„Trúin á manninn og frelsisþrá hans er í öndvegi sjálfstæðisstefnunnar. Frelsi og sjálfstæði þjóðarinnar, frjálst framtak, frjáls verslun og frelsi einstaklinganna eru kjarni sjálfstæðisstefnunnar. Samtímis leggur sjálfstæðisstefnan mikla áherslu á að tryggja afkomu þeirra og verja velferð þeirra sem eiga undir högg að sækja í lífinu. Með öðrum orðum; tryggja á sjálfstæða og þróttmikla einstaklinga og þeir eiga að vera kjölfestan í frjálsu og öflugu atvinnulífi. Jafnframt á að gæta þess, að enginn komist á vonarvöl hvort sem er vegna sjúkdóma eða fátæktar. Áherslan er að hjálpa þeim sem lenda í hremmingum til sjálfshjálpar, þar sem það er nokkur kostur.“
Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru þessi orð tekin af heimasíðu stærsta stjórnmálaflokks Íslands, Sjálfstæðisflokksins, og ber þessi kafli heitið „Sjálfstæðisstefnan í hnotskurn“. Feitletrun tilvitnunar er á ábyrgð höfundar þessarar greinar, reyndar væri svo sem hægt að feitletra hana alla.
Því það er ótrúlega þversagnarkennt að flokkur með þessa stefnu skuli vera sá flokkur sem mest ræðir það hvernig koma megi í veg fyrir að hingað komi fólk sem er að leita að frelsi frá stríði, kúgun og öðrum hörmungum. Fólk sem vill skapa sér nýtt líf og finna lífshamingju.
Nýleg lög um innflytjendur eru gott vitni um tilburði í þá áttina, en í þeim eru ákvæði sem ríma illa við sjálfstæðisstefnuna. Í lögunum felst kerfisbundin mismunun gagnvart hælisleitendum og var helsta breytingin sú að allur réttur hælisleitenda til þjónustu, t.d. læknisþjónustu fellur niður eftir 30 daga, þegar viðkomandi hefur fengið synjun á landvist.
Alvarlegar athugasemdir
Þegar frumvarpið var í umsagnarferli fram voru neikvæðar umsagnir um frumvarpið í yfirgnæfandi meirihluta. Læknafélag Íslands gerði meðal annars alvarlegar athugasemdir við frumvarpið, telur það brjóta í bága við „Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna“ — að það mismuni útlendingum gróflega. Engu að síður var það keyrt í gegn, svo að ráðherra málaflokksins þyrfti ekki að bíða „pólítískan ósigur“. Hörkutólin gengu því sátt frá borði.
„Hvaðan á vinnuaflið þá að koma ef við ,,framleiðum“ það ekki sjálf?“
Innflytjendum hefur fjölgað hér á landi, sem og þjóðinni allri. Við erum orðin um 395.000 og þar af eru innflytjendur hátt í 20%, jafnvel meira. Fæðingatíðni hérlendis er hins vegar nú sú lægsta síðan mælingar hófust, var í fyrra aðeins um 1,6 barn pr. konu, en var 4.0 börn í kringum 1950. Þetta er samkvæmt frétt á vef Hagstofunnar of lítið til að viðhalda þjóðinni. Hvaðan á vinnuaflið þá að koma ef við „framleiðum“ það ekki sjálf? Þetta vandamál er til staðar í fleiri ríkjum í Evrópu, fæðingartíðni í ESB var að meðaltali um 1,53 börn pr. konu árið 2021. Er þetta ein af stóru áskorunum framtíðarinnar. Framleiði þjóðir ekki sjálfar sínar „vinnandi hendur“, þá verða þær að koma utan frá. Það segir sig eiginlega sjálft.
Einsleita Ísland ekki til lengur – kemur ekki aftur
Ísland hefur breyst í grundvallaratriðum á síðustu 20 árum eða svo, innflytjendur eru staðreynd og „gamla einsleita Ísland“ er ekki til lengur. Það mun ekki snúa aftur, sama hvort menn básúni það, samkvæmt einhverri óskilgreindri fortíðarþrá, tímanum verður ekki snúið við. Innflytjendamálin eru „nýja herstöðvarmálið“ en á seinni hluta 20. aldar var dvöl og viðvera bandaríska hersins í Keflavík, það mál sem klauf þjóðina einna mest og olli miklum pólitískum deilum. Nú eru það innflytjendur.
