Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, hefur sent Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra erindi þar sem hún fer fram á að Alþingi verði kvatt saman til þingfunda vegna Íslandsbankamálsins. Aðkomu allra að söluferli hluta ríkisins í bankanum verði að skoða og það verði ekki öðru vísi gert en með skipun rannsóknarnefndar á vegum Alþingis. „Það er öskrað á það að við veltum við öllum steinum.“
Hanna Katrín sendi erindið á forsætisráðherra í morgun en eftir að þingi hefur verið frestað getur forseti Íslands kvatt Alþingi saman til funda ef nauðsyn ber til að kröfu forsætisráðherra eða ef ósk berst um það frá meirihluta Alþingismanna. Spurð hvort hún sé, í ljósi yfirlýsinga Katrínar frá því að sáttagjörð Íslandsbanka við fjármálaeftirlitið var birt í gær, bjartsýn á að Katrín bregðist við kröfunni á jákvæðan hátt svarar Hanna Katrín: „Miðað við svör hennar til þessa, eftir að skýrslan kom út, þá er ég það ekki, nei. En mér fannst rétt og eðlilegt að leita til hennar fyrst áður en ég leitaði til hvers þingflokks fyrir sig.“
„Miðað við svör hennar til þessa, eftir að skýrslan kom út, þá er ég það ekki, nei“
Hanna Katrín segir einnig aðspurð að hún hafi ekki átt í neinum viðræðum, formlegum né óformlegum, við aðra þingflokka vegna málsins til þessa og hafi ekki farið í hausatalningu á því hvort líkur séu á því að hægt verði að knýja fram þingfundi með meirihluta þingmanna. „Ég þori ekkert að segja um það, en mér finnst þetta bara mjög eðlileg krafa.“
Hanna Katrín minnir á að strax eftir að ljóst var að brotalamir hefðu verið á söluferlinu kallaði stjórnarandstaðan eftir því að sérstök rannsóknarnefnd yrði skipuð. Skýrsla Ríkisendurskoðunar og ákvörðun fjármálaeftirlitsins staðfesti að sú leið hefði átt að vera farin strax í upphafi.
„Ég held að það hljóti allir sem horfa á málið með gleraugum hlutleysis að átta sig á því að nú er enn ríkari ástæða en áður til þess að skoða aðkomu stjórnvalda að málinu, þá á ég sérstaklega við þátt fjármálaráðherra sem fer með eignarhaldið í bankanum fyrir hönd ríkisins. Það er öskrað á það að við veltum við öllum steinum, skoðum ferlið frá upphafi til enda, og það getum við ekki gert nema að aðkoma allra aðila sé skoðuð, og til þess þarf að setja rannsóknarnefnd á laggirnar. Það liggur núna skýrt fyrir að stjórnvöldum hefur mistekist að gæta hagsmuna almennings við sölu á þessum hlut ríkisins í bankanum. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa af hverju það mistókst.“
Athugasemdir