Nýr rektor tók við embætti í Cambridge-háskóla á Englandi í síðustu viku. Debbie Prentice er fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem gegnir stöðunni. Eitt af fyrstu verkum Debbie var að endurraða húsgögnunum. Þungt og mikið eikarborð, sem stóð í miðju bókasafns hins fornfræga skóla, var fært undir glugga í safninu.
„Fólk varð hneykslað þegar það gekk inn og sá að ég var strax farin að færa til húsgögn,“ sagði Debbie í viðtali við dagblaðið The Times. „Ég gerði þó ekki annað en að færa borðið á sinn upprunalega stað,“ sagði Debbie, en hún hafði fundið gamla teikningu sem sýndi að borðið hafði lengst af staðið undir glugganum.
Húsgögnin eru þó ekki það eina sem Debbie reynir nú að færa til fyrra horfs.
Undanfarin misseri hefur tjáningarfrelsið átt undir högg að sækja í háskólum víða um heim. Í kjölfar þess að met var slegið í fjölda viðburða sem breskir háskólar aflýstu vegna andstöðu nemenda við skoðanir þeirra sem koma áttu þar fram hóf Cambridge-háskóli kennslu í að umbera sjónarmið annarra.
Debbie hyggst ganga lengra. „Tjáningarfrelsið er lykillinn að öllu sem við gerum.“ Ætlar hún að standa fyrir upplýsandi „samræðum“ innan skólans um umdeild málefni og draga úr áherslunni sem lögð hefur verið á hefðbundnar „rökræður“ þar sem nemendur skipa sér í lið eftir skoðunum. „Slíkt snýst ekki um að fræðast heldur um að vinna,“ sagði Debbie.
Verkið kann þó að vera flóknara en virðist í fyrstu.
Að falla í hópinn
Flest lítum við á sjálf okkur sem upplýstar skynsemisverur. Hinn viti borni maður myndar sér skoðanir byggðar á staðreyndunum. Komi fram upplýsingar sem stangast á við hugmyndir hans skiptir hann um skoðun. Ekki rétt?
Rangt. Rannsóknir sýna að dýrategundin homo sapiens skiptir ekki um skoðun, sérstaklega ekki ef um er að ræða stjórnmálaskoðun.
Taugavísindamenn við Háskóla Suður-Kaliforníu sýndu nýverið fram á þvermóðsku mannkynsins með þverfaglegum tilraunum. Þátttakendum voru sýndar sannanir þess að þeir hefðu rangt fyrir sér. Þrátt fyrir það þrjóskuðust þeir við að skipta um skoðun.
Samhliða voru myndir teknar af heilum þeirra í MRI-skanna. Í ljós kom að þær heilastöðvar sem ákvarða sjálfsmynd, stýra tilfinningasvörun og meta hættu urðu virkar þegar stjórnmálaskoðanir fólks voru dregnar í efa.
Vísindamennirnir komust að þeirri niðurstöðu að það er ekki sannleikurinn sem við stöndum vörð um þegar við rökræðum heldur ættbálkurinn. Að falla í hópinn skiptir meira máli þegar kemur að því að lifa af heldur en að fara rétt með staðreyndir.
Hin hlið málsins
Daginn eftir að nýr rektor tók við í Cambridge-háskóla kom hin svonefnda Lindarhvolsskýrsla fyrir sjónir almennings eftir langa bið. Leynd hafði hvílt yfir skýrslunni, sem talin var mála ófagra mynd af starfsemi Lindarhvols, félags sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra stofnaði árið 2016 og annaðist sölu eigna sem féllu ríkinu í skaut eftir samninga við slitabú föllnu bankanna.
Fjármálaráðherra gagnrýndi birtingu skýrslunnar harðlega. Bjarni sakaði þau, sem krafist höfðu þess að skýrslan yrði gerð opinber, um „að leitast við að þyrla upp ryki og varpa skugga á störf þeirra sem þarna koma að málum“. Hann sagði engan „á þinginu eða í fjölmiðlum hafa áhuga á að sjá hina hlið málsins. Enda er fólk ekki í neinni staðreyndaleit.“
Debbie Prentice sagði það vera í eðli okkar að forðast viðhorf sem við erum ósammála. Rannsóknir benda til þess sama. Rektorinn kvað það þar af leiðandi vera mikilvægt að skapa ungu fólki aðstæður þar sem skoðanaskipti fengju að blómstra. „Þegar ungt fólk mætir í háskóla hefur það litla reynslu af því að lifa og hrærast í samfélagi þar sem tjáningarfrelsið er notað.“
Í málflutningi sínum um Lindarhvolsskýrsluna talar Bjarni Benediktsson gegn ættbálkavæðingu skoðanaskipta og hvetur til staðreyndaleitar. Ráðherra sem stundaði rökræður með það að markmiði „að fræðast“ frekar en „að vinna“ væri hverri þjóð fengur. En Bjarni fellur í sömu gryfju og hann varar aðra við. Inntur eftir viðbrögðum við innihaldi skýrslunnar svaraði Bjarni: „Ég hef nú ekkert lesið þessa greinargerð sérstaklega.“ Staðreyndaleitin fór fyrir lítið.
Ef fyrirmyndir æskunnar stunda ekki annað en skotgrafahernað þegar kemur að lýðræðislegum rökræðum, leyndarhyggju og uppgerðar hneykslun, er hægt að ætlast til meira af ungu fólki?
Rökræðuhefð Bjarna Benediktssonar er eins og eikarborðið í bókasafni Cambridge-háskóla. Auðvelt er að draga þá ályktun að þannig eigi skoðanaskipti að vera vegna þess eins að þannig er þeim háttað um þessar mundir. En kannski var þeim alltaf ætlað að vera einhvern veginn öðruvísi.
Ef bjarN1 benediktsson og hyskið í kringum hann fer ekki að hirða pokana sína.
Þá þarf einfaldlega að fjarlæja þau með valdi og stokka svo ærlega upp í fjölskyldu atvinnuáskriftar í öllum ráðuneytum og öðrum ríkisstofnunum.
When the power of love overcomes the love of power, this world will see peace.
Í nágrannalöndunum væri stjórnmálaferli hans þess vegna lokið.
Þar vilja stjórnmálaflokkarnir ekki hafa slíka dela í forsvari.