Það var brúðkaupsdagur elstu dóttur hans. Bandaríski eðlisfræðingurinn Alan Lightman leiddi dóttur sína inn kirkjugólfið. Geislandi af fegurð í hvítum kjól með blóm í hárinu sneri dóttirin sér að föður sínum og bað hann um að leiða sig. Óbærilegur þungi lagðist yfir Lightman.
„Við blasti fullkomin mynd af algerri gleði og algerum harmi,“ skrifaði Lightman í bók sinni The accidental universe. „Því ég vildi dóttur mína aftur eins og hún var þegar hún var tíu ára eða tvítug ... Aðrar myndir þutu um huga mér: Dóttir mín í fyrsta bekk grunnskóla með krossfisk í fanginu stærri en hún sjálf, í brosið vantar framtönn; dóttir mín í barnasætinu á hjólinu mínu þar sem við brunum niður að læk til að kasta steinum í strauminn ... Nú var hún orðin þrítug. Ég sá hrukkur á andliti hennar.“
Þrá okkar eftir varanleika, löngunin til að ekkert breytist, ristir djúpt. Við geymum úr sér gengin seðlaveski í öruggum hirslum innan um götuð vegabréf og ónýt armbandsúr. Við heimsækjum æskuslóðirnar og okkur hlýnar um hjartarætur er við sjáum gamla sandkassann og öndum að okkur sætri lykt af kattahlandi.
Nostalgía hefur fylgt mannkyninu frá örófi alda, þrá eftir stað eða stund sem við höfum fjarlægst, skilið við. En svo virðist sem ný tegund af söknuði leggist nú á fólk.
„Án þess að það dragi úr tekjum okkar“
Blaðamaðurinn Malín Brand er búsett á Suðureyri. Hún var á leið á Ísafjarðarflugvöll þegar hún varð vör við að blámóðu og olíureyk lagði yfir Skutulsfjörðinn. Hún tók ljósmynd af kæfandi reykjarslæðunni sem reyndist koma frá skemmtiferðaskipum.
„Ég tók þessa mynd ... því mér fannst þetta einfaldlega ógeðslegt,“ sagði Malín í samtali við Mbl.is.
Júlímánuður kann að hafa verið sá heitasti á jörðinni í 120.000 ár. Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var ómyrkur í máli á blaðamannafundi um loftslagsbreytingar í síðustu viku. „Tímabil hnattrænnar hlýnunar er liðið,“ sagði Guterres. „Tími hnattrænnar stiknunar er tekið við.“
Flóð, þurrkar, skógareldar. Kæfandi reykjarmökkur yfir byggðarlagi. „Solastalgía“ er nýtt hugtak sem notað er um angist vegna snöggra breytinga á nærumhverfi fólks af völdum loftslagsbreytinga, náttúruhamfara eða stórtækra framkvæmda á borð við námugröft og virkjanir.
Ólíkt nostalgíu, heimþrá eða fortíðarþrá sem stafar af söknuði eftir einhverju sem var yfirgefið, er solastalgía yfirvofandi söknuður þess sem fór ekki neitt. Solastalgía er harmur þess sem horfir upp á heimkynni sín verða fyrir skyndilegri eyðileggingu; hún er sameiginleg sorg samfélags sem týnir við það sjálfsmynd sinni og stefnu.
„Hún er sameiginleg sorg samfélags sem týnir við það sjálfsmynd sinni og stefnu“
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, forseti bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar, sagðist meðvituð um óánægju íbúa sveitarfélagsins vegna mengunar skemmtiferðaskipa. „Auðvitað hefur þetta áhrif á daglegt líf fólks, það er engin launung,“ sagði Sigríður Júlía. Hún kvað mikilvægt að sátt ríkti í sveitarfélaginu um málið – en þó með fyrirvara. „Við þurfum að finna leiðir til þess að ná þeirri sátt,“ sagði Sigríður Júlía, „án þess að það dragi úr tekjum okkar.“
Dýru verði keypt
Fyrir utan gluggann hjá mér í Lundúnaborg blasti eitt sinn við líflegur grasbali. Síðustu þrjú sumur hefur ekki sést annað en sviðin jörð.
