Áfengi er eitur (etanól) sem líkaminn reynir að hafna með því að vekja ógleði og valda uppköstum. Áfengi er verst fyrir börn og eldri borgara og af þeim sökum er takmarkað aðgengi að áfengi alltaf góð forvörn, því það dregur úr neyslu. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin WHO hefur hvatt ríki í Evrópu til að draga úr heildarnotkun áfengis um 10% á næstu tveimur árum með öllum tiltækum ráðum.
Hvernig ætlar Ísland að standa að því?
Ábyrgð eða skeytingarleysi
Frá áramótum hef ég fylgst stíft með og tekið þátt í forvarnarstarfi í áfengismálum, oft með því að greina frumvörp sem lögð eru fyrir Alþingi, skoðanir frummælenda, greinar og fleira. Hér ætla ég að leggja út af nokkrum frumvörpum í þessum málaflokki og þeim anda sem þar má greina.
Oftlega má greina góðan hug og stuðning við lýðheilsu og farsæld barna í orði, en þeim orðum fylgir ekki alltaf ábyrgð heldur fremur skeytingar- og skilningsleysi hjá hluta þingmanna. Það er slæmt þegar þingmenn og annað fólk trúir kenningum blint um frjálsa verslun fremur en reynsluvísindum og niðurstöðum rannsókna.
Áformað er til dæmis á Alþingi að leggja fram frumvarp um „Afnám banns við heimabruggun á áfengi til einkaneyslu“ – það hljómar saklaust og í samræmi við frjálslynda frelsishugsjón tíðarandans. En í þessari gjörð má einnig greina algjöran skort á innsæi í líf og farsæld barna.
Frumvarpið gengur einnig þvert á stefnu ríkisins í áfengis- og vímuvörnum að:
-
takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.
-
vernda viðkvæma hópa eins og börn fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
-
draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi.
Fjöldi fólks, sjálfboðaliðar og heilbrigðisstofnanir vinna hörðum höndum að forvörnum og lækningum á fíknisjúkdómum. Takmarkað aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum og minni sýnileiki er margsannaður veigamikill þáttur í forvörnum vegna áfengisneyslu. En neysla á áfengi er í fimmta sæti á lista 25 áhættuþátta dauðsfalla og sjúkdóma.
Það virðist þrátt fyrir það ekki vera gild staðreynd. Frumvarpið opnar nefnilega fyrir ný tækifæri hagsmunaaðila og markaðssetningu söluaðila til að innleiða bruggunartæki á heimilum barna. Líkur á drukknum foreldrum aukast augljóslega en það hefur skaðleg áhrif á fjölskyldulífið og getur eyðilagt framtíð fleiri barna en nú er.
Hvaða velferð og hverra, er dómsmálaráðuneytið og – ráðherra að hugsa um?
Viðmiðin í samfélaginu snúast um að skapa börnum heilnæmt líf og heilbrigð lífsskilyrði. Þar liggur þeirra frelsi og framtíð, ekki í verslunarfrelsi söluaðila og frelsi foreldra til að brugga heima. Það er á skjön við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem styðjast við fyrirliggjandi rannsóknir um áhrif aðgengis að áfengi.
Áfengi er skaðlegt heilsu þeirra sem neyta þess, fjölskyldum þeirra og aðstandendum. Það er bæði sýnt og sannað.
Frumvarpið mun augljóslega hafa verulega slæmar afleiðingar og opna fyrir meiri drykkju á heimilum, sem er í andstöðu við það barnvæna samfélag sem opinberlega er stefnt að. Er í lagi að „afnema bann“ sem foreldrar búa við á kostnað velferðar og farsældar barna?
Forréttindablinda frummælenda
Hér er gott að nefna hugtakið forréttindablinda og skilgreiningu þess, blindan verður ljós:
-
þegar fólk tekur ekki eftir því að það nýtur efnahagslegra eða félagslegra forréttinda í samfélaginu. Fólk með forréttindablindu finnst til dæmis sjálfgefið að mega allt og að eiga allt til alls.
-
þegar fólk er blint á að til eru aðrir hópar sem hafa það ekki eins gott og það sjálft. Fyrir þeim er það fólkinu sjálfu að kenna ef það verður fíkninni að bráð.
