Áfangasigur náðist í náttúruverndarbaráttunni í gær, þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar úr gildi. Áralöng barátta fjölda fólks fyrir því að náttúran fái að njóta vafans við neðrihluta Þjórsár skilaði þannig árangri. Því miður er full ástæða til að hafa varann á sér. Þrýstingur hagsmunaaflanna minnkar ekkert við þetta og undan slíkum þrýstingi bognar ríkisstjórnin allt of oft.
Reynt að þjösna Þjórsárvirkjunum í gegn
Á Alþingi hefur alltaf verið hópur þingmanna sem vill knýja virkjanaframkvæmdir í gegn með öllum ráðum. Þannig lögðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins til að setja lög um virkjunarleyfi fyrir allar þrjár virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár árið 2011. Þetta frumvarp gekk svo langt að ekki einu sinni Landsvirkjun gat stutt það, heldur benti hún á að nauðsynlegum undirbúningi virkjananna væri ólokið og því ekki tímabært að fjalla um útgáfu virkjanaleyfis.
Í hópi þeirra sem vildu þvinga Þjórsárvirkjunum í gegn með lagasetningu eru þrír sem seinna urðu ráðherrar í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur — og þar á meðal núverandi umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Það er áhyggjuefni í dag. Við eigum ekki að sætta okkur við það að viðbrögð við úrskurði gærdagsins séu í höndum ráðherra sem hefur þá skjalfestu afstöðu að vera til í að víkja til hliðar öllum eðlilegum ferlum til að koma framkvæmdum af stað við neðri hluta Þjórsár.
Þegar fyrstu viðbrögð ráðherra málaflokksins eru að segja Hvammsvirkjun verða að veruleika jafnvel þótt framkvæmdinni seinki — þannig að hann virðist ekki einu sinni ætla að hugleiða þann möguleika að forsendur virkjunarinnar séu brostnar — þá er full ástæða til að hafa áhyggjur.
Hjáleiðir fundnar fyrir hagsmunaöfl
En það er ekki bara óslökkvandi virkjanaþorstinn hjá umhverfisráðherra sem veldur áhyggjum. Þegar fjárhagslegir hagsmunir lenda upp á kant við náttúruna hefur ríkisstjórnin nefnilega sýnt að hún raðar sér í lið með hagsmunaöflunum á síðustu misserum.
Þannig er hægt að rifja upp dæmi frá haustinu 2018, þegar úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að fella skyldi úr gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði. Meirihluti Alþingis brást við þeim úrskurði með því að breyta lögum þannig að ráðherra gæti veitt rekstrarleyfi til bráðabirgða þrátt fyrir að mat á umhverfisáhrifum hefði verið fellt úr gildi. Þessi ákvörðun meirihlutans fékk síðan áfellisdóm hjá ESA, sem komst að þeirri niðurstöðu að þarna hefði íslenska ríkið brotið gegn reglum EES um umhverfismat.
Hópur náttúruverndarsamtaka beindi í kjölfarið kvörtun til ESA, sem kvað upp afgerandi áfellisdóm yfir lögunum. Íslenska ríkið braut reglur EES um mat á umhverfisáhrifum. Stjórnarliðar brugðust ekki við þessu af auðmýkt með því að fella einfaldlega úr gildi ólögin frá 2018, heldur voru þau fest enn frekar í sessi með frumvarpi sem varð að lögum á nýliðnum þingvetri.
Pólitísk fingraför á rammaáætlun
Fyrir ári síðan samþykkti Alþingi rammaáætlun, en því verkfæri var komið á til að skapa eins mikla sátt og hægt verður að ná um virkjanir í landinu. Á lokametrum vinnunnar í þinginu drógu stjórnarliðar upp breytingartillögur sem byggðu ekki á faglegum rökum og gerðu þessa sátt að litlu.
Þannig sögðu stjórnarliðar að sterk rök væru fyrir því að færa Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun úr orkunýtingarflokki í biðflokk en lögðu til að halda Hvammsvirkjun áfram í nýtingarflokki, einni virkjana í neðri Þjórsá. Til að friðþægja Vinstri græn var því beint til ráðherra í nefndaráliti að þrátt fyrir þetta ætti verkefnisstjórn rammaáætlunar að líta til allra þriggja virkjunarkostanna í samhengi. Þessi sýndarmennska var aldrei líkleg til að skila neinu. Það var kristaltært við umfjöllun nefndarinnar það væri bara ein leið til að láta endurmeta allar þrjár virkjanirnar: að færa þær allar í biðflokk.
Þegar greidd voru atkvæði um breytingartillögu þess efnis að færa Hvammsvirkjun í biðflokk rammaáætlunar stóðu stjónarliðar saman í því að fella hana. Ekki á faglegum forsendum heldur til að standa vörð um pólitísk hrossakaup. Það er gott að hafa þetta bakvið eyrað þegar Vinstri græn reyna að grænþvo sig þessa dagana með því að benda á sex ára gamla atkvæðagreiðslu, þegar þau stóðu enn með náttúrunni og samfélaginu við Þjórsá, en sleppa því að minnast á afdrifaríkari atkvæðagreiðslu vorið 2022 sem sýnir vel viðsnúning flokksins.
Það var nefnilega engin tilviljun að stjórnarliðar skildu einmitt Hvammsvirkjun eftir í nýtingarflokki fyrir ári, því að það var virkjunin sem er næst framkvæmd. Við afgreiðslu rammaáætlunar mátti ekki raska neinum hagsmunum virkjunaraðila. Landsvirkjun vildi ekki láta Hvammsvirkjun af hendi fyrir ári og stjórnarliðar hlýddu. Hverjum munu þau hlýða í dag?
Næstu skref þurfa metnað og tíma
Þegar fulltrúa stóriðjuflokks er hleypt í embætti umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra er hætt við að ákvarðanir miðist ekki við það sem er náttúrunni eða framtíðarkynslóðum fyrir bestu. Það ætti ekki að vera í boði halda til streitu gömlu, úreltu hugmyndunum um endalausan vöxt í raforkuframleiðslu — ekki einu sinni þó að Sjálfstæðisflokkurinn hafi fattað að skeyta orðum eins og „græn“ eða „orkuskipti“ framan við þær. Sérstaklega þegar minna virðist vera um raunverulegar kerfisbreytingar í þágu grænna umskipta, sem sést best á því að losun gróðurhúsalofttegunda er að aukast ár frá ári þrátt fyrir meintan metnað ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
Til að hafa betur gegn loftslagsvánni má ekki fórna náttúrunni — og þess á ekki heldur að þurfa. Ef Ísland þarf meiri orku til að ná markmiðum sínum, þá skulum við byrja að nýta þá sem nú þegar er framleidd, en vanda okkur og taka góðan tíma til að ákveða næstu skref. Meðan Landsvirkjun er aflögufær um 120 MW í rafmyntagröft, meiri orku en öll heimili landsins nota, þá vantar nefnilega alls ekki rafmagn í orkuskiptin. Það vantar bara rétta pólitíska forgangsröðun.
Ekki vera fávitar!