Nafnlausir spilarar í spilakössum hérlendis geta búið til „falska vinninga“ með því að hlaða allt að eitt hundrað þúsund krónum í kassana í einu og í stað þess að spila fyrir féð þá prenta þeir einfaldlega strax út vinningsmiða. Hann er síðan hægt að innleysa og fá fjárhæðina sem um ræðir millifærða inn á reikning vinningshafa. Þar með er búin til lögmæt slóð fjármuna.
Ef upphaflegu fjármunirnir voru ólöglega fengnir, til að mynda vegna þess að þeir voru ávinningur af fíkniefnasölu eða fé sem búið var að svíkja undan skatti, þá hefur ofangreint atferli það í för með sér að peningarnir verða þvættaðir. Fjármunir sem aflað er ólöglega fá lögmæti og sá sem aflaði þeirra getur notað þá að vild annars staðar en í svarta hagkerfinu.
Þetta er meðal þeirra veikleika sem tilgreindir eru á peningaþvættisvörnum hérlendis þegar kemur að notkun spilakassa sem peningaþvættisvéla í aðgerðaráætlun gegn peningaþvætti sem birt var á mánudag.
Í áætluninni er lagt að lögum verði breytt strax á næsta ári þannig að rekstraraðilar spilakassa verði gert að innleiða áfyllanleg spilakort sem tengd séu kennitölu og bankareikningi eða greiðslukorti hvers spilara. Ef heimila eigi reiðufé áfram þá þurfi að takmarka fjárhæð verulega, til dæmis við 1500 krónur.
Mikil ógn
Íslandi stafar mikil ógn af margskonar leiðum til að þvætta peninga samkvæmt áhættumati sem embætti ríkislögreglustjóra framkvæmdi og birti í apríl síðastliðnum.
Aðgerðaráætlunin sem birt var í upphafi viku byggir á því áhættumati en einnig á fjölmörgum aðfinnslum Financial Action Task Force (FATF) um óviðunandi peningaþvættisvarnir á Íslandi.
Í áætluninni kemur fram að áhætta tengd bingói, happadrætti og lottói sé metin lítil. Peningaþvætti sem fram getur farið í gegnum spilakassa er hins vegar auðvelt og ógnin sem íslensku samfélagi stafar af því mikil.
Tveir aðilar reka spilakasa hérlendis, annars vegar Íslandsspil ehf., sem er í 64 prósent eigu Rauða krossins á Íslandi, 26,5 prósent eigu Slysavarnafélagsins Landsbjargar og 9,5 prósent í eigu SÁÁ. Hins vegar er Happadrætti Háskóla Íslands, sem rekur Gullnámukassanna, en hagnaður af þeirri starfsemi rennur, að frádregnu 150 milljón króna leyfisgjaldi til ríkisins, til nýbygginga á vegnum Háskóla Íslands og viðhalds á eldri byggingum hans.
Heildarvelta árið 2017 í spilakössum var 11,74 milljarðar króna og útgreiddir vinningar sama ár námu 8,1 milljörðum króna. Því er um afar umfangsmikla starfsemi að ræða.
Margir veikleikar
Í aðgerðaráætluninni kemur fram að veikleikarnir sem séu með peningaþvættiseftirliti í gegnum spilakassa séu margir. Þar segir að algjör skortur hafi verið á eftirliti með starfseminni og að enginn tilgreindur aðili hafi haft eftirlit með þeim áður en að peningaþvættiseftirlit ríkisskattstjóra tók við því 1. janúar 2019 í samræmi við ný heildarlög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem tóku þá gildi. Fumvarp af þeim lögum var lagt fram í fyrra eftir að FATF hótaði að setja Ísland á lista yfir ósamvinnuþýð ríki í kjölfar þess að samtökin höfðu gefið peningaþvættisvörnum Íslands algjöra falleinkunn í úttekt sem birt var í apríl 2018. Síðan þá hafa íslensk stjórnvöld verið á fullu við að bæta ráð sitt til að lenda ekki á þeim lista.
Í áætluninni kemur einnig fram að rekstraraðilar spilakassa virtust skorta þekkingu á því með hvaða hætti starfsemi þeirra gat verið misnotuð sem endurspeglaðist meðal annars í því að algjör skortur var á tilkynningum frá þeim til skrifstofu fjármálagreininga lögreglu um mögulegt peningaþvætti.
Aðgengi að spilakössum og vinningsmiðum var líka talið upp sem veikleiki sem og skortur á því að rekstraraðila geri kröfur til orðspors þeirra sem reka spilastaði.
Alvarlegasti veikleikinn er hins vegar fólgin í því að hægt sé að setja allt að 100 þúsund krónur í spilakassana, taka þær strax út, fá þær lagðar inn á bankareikning viðkomandi og þar með veita peningunum lögmæti.
Breyta lögum og takmarka reiðufé
Fjölmargar aðgerðir eru lagðar fram til að taka á ofangreindum veikleikum. Hefja þurfi áhættumiðað eftirlit, gefa út fræðsluefni um hættumerki og aðferðir við misnotkun fyrir spilakassa og að hefja samtal við rekstraraðila spilakassa um að gera eingöngu samninga við spilastaði þar sem gott orðspor er tryggt ekki seinna en í september 2019.
Mikilvægasta breytingin sem lögð er til snýst þó um að breyta lögum með það í huga að takmarka reiðufjárnotkun. Í tillögunni felst að gera kröfu um að rekstraraðilar spilakassa innleiði áfyllanleg spilakort sem tengd séu kennitölu og bankareikningi eða greiðslukorti viðkomandi spilara. Ef heimila eigi reiðufé áfram þá þurfi að takmarka fjárhæð verulega, til dæmis við 1500 krónur.
Í aðgerðaráætluninni er lagt til að dómsmálaráðuneytið hefji undirbúning að frumvarpi vorið 2020 og að það verði lagt fram haustið 2020 þar sem tryggt verði sérstakt sólarlagsákvæði um innleiðingu spilakorta, en slíkt myndi krefjast þess að kortin væru komin í fulla notkun fyrir tilgreinda dagsetningu.
Athugasemdir