Við hrun Sovétríkjanna fyrir röskum 30 árum lauk köldu stríði milli tveggja stórvelda, stríði sem hafði geisað frá lokum heimsstyrjaldarinnar síðari 1945. Árin eftir 1991 gafst því tækifæri til gríðarlegra umskipta, ekki bara í Rússlandi og fyrrum leppríkjum þeirra í Austur-Evrópu og í suðurríkjum Sovétríkjanna sem voru nú liðin undir lok, heldur í heiminum öllum. Slík tækifæri gefast jafnan þegar friður brýzt út.
Sterkt Pólland, veikt Rússland
Jeffrey Sachs, þá hagfræðiprófessor í Harvard-háskóla og nú í Kólumbíu-háskóla í New York, hefur lýst því hvernig Bandaríkjastjórn og bandamenn hennar í Evrópu bitu það í sig að synja Rússum um fjárhagslega aðstoð og fleira eftir 1991, sams konar hjálp og Bandaríkin og ESB höfðu fúslega veitt Pólverjum skömmu áður með góðum árangri. Aðstoðin sem Póllandi var veitt að ráði Sachs og annarra skipti sköpum og gerði Pólverjum kleift að komast aftur inn í meginstraum fagurs mannlífs í Evrópu. Fyrirmyndin að endurreisn Póllands var öðrum þræði Marshall-aðstoðin sem Bandaríkjastjórn veitti Evrópuríkjum eftir síðari heimsstyrjöldina.
Sachs var á staðnum, fyrst í Varsjá og síðan í Moskvu, og var því sjónarvottur að því hversu fúslega Bandaríkjastjórn féllst á að hjálpa Pólverjum og hversu staðfastlega hún þverskallaðist við að hjálpa Rússum. Sachs fullyrðir að Bandaríkin vildu að Pólland væri sterkt og Rússland veikt. Það má kalla gríðarlega bommertu af hálfu Bandaríkjastjórnar.
Hefði aðild Rússlands að ESB dugað til að tryggja öryggi Úkraínu? Örugglega.
Það er ekki auðvelt að verjast þeirri tilhugsun hvernig Rússland kynni að hafa þróazt sem frjálslynt lýðræðis- og réttarríki hefðu Bandaríkin og ESB ákveðið að bjóða ríkisstjórn Borisar Jeltsín, fyrsta þjóðkjörna forseta Rússlands, myndarlega aðstoð á fyrsta áratug frjáls Rússlands, 1991-2000, aðstoð sem ríkisstjórn Rússlands þurfti á að halda og hefði þegið með þökkum. Ef Rússar hefðu fengið svipaða hjálp og hvatningu og Þýzkaland, Ítalía og Japan fengu eftir síðari heimsstyrjöldina, hefðu Rússar þá getað náð nægum árangri til að geta gengið inn í ESB fyrir til dæmis 2014? – eins og við vildum mörg framan af. Kannski. Hefði aðild Rússlands að ESB dugað til að tryggja öryggi Úkraínu? Örugglega.
Við munum aldrei fá að vita svarið við fyrri spurningunni. Svarið veltur meðal annars á því hvernig tekizt hefði að halda yfirráðum yfir náttúruauðlindum Rússlands í réttum höndum frekar en að leggja þau upp í hendurnar á nýrri stétt ólígarka og kleptókrata, rússneskra eða erlendra. Það er auðvelt að sjá fyrir sér að ríkisstjórn Jeltsíns hefði talið nauðsynlegt að halda bandarískum hagsmunum í öruggri fjarlægð frá rússneskum olíulindum og námum. Ferill Bandaríkjastjórnar í Austurlöndum nær býður slíkri tortryggni heim.
Austurlönd fjær
Löng og sár saga Rússlands af stöðugri útþenslu, austur á bóginn að Kyrrahafi líkt og til suðurs og vesturs, minnir okkur á að Vladivostok var áður kínversk borg til ársins 1860, sem er nýliðin tíð af sjónarhóli Kínverska kommúnistaflokksins.
Pútín Rússlandsforseti hefur sýnt heiminum að hann telur sig eiga rétt á að innlima Úkraínu í rússneska sambandsríkið, rétt sem hann reisir á ranghugmyndum um sögu Úkraínu eins og Timothy Snyder sagnfræðiprófessor í Yale-háskóla hefur lýst rækilega ásamt öðrum. Kínverjum mun þá kannski í því ljósi finnast það koma til greina að endurskoða viðhorf sín til svæðanna sem þeir misstu í hendur Rússa á 19. öld.
