Matvælastofnun (MAST) hefur sent Dýraverndarsambandi Íslands (DÍS) beiðni um að fá frekari upplýsingar um dauðsföll mera í tengslum við blóðtöku á vegum Ísteka sem sambandið greindi frá í tilkynningu í gær.
Í tilkynningunni sagðist sambandið hafa áreiðanlegar heimildir fyrir því að mun fleiri hryssur hefðu drepist við blóðtöku í fyrra en þær átta sem Ísteka tilkynnti Matvælastofnun um. DÍS hafi upplýsingar um dauðsföll á að minnsta kosti tíu bæjum og á einum þeirra hafi fjórar hryssur drepist. Krefst sambandið þess að blóðtaka úr fylfullum hryssum verði tafarlaust bönnuð.
Þessu hafnar Arnþór Guðlaugsson, forstjóri Ísteka. „Ég veit ekki hvaðan DÍS hefur sínar upplýsingar og vona að þau komi þeim í réttan farveg til okkar annars vegar og MAST hins vegar. Meðan ég hef þau gögn ekki leyfi ég mér að efast um réttmæti þeirra,“ segir hann við Heimildina.
Athugasemdir