Mikilvægi húðumhirðu hefur verið í brennidepli á samfélagsmiðlum síðustu ár. Markaðsvirði húðumhirðu bransans vex milli ára og spá sérfræðingar því að árið 2023 verði bransinn metinn á 155 milljarða Bandaríkjadala. Erlendis eru Johnson Johnson, L’Oréal og Estée Lauder þrjú af verðmætustu fyrirtækjum húðvöruiðnaðarins. BIOEFFECT, Bláa Lónið og Sóley eru meðal þeirra fyrirtækja sem eru leiðandi í framleiðslu á húðvörum hérlendis.
Húðlæknirinn Ragna Hlín Þorleifsdóttir segir mikla vitundarvakningu hafa orðið síðustu ár hvað varðar húðumhirðu, þá sérstaklega um skaðleg áhrif sólarinnar. Hins vegar má öllu ofgera og tekur hún fram að einfaldleikinn sé ávallt betri en flóknar húðrútínur með mörgum vörum. „Það er til rosalega mikið af húðvörum og það er líka vandamál að fólk er að nota of mikið af þeim. Þú ert að nota 10 vörur í kvöldrútínu þegar þú þarft kannski bara tvær eða þrjár vörur.“
Strangar reglur
Ragna segir það ómögulegt að búa til eina vöru sem hentar öllum. „Í rauninni er þetta meira spurning um að fólk noti vörur sem henta þeirra húðtýpu.“ Til dæmis velur fólk með þurra húð frekar olíukenndari og feitari vörur. Alls kyns frasar eru notaðir til þess að lokka fólk að vörum samkvæmt húðlækninum. Hún nefnir það sem dæmi að þrátt fyrir að vara sé búin til úr lífrænum efnum sé ekki víst að hún henti öllum. „Þú getur fengið ofnæmi fyrir vörum sem innihalda bara lífræn efni.“ Algengast er þó að fólk þrói með sér ofnæmi fyrir ilmefnum. „Það er rosalega mikið af ilmefnum í snyrtivörum og jafnvel í vörum eins og sprittbrúsum. Við erum að sjá aukin ofnæmisvandamál út af efnum sem eru sett í snyrtivörur.“
Hún segir lítið fylgst með markaðshlutanum af húðvörugeiranum þó að eftirlit með innihaldsefnum vara sé strangt í Evrópu. „Það eru rosalega strangar reglur í Evrópu um innihaldsefni í snyrtivörum þannig að hlutir eru ekki settir á markað með einhverjum hættulegum efnum. Og það er alveg búið að taka út fullt af efnum sem voru í vörum áður fyrr.“ Aukin þekking vegna fleiri rannsókna leiddi í ljós að efni sem áður voru notuð höfðu slæm áhrif á fólk eða lífríkið. „Það er mikið svoleiðis í umræðunni í dag, hvaða áhrif efni hafa á lífríkið í sjónum og umhverfið.“
Upplýstur kúnnahópur
Sigrún Dögg Guðjónsdóttir er framkvæmdastjóri rannsókna og þróunar hjá íslenska fyrirtækinu BIOEFFECT sem selur húðvörur um allan heim. Rekstrartekjur fyrirtækisins voru 1 milljarður og 731 milljón árið 2022 samkvæmt Keldunni.
„Við erum alíslenskt fyrirtæki. Gróðurhúsið er rétt hjá Grindavík og þar ræktum við bygg. Allar vörurnar okkar eru framleiddar hér og það er okkur mjög mikilvægt að Ísland sé kjarninn, það er okkar sérstaða.“
Framkvæmdastjórinn hefur tekið eftir aukinni vitundarvakningu fólks er varðar húðumhirðu, sérstaklega hjá yngri kynslóðum. „Fólk vill fá vöru sem virkar og gerir það sem við segjum að hún geri. Kúnnahópurinn er orðinn miklu upplýstari og ákveðnari. Það eru meiri kröfur gerðar á fyrirtækin. Fólk er alveg óhrætt við að setja sig inn í vísindin af því að það er svo auðvelt að afla sér upplýsinga, miðað við hvernig það var fyrir 20 árum síðan. Við sjáum alveg að fólk setur sig inn í hlutina, sýnir áhuga og spyr dýpri spurninga en áður.“
Rúmlega 42 þúsund manns fylgja íslenska fyrirtækinu á Instagram og tæp hálf milljón notenda á TikTok hefur horft á myndbönd merkt myllumerkinu BIOEFFECT.
Aðspurð hvers vegna fyrirtækið veki athygli í geira þar sem samkeppni er hörð, segir Sigrún Dögg: „Hérna heima auglýsum við vörurnar mjög vel og eigum traustan kúnnahóp. Fyrir það erum við ofboðslega þakklát. Svo má bæta við að við komumst í gegnum Covid-19 og hrunið. Þetta er orðið rótgróið fyrirtæki og orðsporið ferðast mjög hratt hér á Íslandi.“
Byggt á vísindum
„BIOEFFECT var undir Orf líftækni þar til í byrjun ársins 2022. Orf líftækni var stofnað af þremur vísindamönnum sem fundu leið til að framleiða vaxtarþætti í byggi.“ Við rannsóknir sínar áttuðu vísindamenn Orf líftækni sig á mikilvægi vaxtarþáttarins EGF í húðinni. Skammstöfunin EGF stendur fyrir Epidermal Growth Factor. „Þetta er vaxtarþáttur sem við fæðumst með í húðinni og erum með alla lífsleiðina. Þegar við fáum sár eða eitthvað slíkt þá eykst framleiðsla og losun en þessi vaxtarþáttur í húðinni hjálpar meðal annars til við að græða og byggja húðina upp aftur.“
Fyrirtækið hefur staðið fyrir rannsóknum hérlendis þar sem áhrif EGF eru skoðuð. „Við höfum séð að húðin þykkist, styrkist og verður stífari.“
„EGF serumið var fyrsta varan okkar. Hún er rosalega hrein og með fá innihaldsefni. Við erum enn þá að fá fólk sem er með ofnæmi eða óþol í húðinni og þetta er það eina sem þau geta notað.“ Sigrún Dögg segir vöruna strax hafa fengið meðbyr frá almenningi. Í dag framleiðir BIOEFFECT 14 húðvörur og selur þær víðs vegar um heim, til dæmis í Lundúnum, París, Japan og Bandaríkjunum.
Vörurnar, sem hugsaðar eru fyrir hinn hefðbundna kúnna, hafa einnig komið þeim sem glíma við sértækari húðvandamál að góðum notum. „Við vorum hér með ungan mann sem var með mjög mikið fótaexem sem gerði það að verkum að það var sárt að ganga. Hann byrjaði að nota EGF serumið á fæturna og það hefur alveg bjargað honum. Eins vitum við af því að handboltamaður notar EGF á hendurnar til að halda exemi í lófunum niðri vegna þess að húðin hans tekur ekki vel í harpexið.“
Á sama tíma og neytendur eru orðnir meðvitaðri um virkni og virði ákveðinna vara hefur skapast undiralda á markaði af karlmönnum sem nota húðvörur. Sigrún Dögg segir flesta karlmenn varla hafa borið á sig krem fyrir nokkrum áratugum en nú sé það algengara. „Vörurnar okkar eru kynlausar þannig að ég held að við myndum alveg ná til karlmanns á sextugsaldri sem hefur aldrei borið á sig krem.“
Athugasemdir (1)