Tvenn erlend dýraverndarsamtök telja starfshætti lögreglu við ákvörðun um að hætta rannsókn á illri meðferð fylfullra mera við blóðtöku sem og framkomu yfirlögregluþjóns í sinn garð ámælisverða og hafa tilkynnt málið til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu. Lögreglan á Suðurlandi hefur haldið því fram í fjölmiðlum að samtökin hafa neitað að afhenda gögn, þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir, og því hafi rannsókn verið hætt. Þessu hafna samtökin alfarið líkt og fjallað var um í Heimildinni í júní.
Lögmannsstofan Réttur sendi tilkynninguna fyrir hönd samtakanna í gær.
Forsaga málsins er sú að svissnesku dýraverndunarsamtökin Tierschutzbund Zurich (TSB) og þýsku samtökin Animal Welfare Foundation (AWF) gáfu út heimildarmynd í lok nóvember árið 2021 um blóðmerahald á Íslandi. Myndin vakti mikla athygli og hörð viðbrögð en í henni sást grimmileg meðferð á hryssum sem nýttar eru til að afla blóðs fyrir fyrirtækið Ísteka. Blóðmerahald er ekki stundað víða um heim, aðallega í nokkrum Suður-Ameríkuríkjum utan Íslands. Í blóði fylfullra mera er meðgönguhormón sem nýtt er til framleiðslu á frjósemislyfjum. Lyfin eru gefin öðrum búfénaði í haldi manna, m.a. svínum og nautgripum, aðallega í Evrópu.
Aðeins örfáum dögum eftir að heimildarmyndin var birt ákvað Matvælastofnun að hefja rannsókn á aðbúnaði og meðferð blóðmera á Íslandi. Var samtökunum tilkynnt um þetta bréfleiðis og óskað eftir að þau tilgreindu býlin sem um ræddi, að gefnar væru upp dagsetningar upptakanna og að MAST fengi afhent óklippt myndefni sem tekið var upp á býlunum.
Samtökin svörðu því til að í ljósi þess hve persónugreinanlegt myndefnið væri treystu þau sér ekki til að afhenda það. Hins vegar lýstu þau sig reiðubúin að afhenda það lögreglu ef hafin yrði rannsókn á málinu. Þessi samskipti við MAST eru meðal þeirra fjölmörgu gagna sem Réttur hefur sent eftirlitsnefndinni.
Höfðu frumkvæði að samskiptum við lögreglu
Í lok janúar í fyrra, um tveimur mánuðum eftir birtingu heimildarmyndarinnar, settu samtökin sig í samband við embætti lögreglustjórans á Suðurlandi til að upplýsa um gögnin sem þau hefðu undir höndum og til að sýna samstarfsvilja. Þau útskýrðu sömuleiðis það sem þau töldu skyldu sína; að gæta að persónuvernd. Samtökin ítrekuðu hins vegar að þau væru viljug til að afhenda hið upprunalega myndefni.
Um tveimur mánuðum síðar barst samtökunum bréf frá lögreglunni þar sem upplýst var að rannsókn á málinu væri hafin og óskað eftir öllum upprunalegum gögnum og upplýsingum sem samtökin byggju yfir.
Í kjölfarið segjast samtökin hafa byrjað að safna saman því efni sem þau áttu og koma á form sem hægt væri að afhenda lögreglunni. Í þeirri vinnu, segja samtökin í tilkynningu sinni til eftirlitsnefndarinnar, fólst m.a. að tryggja að afhendingin færi eftir laganna leiðum og kom lögmaður þýsku samtakanna að málum.
Þessi sami lögmaður upplýsti í kjölfarið lögregluna um að til að tryggja bæði persónuverndarsjónarmið og sönnunargildi gagnanna fyrir dómi væri að hans mati réttast að setja fram beiðni um réttaraðstoð til þýskra yfirvalda. Lögmaðurinn gaf íslensku lögreglunni einnig leiðbeiningar um hvaða þýsku kollegar þeirra gætu tekið við slíkri beiðni og svo hægt væri að afhenda myndefnið.
Og svo liðu margir mánuðir
Tæpt ár leið hins vegar áður en samtökin heyrðu aftur frá embætti lögreglustjórans á Suðurlandi er aðstoðarsaksóknari þess lýsti því í tölvupósti 25. janúar í ár að verið væri að vinna að réttarbeiðni og óskaði leiðsagnar samtakanna í þeim efnum.
Í sumar kom fram í fjölmiðlum að lögreglurannsókn á meðferðinni á hryssunum sem afhjúpuð var í heimildarmyndinni hafi verið felld niður strax í janúar, nánar tiltekið þann 26. þess mánaðar – aðeins degi eftir að saksóknari embættisins óskaði leiðsagnar samtakanna.