Með tærnar upp í loft?
En eru allir þessir innflytjendur með tærnar upp í loft og lifa þeir bara á „bísanum“ (bótum) eins og sagt er? Aldeilis ekki, því komið hefur í ljós að atvinnuþátttaka innflytjenda er hlutfallslega meiri en innfæddra. Það hlýtur að teljast merkilegt.
Til að mynda er það vitað mál að innflytjendur og fólk af erlendu bergi brotið, heldur uppi ferðamannaþjónustu hér á landi að stórum hluta. Fjölmargir innflytjendur vinna einnig í öðrum þjónustugeirum. Allt þetta fólk vinnur hér baki brotnu og borgar sína skatta, rétt eins og aðrir vinnandi Íslendingar. Fróðlegt er að stilla saman tölum um til dæmis skatttekjur ríkissjóðs af vinnuframlagi innflytjenda á móti kostnaðinum við málaflokkinn. Og fleiri tölum, skoðum málið:
Raka inn skatttekjum
Árið 2022 voru skatttekjur ríkissjóðs alls um 950 milljarðar króna. Samkvæmt gögnum frá Hagsjá Landsbankans árið 2019 voru innflytjendur þá um 19% af vinnuafli hér á landi. Líklegt er að þeim hafi fjölgað enn frekar fram til dagsins í dag, en við skulum gefa okkur töluna 20% sem viðmið. Það þýðir að innflytjendur stóðu fyrir um allt að 190 milljörðum af skatttekjum íslenska ríkisins árið 2022.
„Framlag innflytjenda til samfélagsins er margfalt meira heldur en kostnaðurinn við þá“
Á móti kemur vissulega kostnaður vegna málaflokksins, en hann er talinn vera nokkrir milljarðar króna, segjum 8-10 milljarðar. Til samanburðar var hagnaður bankanna á fyrstu sex mánuðum þessa árs um 40 milljarðar. Þá var hagnaður útgerðarinnar árið 2021 um 65 milljarðar.
Niðurstaðan er þessi; framlag innflytjenda til samfélagsins er margfalt meira heldur en kostnaðurinn við þá, eða vegna þeirra eða næstum tuttugufalt miðað við tölurnar hér að ofan um skatttekjur ríkisins.
Atvinnustig og atvinnuþátttaka hér á landi er nú með því mesta sem gerist, en það þýðir að nánast allir þeir þeir sem geta og vilja vinna, geta unnið. Atvinnuleysi um þessar mundir er því mjög lágt. Langflestir innflytjendur taka því mjög virkan þátt í íslensku samfélagi og í þeirri verðmætasköpun sem á sér stað.
Höfum skyldum að gegna
Í grein sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, skrifaði þann 30. júlí síðastliðinn í Morgunblaðið, kom fram að um þessar mundir eru um 110 milljónir á flótta í heiminum. Stór hluti þessa hóps eru konur og börn.
Þórdís Kolbrún segir að Ísland hafi „skyldum að gegna, sem eitt af ríkjum heims sem búa við mestu efnahagslegu velsældina og friðsælasta umhverfið“. Þá segir hún enn fremur að Ísland eigi að vera „hreyfiafl til góðs“ og... „á að hafa sjálfstraust til þess að axla ábyrgð sem fylgir því að vera velmegandi og friðsælt ríki sem getur lagt sitt af mörkum“. Og af velgengni virðist vera nóg á Íslandi, hagvöxtur í fyrra var um 6,4%, nánast „kínverskar tölur“ í þeim efnum. Ísland er ríkt land.
Í ljósi þessara orða er því erfitt að skilja aukna hörku og nánast kerfisbundin mannréttindabrot í innflytjendamálum. Rökin fyrir þessari auknu hörku hafa meðal annars verið þau að „við verðum að vera eins og hin Norðurlöndin“. En er það bara nóg?
