Fátt fangar yfirborðsmennsku samtímans betur en skyndilegar vinsældir bresku þingkonunnar Penny Mordaunt. Á síðasta ári tapaði hin fimmtuga Mordaunt leiðtogakjöri innan íhaldsflokksins. Við krýningu Karls III Bretakonungs í síðasta mánuði stal Mordaunt hins vegar óvænt senunni þar sem hún mundaði 3,6 kíló demantsskreytt sverð í hælaskóm og kjól sem þótti minna á búninga sjónvarpsþáttarins Game of Thrones. Í kjölfar frammistöðunnar er Mordaunt nú talin næsti leiðtogi Íhaldsflokksins.
Við vitum allt um hver voru hvar, íklædd hverju – oftast frekar litlu – funheit og fjörug, sveipuð „filter“ í góðum fíling, flott í vikunni á Instagram. En hvað um það sem er undir yfirborðinu?
Hugsunarleysi og mannsheilinn
Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir skrifaði áhugaverða færslu á samfélagsmiðilinn Facebook í síðustu viku þar sem hún velti fyrir sér heilanum í sér því „hann ræður jú svo miklu um örlög okkar og líf.“ Í færslunni sagði Auður frá reynslu sinni af því að vera með flogaveiki. Hún hugleiddi hvort flogavirkni í heila kynni að vera rót áráttukvíða og óttakasta sem hefðu plagað hana frá því að hún var barn. Hún sagðist ætla að hefja vegferð, fara í heilalínurit og skoða hvort áhrif flogaveikinnar á líf hennar væru ef til vill víðtækari en hún hefði gert sér grein fyrir. Í gamansömum tóni sagði hún vinum sínum að verða ekki hissa væri hún „allt í einu edrú alla daga í hinum ýmsu uppbyggjandi athöfnum.“
Samtíminn var hins vegar ekki lengi að taka það sem er bókstaflega undir yfirborðinu og gera það yfirborðslegt. Auður lýsti gremju sinni yfir því að fjölmiðillinn Smartland hefði tekið valin brot úr pistli hennar og birt þau undir fyrirsögninni „Auður hættir að drekka og lætur skoða í sér heilann“.
Fyrirsögnin fangar fullkomlega hugsunarleysi samtímans í garð mannsheilans.
Eina sem hún gerði öðruvísi
Árið 2009 gekk hin 24 ára Susannah Cahalan yfir Times Square í New York á leiðinni í vinnuna. Birta auglýsingaskiltanna olli henni skyndilega stingandi höfuðverk. Susannah starfaði sem blaðamaður hjá New York Post. Þegar hún kom á ritstjórnarskrifstofuna fannst henni veggirnir anda. Hún skreið undir skrifborðið sitt og grét. Eitthvað var að, en hún vissi ekki hvað.
Í kjölfarið tók Susannah að fá krampaköst. Hún fylltist ofsóknaræði, sannfærðist um að kærasti hennar ætti í framhjáhaldi og að faðir hennar reyndi að myrða hana.
Læknar sögðu ekkert ama að Susönnuh. Samt hélt henni áfram að hraka. Hún hætti að geta talað, gengið og nærst, tók að urra eins og dýr og varð ofbeldishneigð.
„Heili hennar brennur.“
Susannah var við dauðans dyr þegar læknir ákvað að leggja fyrir hana þekkt taugapróf. Henni var sagt að teikna klukkuskífu. Susönnuh tókst að ljúka verkinu. Tölurnar skrifaði hún hins vegar allar öðrum megin á skífuna. „Heili hennar brennur,“ sagði læknirinn. Susannah var greind með sjaldgæfan sjálfsónæmissjúkdóm þar sem líkaminn ræðst á ákveðin svæði heilans.
Susannah náði sér að fullu þrátt fyrir vonlitlar batalíkur. Hún skrifaði metsölubókina „Brain on fire“ um reynslu sína. Í nýlegu viðtali við Breska ríkisútvarpið var Susannah spurð hvort ekki væri erfitt að lifa með þeirri vitneskju að sjúkdómurinn gæti tekið sig upp aftur. Susannah sagði það eina sem hún gerði öðruvísi en aðrir væri að huga að heilaheilsunni.
Þangað til eitthvað bjátar á
Lengi hefur verið vitað að unnin matvæli valdi offitu. Svo virðist hins vegar sem mataræðið eyðileggi einnig í okkur heilann.
Mestöll ráðgjöf á sviði næringarfræði miðar að því að koma í veg fyrir offitu og hjartasjúkdóma. Í nýrri bók næringarfræðingsins Kimberley Wilson „Unprocessed“ er varað við áhrifum unninna matvæla á heilann sem hún segir m.a. valda hnignandi gáfnafari og þunglyndi.
„Á tímum þar sem tilkomumiklir upphandleggir og demantssverð þykja vitnisburður um leiðtogahæfni hugum við heldur að því að komast í kjólinn fyrir jólin.“
Áhugaleysi næringarfræðinga sætir furðu. Heilinn er ábyrgur fyrir 23 prósent orkunotkunar okkar í hvíld; meðal ungbarna er hlutfallið 73 prósent. Heilinn er ekki aðeins eitt orkufrekasta líffæri líkamans heldur er hann það fituríkasta. Heilinn þarfnast omega-3 fitu, sem finnst einkum í fiskmeti, og er „algjörlega nauðsynleg fyrir uppbyggingu og virkni heilans,“ segir Wilson. „Hún gerir okkur að þeim sem við erum.“
Fiskneysla er hverfandi. Á tímum þar sem tilkomumiklir upphandleggir og demantssverð þykja vitnisburður um leiðtogahæfni hugum við heldur að því að komast í kjólinn fyrir jólin.
Í stuði á ströndinni, dansað á djamminu, skálað með skvísunum, tær á Tene. En hvað var hugsað, um hvað var rætt?
Sem stendur er ekki til alþjóðleg skilgreining á heilaheilsu. Í yfirborðskenndum samtíma gleymum við heilanum – þangað til eitthvað bjátar á.
Athugasemdir