tóku að mæta á ströndina fyrir sólarupprás og merkja sér pláss með því að planta þar sólstól og spænska fánanum meðan túristarnir sváfu. Siðurinn breiðist nú til nærliggjandi strandstaða.
En Spánverjar eru ekki einir um að reyna að endurheimta landsvæði sín.
Grikkland gat af sér bardagahetjur á borð við Alexander mikla og Akkilles. Þar fylkja nú liði nýjar stríðskempur sem ganga undir heitinu „strandhandklæða krossfararnir“.
Samkvæmt grískri stjórnarskrá eru strandlengjur landsins almannaeign. Íbúum skal tryggður óheftur aðgangur að ströndum sínum og eru einkastrendur bannaðar. En reglurnar eru í auknum mæli hunsaðar.
Í júlí marseruðu íbúar eyjarinnar Paros í sjávarmálinu með mótmælaskilti áletruð slagorðinu: „Endurheimtum strendurnar“. Saka þeir einkafyrirtæki um að sölsa ólöglega undir sig baðstrendur eyjarinnar og fylla þær af sólstólum sem leigðir eru túristum dýru verði svo ekkert pláss er eftir fyrir heimamenn. „Við krefjumst réttar okkar til almannalands, réttar okkar til að nýta strendurnar okkar, sem ógnað er af yfirgangi gráðugra og samfélagslega óábyrgra viðskiptajöfra,“ sagði í yfirlýsingu mótmælenda.
Verður ekki endurheimt
Mikill fjöldi erlendra ferðamanna setti svip á innanlandsferðir Íslendinga í sumar. Í síðasta blaði Heimildarinnar reifaði Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir í leiðara sínum óánægju íslenskra ferðamanna með þau áhrif sem fjölgun erlendra ferðalanga hefur haft á aðgengi að náttúruperlum. Meðal umkvörtunarefnis var mannmergð, mengun, eyðilegging, aðstöðuleysi og síhækkandi verð.
„Sennilega verður þetta sumarið sem okkur öllum varð ljóst að Ísland er að verða ferðaþjónustunni að bráð,“ skrifaði lesandi Heimildarinnar á Facebook. „Sumt sem við munum eftir sem órjúfanlegum hluta Íslands er horfið og verður ekki endurheimt.“
Bjórlíki og sjónvarpslausir fimmtudagar
Í október árið 2012, fyrir meira en áratug, ræddi þáverandi þingmaður Hreyfingarinnar Þór Saari ört stækkandi ferðamannaiðnað í útvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni. „Við ráðum ekki við þennan fjölda,“ sagði Þór. „Íslendingar sem fara niður í miðbæ á sitt kaffihús sem þeir hafa kannski gert árum saman komast ekki að vegna þess að það er allt fullt af einhverjum ferðamönnum.“
Hlátrasköll yfirgnæfðu varnaðarorð Þórs. Viðhorf hans þótti bera vott um molbúahátt. Lengdi hann kannski eftir þeim tíma þegar miðbær Reykjavíkur var alltaf tómur nema á Þorláksmessu og 17. júní? Saknaði hann ekki bara líka sjónvarpslausra fimmtudaga og bjórlíkis?
En Þór reyndist óhugnanlega sannspár. „Ferðamennskan sviptir okkur Íslendinga því umhverfi sem við búum í og höfum alist upp í,“ sagði hann, rétt eins og hann horfði í spákúlu sem sýndi honum ferðasumarið 2023. „Við getum ekki lengur farið á Þingvöll og notið þess að standa á hakinu og horfa á Þingvelli. Við getum ekki lengur farið á Gullfoss og Geysi og notið þess að fara þangað því það eru þúsundir útlendinga þar sem að trufla mann í sínu eigin landi.“
Fórna náttúruperlum fyrir gróða
Ferðaþjónustan hrinti nýverið af stað markaðsátakinu „Góðir gestgjafar“. Í viðtali við Heimildina í vikunni brást Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, við dræmum undirtektum við herferðinni. Hún sagði þörf hafa verið á átakinu vegna neikvæðrar umræðu um ferðaþjónustuna sem fólki í greininni hefði fundist ósanngjörn. Hún sagði neikvæðnina byggða á því að almenningur hefði „ekki næga þekkingu á atvinnugreininni, öllu því góða sem hún hefur fært okkur og hverju hún er að skila okkur.“
Jákvæðar hliðar ferðaþjónustunnar eru ótal margar. Fjölbreytt veitingastaðaflóra finnst nú víða um land, gististöðum fjölgar, áfangastaðir verða aðgengilegri og erlendum ferðamönnum fylgja gjaldeyristekjur. Það verður því að teljast ólíklegt að „allt hið góða“ sem fylgt hefur fjölgun ferðamanna hafi farið fram hjá mörgum. Öllu líklegra er að ástæða „neikvæðrar umræðu“ sé sú að ferðaþjónustan sjálf hefur ekki „næga þekkingu“ á því hverju þungur ferðamannastraumur hingað til lands hefur svipt heimamenn.
Er það frekja í Spánverjum að vilja stunda sólböð á eigin ströndum? Er það heimóttarháttur í Grikkjum að vilja ekki gefa eftir stjórnarskrárvarinn rétt sinn svo að einkafyrirtæki geti virkjað viðskiptatækifærin í sólinni og sandinum? Er það tilætlunarsemi af Íslendingum að vilja nýta lögbundinn rétt sinn og sækja heim ósnortna náttúru, hálendisþjóðgarð en ekki skemmtigarð með lúxushóteli, spa og þyrlupalli?
Með aðdáunarverðri uppátækjasemi hefur ferðaþjónustan gert leiðina greiða að áfangastöðum sem áður voru utan seilingar. Ferðalangar, innlendir sem erlendir, fara upp á jökla, ofan í hella, um ólíklegustu fjöll og firnindi. En velgengni ferðaþjónustunnar hefur einnig svipt landsmenn því sem þeir héldu að yrði alltaf þeirra; ósnortin víðerni, þögnin, einveran í náttúrunni.
Athygli vakti í vikunni þegar Emily Davis, stjórnarmaður í Alþjóðlega hellarannsóknafélaginu, sagði Íslendinga fórna náttúruperlum sínum fyrir gróða. Í viðtali við Rúv sagði hún stjórnvöld þurfa að hugsa lengra fram í tímann. „Ef það er bara hugsað um að græða núna, og ef þið skemmið náttúruna hvernig verður þetta þá í framtíðinni? Þá eyðileggjast náttúruperlur, eða breytast svo mikið að þær missa gildi sitt.“
Orð Emily eru eins og endurómur af gamalli aðvörun. „Menn virðast ætla að fara sömu leið í þessu máli eins og þeir fóru með síldina á sínum tíma og með fiskistofna síðar og virkjanir,“ sagði Þór Saari árið 2012. „Það er allt lagt undir í einu til að græða sem mest á sem skemmstum tíma.“
Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) lagði í sumar til að Feneyjar yrðu settar á lista yfir heimsminjar í hættu. Er talið að borgin verði nú fyrir óafturkræfum skaða, meðal annars vegna ágangs túrista.
Fyrir áratug skelltum við Íslendingar skollaeyrum við áhyggjum af stærð ferðaþjónustunnar.
Ferðaþjónustunni stafar ekki ógn af gagnrýnisröddum. Ferðasumarið 2023 sýnir að ferðaþjónustunni stafar þvert á móti hætta af því að hunsa þær.
Athugasemdir (7)