Árið 2015 hleypti sædýragarðurinn SeaWorld af stokkunum markaðsátakinu #AskSeaWorld. Var fólk hvatt til að spyrja fyrirtækið spurninga á samfélagsmiðlum um líf dýranna í garðinum. Herferðin snerist hins vegar í höndum forsvarsmanna fyrirtækisins. Í stað þess að spyrja krúttlegra spurninga um hvað höfrungarnir hefðu fengið í morgunmat hrönnuðust inn spurningar sem beindu athygli að vafasamri meðferð á háhyrningum í dýragarðinum: „Hvers vegna er bílastæðið ykkar stærra en tankur háhyrninganna?“ „Ef þú værir háhyrningur, hvort vildir þú eiga heima í hafinu með fjölskyldunni þinni eða aleinn í tanki?“
Í vikunni leit markaðsátak ferðaþjónustunnar „Góðir gestgjafar“ dagsins ljós.
Eru landsmenn hvattir til að birta á samfélagsmiðlum kveðju til ferðamanna á rafrænum póstkortum. Með verkefninu vilja Samtök ferðaþjónustunnar, menningar- og viðskiptaráðuneytið og aðrir hagsmunaaðilar minna landsmenn á að „gestrisni þjóðarinnar er stór þáttur í góðri upplifun ferðamanna á Íslandi“. Er fólk hvatt til að taka vel á móti þeim, sýna þeim kurteisi og muna eftir „gæðunum“ sem þeim fylgja.
„Ósjaldan leiða tilraunir til að sópa skít undir teppi til þess að rykið þyrlast upp“
Herferð ferðaþjónustunnar líkist í senn heilaþvotti og hótun, ásökun og skipun. Enda féll hún strax í grýttan jarðveg á samfélagsmiðlum: „Sturluð frekja.“ „Ég vinn ekki í ferðaþjónustu.“ „Þetta er mest „tone-deaf“ síðan ferðaþjónustan heimtaði að COVID-veirunni yrði sleppt lausri yfir samfélagið.“ Sú söguskýring virðist orðin viðtekin að ferðaþjónustan ein síns liðs hafi bjargað Íslendingum frá því að enda aftur soltnir í sauðskinsskóm með sultardropa í torfkofum eftir bankahrunið 2008. Sjálfskipaðir handhafar fjöreggs þjóðarinnar krefjast nú sömu hollustu og fjármálafyrirtækjum var sýnd í góðærinu. Sú krafa er uppi að landsmenn taki á móti túristum með brosi á vör og viðmótinu „mitt er þitt“, þeir andi að sér útblæstri skemmtiferðaskipanna með þakklæti í brjósti og rétti loks ferðamanninum, sem gerir þarfir sínar innan um nýgróðursettar stjúpur í bakgarðinum, rúllu af klósettpappír. En ósjaldan leiða tilraunir til að sópa skít undir teppi til þess að rykið þyrlast upp.
Óánægja kæfð með markaðsátaki
Markaðsherferð SeaWorld, var ætlað að lægja öldur. Sædýragarðurinn hafði sætt harðri gagnrýni í kjölfar sýningar heimildarmyndarinnar „Blackfish“ árið 2013, um illa meðferð fyrirtækisins á háhyrningum. En tilraun markaðsdeildarinnar til að kæfa gagnrýnina olli þvert á móti enn meira fjaðrafoki.
Sama gerist nú í kjölfar verkefnisins „Góðir gestgjafar“. Ferðaþjónustan reynir að kæfa óánægju landsmanna yfir ágangi greinarinnar með markaðsátaki. Hún uppsker hins vegar uppþot. Tvö lið takast nú á í rökræðukappleik um ferðamannageirann.
Fyrra liðið, afsprengi takmarkalausrar tilætlunarsemi forsvarsmanna ferðaþjónustunnar, segir túrista ógna íslenskri tungu, leiða til hækkandi vöfflu verðs og lækkandi gönguhraða á Laugaveginum.
Síðara liðið, krossmenn sem drífur að í hvert sinn sem eitthvað heimskulegt er sagt á internetinu í leit að tækifæri til að upphefja sjálfa sig, segir hitt liðið afdala pakk sem hatar útlendinga og spyr: „Viljið þið ekki gjaldeyrisforða, litlu skítirnir ykkar?“
Á hliðarlínunni vefst ringluðum meirihlutanum tunga um tönn þar sem hann tvístígur og spyr sig: Hvort vil ég vöfflu eða gjaldeyrisforða?
Krafa um þýlyndi
Árið 2016, eftir áralanga gagnrýni, tilkynntu stjórnendur SeaWorld að fyrirtækið hygðist hætta að halda háhyrninga í sædýragörðum sínum. Kynslóð háhyrninga sem nú er hýst í görðum fyrirtækisins er sú síðasta.
Vilji ferðaþjónustan aukna sátt um greinina eiga forsvarsmenn hennar ekki annarra kosta völ en að láta af blygðunarlausum kröfum um þýlyndi og byrja að hlusta á gagnrýni. Frekja talsmanna túristaiðnaðarins hefur ekki áorkað öðru en pólskiptingu umræðunnar í tvívítt rifrildi um hvort við séum með eða á móti túristum. Svo að uppbyggilegt samtal megi hefjast þarf ferðaþjónustan að fara að haga sér eins og samstarfsaðili þjóðarinnar en ekki yfirmaður hennar og meirihluta eigandi.
Landsmönnum er nú skipað að halda sig á mottunni með markaðsátaki sem þeir greiða sjálfir fyrir með opinberu fé. En sátt verður ekki keypt af auglýsingastofu. Henni verður aðeins náð fram með raunverulegu samtali.
Tek undir annað