Margir Rússar hafa áhyggjur af þessu núna. Félagi minn einn hélt í fyrra fyrirlestur í Novisibirsk, stærstu borginni í Síberíu. Þegar lestrinum lauk réttu margir áheyrendur hans upp hönd og spurðu allir sem einn: Hvenær koma Kínverjarnir? Kannski er bezta leiðin fyrir Rússa til að halda þessum landsvæðum að þeir falli án tafar frá tilkalli sínu til Úkraínu og skipi hersveitum sínum að snúa aftur heim frekar en að þurfa að horfast í augu við eða hætta á hernaðarósigur og síðan hugsanlega enduryfirtöku Kínverja á fyrri landsvæðum sínum í Austurlöndum fjær.
Austurríska fyrirmyndin
Í bezta heimi allra heima myndu Rússar breyta um stefnu, virða rétt nágranna sinna til að ganga í þau bandalög sem þeir vilja helzt ganga í, en áskilja sér jafnframt sjálfsagðan rétt til að reyna að sannfæra þá um að kannski gæti hlutleysi að hætti Austurríkis verið ákjósanlegt og ásættanlegt. En þessu er erfiðara að koma í kring núna þegar Finnland og Svíþjóð hafa í ljósi atburðanna snúið baki við áralöngu hlutleysi að austurrískum hætti. Þegar öllu er á botninn hvolft er sá munurinn á Austurríki og Finnlandi að Finnar deila löngum landamærum með Rússlandi, 1.340 km.
Kannski hefði verið hægt að semja á slíkum hlutleysisnótum fyrir innrásina í Úkraínu í febrúar 2022 eða fyrir byltinguna á Maidan-torgi í miðborg Kiev 2014, reisnarbyltinguna sem Úkraínumenn nefna nú því nafni, kannski ekki. Kannski hefði verið hægt að ná samkomulagi strax eftir 1991 um hlutleysi Austurríkis sem fyrirmynd handa fyrrum Varsjárbandalagsríkjum og Eystrasaltsríkjunum þrem, Eistlandi, Lettlandi og Litáen, en svo fór þó ekki. Kannski var það ekki hægt, að minnsta kosti ekki í Póllandi og varla heldur í Eystrasaltsríkjunum svo brennd sem þau voru af kúguninni sem þau máttu sæta af hálfu Rússa 1945-1990. Og sá er að sönnu munurinn á Austurríki og fyrrum Varsjárbandalagsríkjum og Eystrasaltsríkjunum þrem að Austurríki á ekki landamæri að Rússlandi, Hvíta-Rússlandi eða Úkraínu sem Pútín Rússlandsforseti lítur ranglega á sem órofa heild.
En ef það var hægt eins og sumir halda fram, þá væri gagnlegt að fá að vita hvers vegna slíkur samningur náði ekki fram að ganga og hver ber ábyrgðina á að svo fór. Voru það Pólverjar? Var það Bandaríkjastjórn? Endurtók hún villuna frá 1991?
Loforðssvikabrigzl
Aðrir hafa bent á að bandarískir og evrópskir stjórnmálaleiðtogar og embættismenn lofuðu rússneskum starfsbræðrum sínum eftir 1991 að NATO yrði ekki fært út í austurátt. Um þetta eru til skriflegar heimildir sem leynd hefur verið létt af. Aðrir halda öðru fram. En þetta var samt ekki loforð sem leiðtogar NATO-ríkja gátu leyft sér að gefa upp á sitt eindæmi eða Rússar gátu tekið trúanlegt án þess að íbúar Austur-Evrópu væru hafðir með í ráðum og spurðir um hvernig þeir kysu helzt að haga vörnum sínum og aðild að fjölþjóðlegum bandalögum eftir allt sem á undan var gengið.
Íbúafjöldinn í Austur-Evrópu er nú tæpar 300 milljónir, litlu minni en í Bandaríkjunum. Þetta fólk vill ekki vera peð í tafli tilætlunarsamra stórvelda og áskilur sér því augljósan rétt til að ráða sér sjálft.
Athugasemdir (4)