Okkur verður tíðrætt um kostnaðinn sem fylgir því að berjast gegn mengun og loftslagsbreytingum. En aðgerðarleysi er dýru verði keypt.
„Hnattræn stiknun“ sverfur nú umhverfi okkar og siði. Fréttirnar eru eins og atriðaskrá yfir komandi solastalgíur. Samkvæmt dagblaðinu sem ég les á morgnana reyna samborgarar mínir nú að sá arfafræjum í skrælnaðar grasflatir sínar í von um að sjá eitthvað grænt vaxa þar á ný. Freyðivínið Prosecco gæti heyrt sögunni til en vegna hita og þurrka er æ erfiðara að rækta ber í bröttum hlíðum freyðivínshéraða Ítalíu. Innan skamms kann okkur þó að standa á sama um eintómt sull í vínglösum okkar því talið er að lyktarskyn mannkyns fari hratt minnkandi vegna mengunar. Flestir munu þó kæra sig kollótta um vínglasið þegar matardiskurinn er tómur. Uppskerubrestir eru nú daglegt brauð en nýverið vöruðu vísindamenn að auki við „hljóðlátu andláti“ alls lífs í hafinu.
Í brúðkaupi dóttur sinnar furðaði Alan Lightman sig á yfirþyrmandi löngun eftir því að tilveran héldist óbreytt. Hann var eðlisfræðingur. Kyrrstöðu var hvergi að finna í fagi hans. Annað lögmál varmafræðinnar kvað á um síaukna óreiðu í alheiminum; ekkert gat varað að eilífu. Hann átti að vita betur.
Lightman bar að endingu kennsl á uppsprettu löngunar sinnar. Hún var samofin ótta hans við dauðann. Ef eitthvað var varanlegt í veröldinni gat hann kannski orðið það líka.
Í þrá okkar eftir óbreytanleika speglast von okkar um eigin ódauðleika.
Hin sárasta solastalgía
Hvað kveikir með þér solastalgíu? Sviðin jörð? Óhreint andrúmsloft? Land sem sökkt er undir lón?
Fleira hverfur nú en það sem við berjum augum.
Þegar Alan Lightman leiddi dóttur sína inn kirkjugólfið þráði hann eilífa framtíð sjálfum sér til handa. Hann tók framtíð annarra sem sjálfgefinni.
Margir telja þann skaða sem mannkynið hefur valdið heimkynnum sínum óafturkræfan. Hin sárasta solastalgía kann að vera endalok sammannlegrar hugmyndar um framtíð, ekki með okkur innanborðs heldur þvert á móti án okkar.
80% þýðisins stoppar í afsökunum, aðrir í afneytun. Einungin ákeðin samsettning einstaklings getur tekið ábyrgð og er tilbúinn að fórna miklum lífsgæðum í dag fyrir líf annarra í framtíðinni.
Mannshugurinn er ekki fær að ná utanum þennan skaða, gera sér í hugalund um hvað raunverulega ræðir.
110 milljarðar manna hafa fram til þessa gengið á jörðinni.
Annars er það lífsins eðli að rísa, deyja og byrja að nýju.
Maðurinn þjónar sem veirusýking í líkamanum jörð. ofnæmiskerfið hefur virkjast og hækkar hitann. Brátt verðum við á brott. Því miður tökum við mest allt líf á jörðinni með okkur en það tekur náttúruna, lífið um 100 milljón ár að koma á fót líffræðilegum fjölbreytileika að nýju.
Allar verur jarðar munu lasta okkur fyrir að hafa ekki ræktað meira þakklæti að fá að ganga á jörðinni sem menn með öllum okkar aðferðum til að njóta lífsins. Við göngum öll saman á næsta tilverustig eftir skólann hér á jörðinni. Við munum hlæja okkur máttlausa að heimskunni, blindninni, fjarverunni, óttanum og skortinum. Eftir áfallið og opinberunina byggjum við nýjan heim á nýjum stað. Hvort við fáum þennan magnaða líkama aftur veit ég ekki.