Árið 1837, árið sem Viktoría Bretadrottning tók við völdum, flutti lítt þekktur rithöfundur inn í raðhúsið ásamt eiginkonu og nýfæddum syni. Þegar fjölskyldan flutti aftur út tæpum þremur árum síðar var höfundurinn orðinn alþjóðleg stórstjarna. Meira að segja Bretadrottning var æstur aðdáandi.
Höfundurinn hét Charles Dickens. Í setustofu hússins, þar sem Dickens skrifaði meðal annars Oliver Twist, gefur að líta forláta arin. Dickens lét gera arininn upp þegar hann flutti inn og skreyta hann marmara. Ef einhver skildi mikilvægi eldstæðis var það Dickens.
Arinninn var aðalsamkomustaður fjölskyldna á Viktoríutímabilinu. Arinninn átti beinan þátt í velgengni rithöfundarins Dickens en það var við birtu og yl eldsins sem fjölskyldur hjúfruðu sig saman í frístundum og lásu verk hans. Arninum bregður ítrekað fyrir í bókum Dickens þar sem hann lýsir upp notalegar fjölskyldustundir.
Í bókum Dickens táknar birta eldsins líf hinna dyggðugu. Eldurinn brennur til að mynda bjart á heimili hinnar göfuglyndu Cratchit fjölskyldu í bókinni Jóladraumur en heima hjá önugu nánösinni Ebeneser Scrooge, eða Skröggi, kulna glæður.
Á tímum Dickens var arineldur birtingarmynd framfara og kærkominna þæginda. En þar sem lýsir ljós er líka skuggi. Ekki aðeins huggulegar fjölskyldustundir áttu upptök sín við arininn. Arinninn var einnig uppspretta kæfandi reykjarmóðu sem lagðist reglulega yfir London.
Snotur myndlíking og öndunarerfiðleikar
Með iðnbyltingunni fylltust margar borgir kolareyk. Víðast var það reykjarmökkur frá verksmiðjum sem olli mestri menguninni. En London var sér á báti. Við aldamótin 1800 var London stærsta borg í heimi en þar bjó rúm ein milljón manna. Árið 1851 var fjöldinn orðinn 2,6 milljónir.
Ólíkt öðrum breskum iðnaðarborgum var það kolaeldur frá heimilum, frá örnum sem hituðu húsin og hlóðum þar sem matur var eldaður, sem var aðalorsök mengunarinnar í London. „Vitin fyllast af sóti og í hvert skipti, sem maður snýtir sér kemur svört klessa í klútinn,“ skrifaði íslenskur kristniboði um mengunarmóðuna í London. „Særindin í hálsinum koma af þessu, og sömuleiðis óþægindi fyrir brjósti og hósti.“
„Lundúna þokan“ vomir yfir í verkum Dickens sem illur fyrirboði. „Þoka alls staðar,“ segir í upphafi Bleak House. „Þoka upp með ánni ... þoka niður með ánni ... þoka í augum og hálsi ellilífeyrisþeganna í Greenwich, sem mása við eldinn á deildum dvalarheimilis síns.“
En þokan var Dickens meira en efni í snotrar myndlíkingar. Í bréfum kvartaði Dickens undan heilsuleysi, öndunarerfiðleikum, hósta og svefntruflunum. Er talið að Dickens hafi eins og svo margt samferðarfólk hans þjáðst af astma sem magnaðist upp í menguninni.
Breskum stjórnvöldum var ljóst að ekki yrði komið böndum á Lundúna þokuna öðruvísi en með því að slökkva einhverja þá opnu elda sem brunnu inni á heimilum fólks. Stjórnmálamenn voru hins vegar tregir til við að setja lög sem takmörkuðu notkun arinsins eða skikkuðu fólk til að fjárfesta í umhverfisvænni kolum og ofnum. Þeir skynjuðu lítinn vilja almennings til breytinga og óttuðust að gripu þeir inn í yrði þeim refsað í kjörklefanum.
Skattur og skógareldar
Arinn Dickens, sem berja má augum á fyrrum heimili rithöfundarins sem nú hýsir safn, fangar togstreitu sem við glímum við enn þann dag í dag.
„Það sem gefur okkur ánægju í andartakinu er einnig það sem sviptir okkur andardrætti í framtíðinni“
Síðastliðinn sunnudag birtust á forsíðu breska dagblaðsins The Sunday Times tvær fréttir. Önnur fjallaði um þrýsting sem formaður breska Verkamannaflokksins, Keir Starmer, setur nú á flokksbróður sinni og borgarstjóra Lundúna, Sadiq Khan. Starmer vill að Khan dragi úr umhverfissköttum sem lagðir eru á mengandi bifreiðar í London. Skatturinn er óvinsæll og er talið að hann hafi kostað Verkamannaflokkinn sigur í nýafstöðnum aukakosningum til breska þingsins.
Við hliðina á fréttinni um óvinsæla mengunarskattinn var frétt um mikla skógarelda á grísku ferðamannaeyjunni Ródos sem sagðir eru stafa af loftslagsbreytingum.
Hin hliðin á náðarstund
Arinninn var Dickens uppspretta yls og náðarstunda. Arinninn kynti undir velgengni hans er samtíðarfólk vakti frameftir og las sögur hans í birtunni frá eldinum. En hin hliðin á náðarstund fjölskyldunnar var þung reykjarmóða á myrkum strætum. Hin hliðin var þoka sem „smaug gegnum hverja glufu og hvert skráargat“. Hin hliðin voru öndunarerfiðleikar og ótímabær andlát.
Enn, tæpum tveimur öldum síðar, er það sem baðar líf okkar birtu einnig það sem sveipar tilveruna myrkri. Frá Ródos berast myndir af skelfingu lostnum túristum sem flýja brennandi hótelgarða, varla sýnilegir gegnum sótsvartan reyk.
Nútíma þægindi eru arinn samtímans. Bíllinn, beint flug til Tene, innflutt nautasteik, lárpera sem ferjuð er yfir hálfan hnöttinn. Það sem gefur okkur ánægju í andartakinu er einnig það sem sviptir okkur andardrætti í framtíðinni.
Það er freistandi að kenna stjórnmálafólki um hvernig komið er og saka þau um að gera ekki nóg. En nýafstaðnar kosningar í Bretlandi sýna að það er fleira en togstreitan milli ljóss og myrkurs, elds og reykjar, sem hefur lítið breyst frá því á tímum Dickens. Vilji okkar til að gefa upp á bátinn áunnin þægindi er enn jafnlítill og þegar Dickens yljaði sér við arininn að Doughty-stræti 48.
Athugasemdir (1)