Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands er áfram að skoða þátt annarra fjármálafyrirtækja en Íslandsbanka í útboðinu á 22,5 prósent hlut í bankanum, sem fram fór í fyrra. „Þær athuganir eru enn í gangi,“ segir Seðlabankinn í skriflegu svari til Heimildarinnar, en fjármálaeftirlitið segist ekki geta tjáð sig nánar um þær athuganir á meðan þær standa yfir.
Samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar ákvað fjármálaeftirlitið að forgangsraða vinnu sinni við skoðun á hlut Íslandsbanka við útboðið og vart þarf að taka fram að sú athugun endaði með því að Íslandsbanki undirgekkst sátt, játaði „alvarleg lögbrot“ og samþykkti að greiða nærri 1,2 milljarða króna í ríkissjóð.
Heimildin hefur óskað eftir svörum frá hinum fjármálafyrirtækjunum sem koma að útboðinu um það hvort þau hafi verið í samskiptum við fjármálaeftirlitið vegna athugana þess og sömuleiðis, hvort þau hafi fengið einhver skilaboð frá fjármálaeftirlitinu þess efnis að athugunum sem snúa að fyrirtækjunum sé lokið.
Innlendu fyrirtækin fjögur sem ráðin voru til að starfa við útboðið, auk Íslandsbanka, voru Fossar markaðir, sem voru söluráðgjafar, auk ACRO-verðbréfa, Íslenskra verðbréfa og Landsbankans, sem fóru með hlutverk söluaðila.
Landsbankinn búinn að afhenda gögn og á eftir að afhenda meira
Landsbankinn er eina fyrirtækið af þessum fjórum sem brugðist hefur við fyrirspurnum Heimildarinnar, sem sendar voru á þriðjudag.
Í svari frá bankanum, við þeirri spurningu hvort fjármálaeftirlitið hafi leitað til bankans vegna athugana þess á útboðinu, segir að bankinn hafi fengið beiðnir frá fjármálaeftirlitinu um tiltekin gögn um framkvæmd útboðsins.
Bankinn segir að gögn hafi bæði verið afhent nú þegar og að frekari gögn verði sömuleiðis afhent innan tilskilinna tímafresta sem fjármálaeftirlitið hafi sett.
Hin fyrirtækin þrjú hafa ekki brugðist við fyrirspurnum Heimildarinnar um samskipti þeirra við fjármálaeftirlitið undanfarna mánuði, en fyrirspurnirnar voru helst sett fram til þess að reyna að fá fram upplýsingar um það á hvaða stigi athugun fjármálaeftirlitisins stendur.
Fossar sögðust engar reglur hafa brotið
Í apríl í fyrra fjallaði Stundin um gagnrýni sem Bankasýsla ríkisins hafði sett fram á hendur fyrirtækjunum sem komu að því að selja hlutabréfin í útboðinu, en í gagnrýni stofnunarinnar kom meðal annars fram að vafi væri á því hvort kröfum um hæfi fjárfesta hefði verið fylgt í útboðinu og að upp hefðu komið mögulegir hagsmunaárekstrar einstakra söluaðila vegna þess að starfsmenn fyrirtækjanna keyptu hlutabréf í útboðinu.
Það hefur nú verið skjalfest og staðfest í tilfelli Íslandsbanka, en eftir standa fjögur fjármálafyrirtæki og þáttur þeirra í útboðinu, sem söluráðgjafi og söluaðilar.
Landsbankinn sagði í svari við fyrirspurn Stundarinnar í fyrra að bankinn ætlaði ekki að tjá sig frekar um málið á meðan athugunin stæði yfir og Fossar sögðu þá að vinna þess hefði verið í fullu samræmi við reglur og uppleggi og kröfum Bankasýslu ríkisins.
„Ég get staðfest að hvorki Fossar né starfsmenn félagsins keyptu í umræddu söluferli enda heimila innri reglur okkar það ekki,“ sagði Haraldur Þórðarson forsvarsmaður Fossa í svari til Stundarinnar í fyrra.
Hins vegar svöruðu forsvarsmenn ACRO-verðbréfa og Íslenskra verðbréfa ekki spurningum Stundarinnar um gagnrýni Bankasýslunnar í fyrra og hið sama er uppi á teningnum nú, fyrirtækin hafa ekki svarað spurningum Heimildarinnar um samskipti sín við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands.
Fátt um svör frá erlendum umsjónaraðilum
Heimildin sendi einnig spurningar til fulltrúa bankanna JP Morgan og Citigroup, sem ásamt Íslandsbanka voru umsjónaraðilar útboðsins í fyrra.
Spurningarnar lutu meðal annars að því hvort bankarnir hefðu verið í einhverjum samskiptum við fjármálaeftirlitið hér á landi vegna eftirmála útboðsins og hvort fulltrúar þessara fyrirtækja hefðu orðið varir við einhverja óvenjulega starfshætti af hálfu Íslandsbanka eða annarra innlendra fyrirtækja sem tóku þátt í útboðinu.
Í svari sem barst Heimildinni frá samskiptafulltrúa JP Morgan í Lundúnum segir að bankinn hafni því að tjá sig nokkuð um málið. Frá Citigroup hefur hins vegar ekkert svar borist við fyrirspurn Heimildarinnar.
Athugasemdir