Dýrið var banhungrað. Síðan drunur og skjálftar byrjuðu í fjallinu fyrir ofan dalverpið, þar sem dýrið bjó, höfðu flestöll þau litlu kvikindi sem það lifði á látið sig hverfa. Einhverra hluta vegna hafði þetta unga dýr ekki fylgt í kjölfar þeirra en nú var hungrið farið að sverfa illilega að. Dýrið leit illskulega í kringum sig. Bólstur steig upp frá fjallinu en það var ekki í bili fyrirbrigði sem dýrið hafði áhuga á. Það varð umfram allt að finna eitthvað að éta.
Allt í einu sá dýrið eðlu í svolítilli laut fyrir framan sig. Þetta var einn grasbítanna sem höfðu verið í hundraðatali í dalnum en höfðu flúið hávaðann í fjallinu undanfarna daga. Þessi hafði orðið eftir einhverra hluta vegna. Kannski var eitthvað að, svo hún hafði ekki fullan styrk til að flýja.
Dýrið fann hungrið svella upp í sér. Eðlan var greinilega ung en þó þrisvar sinnum þyngri og meira en helmingi lengri en dýrið og undir venjulegum kringumstæðum hefði það hikað við að ráðast á hana. Þessi grasbítur hafði vissulega ekki beittar tennur, eins og dýrið, en gæti þó kramið það undir sér ef fyrsta atlagan misheppnaðist.
Í þetta sinn hikaði dýrið þó ekki. Það tók á rás að eðlunni og stökk upp á bakið á henni og reyndi að ná með vígtönnunum að hreistruðum hálsinum. En þó eðlan væri kannski ekki upp á sitt besta náði hún að snúa upp á sig svo dýrið missti af hálsi hennar. Það náði samt að bíta sig fast í brjóst eðlunnar og það fór að blæða. Eðlan hrein hástöfum, hringaði sig upp og bylti sér fram og til baka er hún reyndi í ofboði að losa sig við litla dýrið sem hékk fast á því bæði með tönnum og klóm.
Það virtist komin upp pattstaða. Myndi eðlan ná að hrista af sér dýrið eða tækist dýrinu að hanga nógu lengi til þess að kraftar eðlunnar seytluðu burt með blóði hennar? Þetta gæti tekið langan tíma.
En tíma höfðu dýrin tvö ekki. Ógurleg druna heyrðist í fjallinu rétt eftir að átök þeirra hófust en þau hirtu ekki um það — enda um lífið að tefla fyrir þau niðri í dalverpinu. Þau lágu enn um stund í sínum blóðugu faðmlögum og hvorugt vildi gefa sig. Þau tóku því ekkert eftir vaxandi dyn í lofti.
Og allt í einu helltist yfir þau sjóðandi brennandi glóandi heitt öskuský frá fjallinu sem hafði farið niður hlíðarnar á örskotshraða. Þetta var sams konar öskuflóð og helltist löngu síðar yfir borgina Pompeii við Napólí-flóa. Dýrið hafði ekki tíma til að losa tennurnar úr rifjahylki eðlunnar; en henni vannst ekki tími til að rétta úr sér. Logandi askan gleypti þau og drap á augabragði og síðan hurfu þau á kaf í þykkt öskulagið.
Og hvíldu þar og steingerðust í 125 milljónir ára.
En fyrir skömmu voru þau grafin upp, eðlan og dýrið, enn í sínum hinstu faðmlögum; enn voru tennur dýrsins læstar í brjósti eðlunnar.
Núna nefnist staðurinn þar sem dýrin háðu sitt síðasta stríð Liaong-hérað í Kína og eldfjallið ógurlega sem hellti eimyrju sinni yfir þau er nánast horfið. Ár og veður hafa malað það nánast mélinu smærra, svo nú er það bara sakleysislegt fell, vinur allra lífvera.
Kanadíski steingervingafræðingurinn Jordan Mallon, sem starfar við Náttúruvísindasafnið í Ottawa, stýrði rannsókn á steingervingunum frá Liaong-héraði en niðurstöður hennar birtust á dögunum í tímaritinu Scientific Reports. Og skemmst er frá því að segja að þær niðurstöður gætu orðið til að breyta allmjög mynd okkar af þróun og uppruna spendýra í veröldinni.
Þessu hér höfum við lengst af trúað:
Spendýr komu fram á sjónarsviðið fyrir rúmlega 250 milljónum ára. Þá réðu skriðdýrin hins vegar ríkjum á Jörðinni og að lyktum „risaeðlurnar“ eða dínósárusarnir (sem vissulega voru af öllum stærðum) og í nærri 185 milljónir ára voru spendýrin ekki annað en hrædd og lítilmótleg smádýr sem skutust um í lággróðrinum og áttu líf sitt undir því að gráðugar risaeðlurnar kæmu ekki auga á þau.
Þau reyndu því fyrir alla muni að láta ekki á sér bera. Önduðu varla þegar eðlurnar voru nærri.
Það var ekki fyrr en fyrir 66 milljónum ára, þegar loftsteinn small niður á Yucatan-skaga og útrýmdi risaeðlunum á skammri stundu, sem spendýrunum tók að vaxa fiskur um hrygg og þau þróuðust hratt á nýrri framabraut.
En eins og Mallon bendir á, þá segir steingervingurinn frá Lioang aðra sögu.
Báðar þessar tegundir þekktum við áður.
Risaeðlan er af tegundinni Psittacosaurus lujiatunensi. Þær voru grasbítar og á stærð við litla geit, nema lágfættari. Sú Psittacosaurus-eðla sem grófst undir eldinum í Lioang var líklega unglingur, altént ekki alveg fullvaxin, en þó 120 sentimetrar að lengd.
Spendýrið tilheyrði tegundinni Repenomamus robustus og var á stærð við kött. Þetta tiltekna dýr var líka á unglingsaldri en 47 sentimetrar að lengd.
Og það sem Mallon og félögum þykir merkilegt við hinn steinrunna bardaga Psittacosaurus og Repenomamus er að hingað til hefur ekki hvarflað að vísindamönnum að spendýr gæti hafa haft bein í nefinu til að ráðast á þrisvar sinnum stærri og þyngri eðlu. Og væntanlega hefur dýrið ætlað sér að éta eðluna; illt er ímynda sér nokkra aðra ástæðu fyrir árásinni.
Það má að vísu láta sér detta í hug að Psittacosaurus kunni að hafa komið að Repenomamus við að ræna eggjum eðlunnar og ráðist að og dýrið þá varið sig, en ekkert við steingervingana eða steingert umhverfi þeirra bendir þó til þess.
Líkegast er einfaldlega að dýrið hafi talið sig ráða við eðluna.
Og það breytir myndinni af hinum smeyku spendýrum að fela sig sífellt í lággróðinum að eltast við pöddur og murrandi smákvikindi ýmis.
Kannski voru þessir forforeldrar okkar bara miklu borubrattari en við héldum.
En í öllu bænum aldrei hætta með flækjusögurnar.