„Málinu var vísað frá vegna skorts á gögnum. Það var fellt niður í lok janúar á þessu ári. Við vorum með það í ár í skoðun og það fengust ekki gögn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.“
Í frétt mbl.is þann 28. júní sagði að rannsóknin hefði verið felld niður vegna skorts á sönnunargögnum erlendis frá og að lögreglan hefði reynt „ítrekað að komast yfir frekari gögn frá dýraverndunarsamtökunum sem uppljóstruðu málinu en allt kom fyrir ekki [...] samtökin hafa skýlt sér á bak við þýsk lög sem krefji þau ekki til þess að afhenda frekari gögn,“ sagði m.a. í frétt mbl.is.
Þar var svo haft eftir Sveini Kristjáni Rúnarssyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Suðurlandi: „Málinu var vísað frá vegna skorts á gögnum. Það var fellt niður í lok janúar á þessu ári. Við vorum með það í ár í skoðun og það fengust ekki gögn þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.“
„Og aldrei kom neitt“
Í byrjun júlí birti Heimildin frétt þar sem Sveinn Kristján var spurður út í störf embættisins við rannsókn málsins og hélt hann því fram að „margbúið“ hefði verið að biðja um gögnin „og aldrei kom neitt“. Hann sagðist hins vegar þurfa að glöggva sig betur á því hvort réttarbeiðnin hefði verið send.
Í tilkynningu Réttar til nefndar um eftirlit með störfum lögreglu kemur fram að þýsk lögregluyfirvöld hafi staðfest með tölvupósti um miðjan júlí að engin beiðni um gagnkvæma réttaraðstoð hafi borist frá Íslandi. Þá sé saksóknara í Freiburg í Þýskalandi ekki heldur kunnugt um að slík beiðni hafi borist.
Dýraverndunarsamtökin gera alvarlegar athugasemdir við þessa atburðarás. Í fyrsta lagi telja þau niðurfellingu rannsóknarinnar með engu móti réttlætanlega og taka verði til athugunar hvers vegna lögreglan hafi ekki sinnt störfum sínum líkt og henni beri að gera. Þá sé framganga yfirlögregluþjónsins í fjölmiðlum vegna málsins „með öllu óásættanleg, á skjön við siðareglur, í ósamræmi við sannleikann og gögn málsins“. Því verði nefndin að taka störf lögreglunnar til athugunar.
Samtökin telja þá atburðarás sem leiddi til niðurfellingar rannsóknarinnar starfsaðferð sem standist „enga skoðun“ og gefi tilefni til skoðunar með tilliti til lögreglulaga. Áhyggjuefni sé að embætti lögreglustjórans á Suðurlandi „virðist ekki vera í stakk búið til að fylgja eftir og klára upplýsingaöflun við rannsókn máls um refsiverða háttsemi, sem hafi tengsl út fyrir landsteinana“.
Samkvæmt upplýsingum yfirlögregluþjónsins hafi aðeins liðið einn dagur frá því að óskað var leiðbeininga um þýsk lög frá embættinu og að ákveðið var að fella málið niður. Því sé ljóst að ekki var beðið eftir svörum frá samtökunum áður en sú ákvörðun var tekin. „Því liggur fyrir að þrátt fyrir skýrar vísbendingar um að lögbrot og ill meðferð dýra ætti sér stað, gögn hafi verið til um þá meðferð, og líkur væru á áframhaldandi brotum í ljósi þess að blóðmerahald er enn stundað, hafi embættið hætt rannsókn,“ segir í tilkynningunni til nefndarinnar.
Nýverið greindi Heimildin m.a. frá að minnsta kosti átta fylfullar hryssur hefðu drepist í tengslum við blóðtöku hér á landi í fyrra. Einhverjum þeirra blæddi út.
Rýrir trúverðugleika
Dýraverndunarsamtökin telja framkomu yfirlögregluþjónsins „óviðunandi og ámælisverða“. Fullyrðingar hans í fjölmiðlum í sumar séu ekki í samræmi við gögn málsins eða samskipti embættisins við samtökin og séu ósönn. Slíkt sé skaðlegt fyrir umræðu um málið auk þess sem það rýri trúverðugleika samtakanna og valdi þeim orðsporshnekki. Það sama megi segja um trúverðugleika lögreglunnar sjálfrar.
Samtökin hafi verið sökuð um skort á samstarfsvilja og að hafa haldið eftir gögnum þegar þau hafi þvert á móti haft frumkvæði að samskiptum við lögregluna og leiðbeint um hvernig tryggja mætti að gögnin stæðust skoðun dómara. „Eru slíkar aðdróttanir alvarlegar.“
Athugasemdir (3)