Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, kallar eftir afsögn bankastjóra Íslandsbanka, stjórnar bankans og fjármálaráðherra, vegna lögbrota bankans við sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í honum.
„Þetta fólk á allt að fara, það er búið að brjóta lög og Bjarni [Benediktsson, fjármálaráðherra] ber ábyrgð á því hvort sem hann vissi af því eða ekki,“ segir Inga.
Sáttargjörð Íslandsbanka og Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands var birt í gær en vegna hennar mun Íslandsbanki greiða sögulega háa sekt, 1,2 milljarða króna. Í sáttinni eru „alvarleg og kerfislæg“ lögbrot Íslandsbanka útlistuð, en þau eru fjölmörg. Bankinn villti um fyrir Bankasýslu ríkisins og skapaði fjölmarga hagsmunaárekstra með því að gefa starfsmönnum sínum aðgang að útboðinu.
Dökk mynd
Inga segir að sáttin dragi upp mun dekkri mynd af framkvæmd sölunnar en bankinn málaði upp fyrir helgi.
„Ég veit ekki við hverju maður bjóst en nú er búið að draga það þarna upp á yfirborðið að þetta er mun alvarlegra en þau hafa viljað vera að láta,“ segir Inga. „Það hefur líka komið í ljós að rannsóknarnefndin sem stjórnarandstaðan hefur farið fram á að verði sett á fót til þess að fara yfir þessa sölu á meira en rétt á sér.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í samtali við Heimildina í gær að bankinn bæri ábyrgð á lögbrotunum, ekki fjármálaráðherra. Þannig hafi ekkert komið í ljós sem bendi til þess að óeðlilega hafi verið staðið að undirbúningi sölunnar.
„Þarna er hafin framkvæmd þar sem á að fylgja ákveðnum reglum og það er ekki gert,“ sagði Katrín. „Þá horfi ég auðvitað til þess hver það er sem fylgir ekki reglunum, það er bankinn.“
Inga er ósammála forsætisráðherra.
„Ráðherraábyrgð hans er skýr hvað þetta varðar. Hann ber lagalega ráðherraábyrgð gagnvart öllum sölum ríkiseigna. Hann getur ekki þvegið hendur sínar af þessu,“ segir Inga. Næsta mál á dagskrá hjá henni er að kalla eftir svörum frá fjármálaráðuneytinu um það hve mikið nákvæmlega ríkið greiddi fyrir umsýslu með söluferlinu og hverjum ríkið greiddi þær upphæðir.
Athugasemdir (1)