Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað Ástráð Haraldsson í embætti ríkissáttasemjara til fimm ára frá og með 18. júlí. Frá þessu er sagt í tilkynningu frá ráðuneytinu í dag.
Embættið var auglýst þann 2. júní í kjölfar þess að að Aðalsteinn Leifsson sagði sig frá embættinu, en Ástráður hafði verið settur í embættið tímabundið frá 1. júní.
Umsóknarfrestur var til og með 19. júní og alls bárust sex umsóknir um embættið. Umsækjendur metnir af ráðgefandi hæfnisnefnd sem félags- og vinnumarkaðsráðherra skipaði, en nefndin var skipuð fulltrúum samtaka aðila vinnumarkaðarins og ráðherra.
Tveir umsækjendur þóttu mjög vel hæfir
Nefndin skilaði álitsgerð sinni 10. júlí og var niðurstaða hennar að tveir umsækjendur væru mjög vel hæfir til að gegna embætti ríkissáttasemjara.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að það hafi verið mat félags- og vinnumarkaðsráðherra að af þeim tveimur umsækjendum sem nefndin taldi mjög vel hæfa til að gegna embætti ríkissáttasemjara uppfylli Ástráður best þær kröfur sem gerðar eru til þess sem gegnir embættinu.
Auk Ástráðs sóttust þau Aldís Guðný Sigurðardóttir, lektor við viðskiptadeild HR og forstöðumaður MBA-náms, Hilmar Már Gunnlaugsson lyfjafræðingur, Maríanna Hugrún Helgadóttir formaður og framkvæmdastjóri Félags íslenskra náttúrufræðinga, Muhammad Abu Ayub vaktstjóri og Skúli Þór Sveinsson sölumaður, eftir embættinu.
Ástráður Haraldsson lauk embættisprófi í lögfræði við Háskóla Íslands árið 1990. Hann öðlaðist héraðsdómslögmannsréttindi árið 1991 og var skipaður hæstaréttarlögmaður árið 1995. Hann starfaði svo sem lögmaður í á þriðja áratug áður en hann tók við embætti héraðsdómara í janúar árið 2018.
Til viðbótar hefur hann verið prófdómari í vinnurétti auk þess sem hann hefur sinnt stundakennslu í vinnurétti. Hann hefur einnig haft aðkomu að embætti ríkissáttasemjara í störfum sínum, en hann var í hlutastarfi sem aðstoðarsáttasemjari við embætti ríkissáttasemjara frá árinu 2019 þar til hann tók við embætti dómara við Félagsdóm árið 2022. Hann var settur ríkissáttasemjari í deilu Samtaka atvinnulífsins og Eflingar í febrúar og mars árið 2023 eftir að Aðalsteinn Leifsson sagði sig frá þeirri deilu, auk þess sem hann hefur verið settur ríkissáttasemjari frá 1. júní 2023, sem áður segir.
Athugasemdir