Árið 1995 arkaði McArthur Wheeler inn í banka í Pittsburgh í Bandaríkjunum um hábjartan dag og rændi hann. Wheeler virtist ekki hafa gert nokkrar ráðstafanir til að hylja andlit sitt og fönguðu öryggismyndavélar bankans ásjónu hans skýrt og greinilega. Myndirnar af Wheeler voru sýndar í kvöldfréttum allra helstu sjónvarpsstöðva. Innan við klukkustund síðar var Wheeler handtekinn. Þegar lögreglan sýndi Wheeler myndskeiðið úr bankanum kom á hann fát. „En ég bar á mig djúsinn,“ sagði hann. Í ljós kom að Wheeler hafði staðið í þeirri trú að nuddaði hann framan í sig sítrónusafa næmu myndavélar ekki andlit hans.
Wheeler var dæmdur í tuttugu og fjögurra ára fangelsi fyrir vopnað rán.
Stutt umfjöllun um ránið birtist í yfirlitsbók um helstu fréttir ársins 1995. Þegar David Dunning, félagssálfræðingur við Cornell háskóla, las um uppátækið fékk hann hugljómun. Ef Wheeler var of vitlaus til að vera bankaræningi, gat verið að hann væri of vitlaus til að átta sig á að hann væri of vitlaus til að vera bankaræningi?
Dunning hóf rannsókn ásamt framhaldsnema við skólann, Justin Kruger, þar sem hæfni einstaklinga var borin saman við það hvernig viðkomandi skynjaði eigin færni. Úr varð fræg fræðigrein sem birtist árið 1999 undir titlinum „Óhæf og ómeðvituð um það: Hvernig erfiðleikar við að sjá eigin vanhæfni leiðir til ofmats á eigin getu.“
Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að þau sem bjuggu yfir minnstri kunnáttu á tilteknu sviði voru einnig þau sem ofmátu færni sína á því sviði hvað mest. Þau sem bjuggu yfir minnstri kímnigáfu töldu sig fyndnust. Nemendur sem stóðu sig verst á prófi töldu sig hafa staðið sig best. „Vanhæfnin rænir þau getunni til að átta sig á því,“ segir Dunning. „Þau halda að þau standi sig stórvel.“
Farsælasta útboð Íslandssögunnar
Einkavæðing Íslandsbanka hefur verið í umræðunni í kjölfar þess að fjármálaeftirlit Seðlabankans sektaði bankann um 1,2 milljarða króna vegna brota við sölu bankans á hlutum í sjálfum sér.
Erfitt kanna að vera fyrir leikmann á sviði fjármála að átta sig á þeim gjörningum sem áttu sér stað í aðdraganda sölu Íslandsbanka. Viðbrögð þeirra sem leiddu söluna gefa þó ef til vill vísbendingu um þá færni sem lá þar að baki.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins sem annaðist söluferlið, sagði nýverið á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis að útboðið á hlutabréfum í Íslandsbanka hefði verið farsælasta útboð Íslandssögunnar.
Útboðið komst vissulega á spjöld sögunnar. Það var þó af öðrum ástæðum en þeim sem Jón Gunnar nefndi. Sekt Íslandsbanka var sú hæsta í Íslandssögunni. Fleira bendir til að ekki hafi allt gengið sem skyldi. Stjórnendur Íslandsbanka „stíga nú til hliðar“ hver af öðrum eins og kúrekar í línudansi. Að auki hefur stjórn bankans boðað til hluthafafundar í lok mánaðarins þar sem kosið verður á ný í stjórn.
En Jón Gunnar er ekki einn um að telja sig hafa staðið sig stórvel þrátt fyrir vísbendingar um annað.
Birna Einarsdóttir, fráfarandi bankastjóri Íslandsbanka, fullyrti í viðtali stuttu eftir sátt bankans við fjármálaeftirlitið, að sektin væri traustsyfirlýsingu í sinn garð. Birna virðist þó hafa ofmetið frammistöðu sína því nokkrum dögum síðar „steig hún til hliðar“.
Dunning-Kruger áhrifin
„Vanþekking leiðir frekar til sjálfsöryggis en þekking,“ ritaði Charles Darwin, tæpum 130 árum áður en Dunning og Kruger sýndu fram á sannleiksgildi fullyrðingarinnar með tilraunum sínum. Hugsanavillan gengur nú undir heitinu Dunning-Kruger áhrifin.
Forsprakkar einkavæðingar Íslandsbanka féllu á prófi en telja sig engu að síður hafa staðið sig með glæsibrag. Af sjálfsmati þeirra að ráða eru þau jafnhæf til að selja banka og McArthur Wheeler er að ræna banka.
Dunning-Kruger áhrifin eiga sér kómískar birtingarmyndir. Auk bankaræningja með sítrónusafa í andlitinu má nefna laglausa keppendur í Idolinu. En falskir fjármálafrömuðir sem telja sig syngja eins og Kelly Clarkson eru hins vegar ekkert aðhlátursefni.
Ekki er langt síðan íslenskt fjármálafólk taldi sig það hæfasta í heimi. Við vitum öll hvernig sú saga endaði.
Nagli, hamar og haus!