Sjö til 35 einstaklingar hafa greinst vikulega með Covid-19 hér á landi í PCR prófum og klínískum greiningum á síðastliðnum þremur mánuðum, samkvæmt upplýsingum frá Embætti landlæknis.
Sýni hafa aðallega verið tekin á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri að undanförnu, annars vegar til þess að hægt sé að meðhöndla fólk rétt og hins vegar til þess að koma í veg fyrir að smit berist til annarra sjúklinga eða starfsfólks.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins er hætt að taka sýni vegna einkenna Covid-19 og tekur einungis sýni hjá fólki sem er á leið til landa sem krefjast neikvæðs Covid-19 prófs ferðamanna við komuna þangað.
Greind sýni hafa því verið mjög fá að undanförnu. Líklega eru fleiri smitaðir úti í samfélaginu, og vita ýmist af því með því að taka heimapróf eða gera sér ekki grein fyrir því að þeir séu með Covid. Landlæknisembættið hefur ekki upplýsingar um það hve margir þeir einstaklingar eru.
Athugasemdir