Vandamál okkar vegna innflytjenda eru aðeins að litlu leyti sambærileg við til dæmis vandamál Dana og Svía. Raunar á greinarhöfundur erfitt að sjá mikið af „vandamálum“ vegna innflytjenda hérlendis, einfaldlega vegna þess að þeir eru flestir úti á vinnumarkaðnum, á fullu að skapa hagvöxt fyrir Ísland. Það er helst Reykjanesbær sem kemur til tals í umræðunni, enda álagið þar verið mikið, vissulega. Mikið mæðir einnig á Reykjavík, enda hafa sum sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu lengi verið mjög treg til þess að taka á móti hælisleitendum. Vandamálin leysast þó fljótt ef fólk fær til dæmis vinnu og stað til að búa á.
,,Vilja allir vinna“
Undirritaður þekkir persónulega dæmi af innflytjendum sem voru að læra íslensku hér í vetur. Eru þeir frá Venesúela, landi sem er nánast að hruni komið vegna spillingar og efnahagskerfis í anda kommúnisma sem ekki virkar og er bókstaflega að ganga frá landinu. Þar ræður öllu sá sem kalla mætti „einræðisherra“ landsins, Nicolas Maduro, forsetinn. Hann hikar ekki við að bæla mótmæli niður með ofbeldi og kúgun. Ástand sem varað hefur árum saman og lamar samfélagið.
„En af hverju voru flóttamennirnir að læra íslensku? Jú, til þess að geta unnið hér á landi!“
En af hverju voru flóttamennirnir að læra íslensku? Jú, til þess að geta unnið hér á landi! Kennari þeirra (sem ég þekki einnig) sagði mér að ALLIR í hópnum ættu þá þrá heitasta að vinna fyrir sér, sjá sér farborða. Er þetta ekki það sem við viljum sem samfélag? Vinnandi hendur? Og að læra tungumálið er alger grunnforsenda þess að geta tekið þátt í því samfélagi sem þú býrð í. Þar komum við að hlut menntakerfisins í þessum efnum, sem er óumdeildur.
Íslendingar líka verið flóttamenn
Afstaða þessa fólks er aðdáunarverð. Hingað er það komið, með frjálsu framtaki, til að skapa sér nýtt líf, öðlast ný tækifæri. Rétt eins og þær 50 milljónir manna sem flúðu hungur og örbirgð í Evrópu og fóru til Vesturheims, á tímabilinu frá seinni hluta 19. aldar, til ársins 1914. Þar á meðal voru þúsundir Íslendinga. Engum dettur úr hug að gera lítið út þessum ferðum í dag, þetta fólk var að reyna að bjarga sér og öðlast nýtt líf. Og þótti bara sjálfsagt mál.
Sama gerðu einnig þær þúsundir Íslendinga sem flúðu land eftir efnahagshrunið 2008, meðal annars til Norðurlandanna. Því er í raun mjög stutt síðan við vildum láta önnur ríki taka okkur opnum örmum vegna þeirra efnahagslegu hamfara sem dundu yfir landið í Hruninu. Þá vorum við hjálparþurfi. Um 8000 manns fluttust bara til Noregs á árunum eftir hrun. En það var jú einmitt þaðan sem við komum til að byrja með í kringum árið 870 eftir Krist.
Tungumálið er lykillinn
Best væri að skapa hér á landi aðstæður fyrir fólk, þannig að það geti með auðveldustum hætti lært tungumálið okkar, sem er lykillinn, og síðan fengið sér atvinnu. Því það er dagljóst að innflytjendur og framlag þeirra til samfélagsins er gríðarlega mikilvægt og án þeirra værum við einfaldlega ekki stödd þar sem við erum í dag.
Þetta gleymist mjög gjarnan í umræðunni og mun meiri áhersla að lögð á vandamálin sem og „hörku“ og „ákveðni“ einstakra ráðherra, sem þurfa að sýna af sér „dug“ í starfi. Þeir þurfa að koma einhverju í verk, mega ekki sýna af sér neina linkind. Að minnsta kosti virðist það vera leiðarstefið þessi misserin. En er það mikilvægara en velferð þeirra sem hingað leita til að öðlast frelsi, atvinnu og leita lífshamingju? Frjálsir frá kúgun, stríði, fátækt og örbirgð?
Höfundur er stjórnmálafræðingur og framhaldsskólakennari
Athugasemdir (2)