Aðeins slík forréttindablinda knýr þingmenn og ráðherra til að auka frelsi þeirra sem allt hafa. Þau eru upptekin af því vera ekki treyst til að leyfast allt. Þau þola ekki hindranir og fá hrós frá hagsmunaaðilum fyrir að ryðja þeim úr vegi. Hrós frá börnum virkar ekki á þau.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra vill leggja fram frumvörp um að heimila almenna sölu áfengis á netinu og lögleiða heimabruggun. Andmæli við því kallar hann „afdalamennska og gamla forræðishyggju“ og ætlar að undirbúa frumvörpin aftur fyrir næsta vetur, vegna þess að þau flokkuðust ekki undir nauðsynleg frumvörp á yfirstandandi þingi. Frjálshyggja hans flokkast undir kalt skeytingarleysi og að vera sama um velferð barna. Gildislaus markaður getur bara alls ekki verið barnafjölskyldum hagstæður.
Ég hef fylgst með öðru frumvarpi sem er afar illa rökstutt og auðvitað í mótsögn við velferð og farsæld barna.
Fréttafyrirsagnir um breytingar á áfengislögum, til að gefa þeim leyfi til að selja áfengi um helgar og á frídögum, voru á þessa leið: „ÁTVR leggst ekki gegn rýmkun“. Fjölmiðlar hafa skrifað fjölmargar fréttir um málið og fréttapunkturinn er alltaf að ÁTVR sætti sig við frumvarpið. Nýjasta fréttin er frá 18. maí 2023, „Rýmka megi tíma í Ríkinu“ Margar stakar fréttir en engin fréttaskýring þar sem farsæld barna kemur við sögu, aðeins tönglast á verslunarfrelsi. Þess má geta að það er nú þegar opið til 18 á laugardögum í Vínbúðum og til 20 öll kvöld á mörgum sölustöðum.
Fjórar af 31 umsögn stofnana og félagasamtaka um frumvarpið um sunnudagsopnun Vínbúða hafa verið birtar, þær eru frá ÁTVR, Embætti landlæknis, Félagi lýðheilsufræðinga og Bindindissamtakanna IOGT. Eftir þann lestur má bæta við fréttapunkti sem er nær sannleikanum: Fyrirsögninni „Frumvarp um áfengislög kolfellur“. Hún er meira lýsandi, að mínu mati heldur en að ÁTVR leggist ekki gegn frumvarpinu. ÁTVR er heldur ekki óháður aðili í þessu tilfelli og fellur undir fjármála- og efnahagsráðuneytið sem innheimtir ágóðann af sölu áfengis.
ÁTVR er samt ekki beint hrifið af frumvarpinu og skrifar „ÁTVR bendir þó á að ekki verði séð að metin hafi verið áhrif þess á hugsanlega aukningu á áfengisneyslu og lýðheilsu.“ En það er ónefnt að áhrif af slíkri breytingu hefur verið metin í öðrum löndum eins og til dæmis Finnlandi. Dregið hefur úr áfengisneyslu í Finnlandi, ástæðan er meira aðhald og strangari áfengisstefna en áður. Landlæknir í Finnlandi segir að það megi alls ekki afnema þær hindranir sem eru til staðar, þá myndi neyslan strax þjóta upp aftur. Þar vilja hægri flokkar leyfa sölu á víni í matvöruverslunum og söluturnum. Þannig að hættan vofir yfir. Í frumvarpi á Íslandi frá því í mars um breyting á ýmsum lögum varðandi aldursmörk, frá hægrimönnum stendur meðal annars „Breyting á lögum um verslun með áfengi og tóbak“. „Í stað orðanna „20 ára“ kemur: „18 ára.““
Markmiðið er greinilega að stækka kúnnahópinn fyrir söluaðila. Formúlan er einföld og margsönnuð: aukið aðgengi, aukin neysla, fleiri veikjast og deyja, fleiri vandamál fyrir fjölskyldur og dýrara heilbrigðiskerfi.
Forréttindafólk á Íslandi vælir fyrir takmörkunum
Forréttindafólkið á Íslandi á ekki vera að væla yfir því að geta ekki keypt sér vínflöskur í Vínbúðum á sunnudögum eða að hafa ekki formlegt leyfi að brugga vín heima hjá sér. Ef það gæti aðeins fundið samábyrgðina í taugakerfinu sínu, þá gætum við hrósað þeim!
Frumvarpið um vínsölu ÁTVR á helgidögum snarfellur á lýðheilsuprófinu, það fær falleinkunn og háðulega útreið í umsögnum. Einn flutningsmanna þess, Jóhann Friðrik Friðriksson þingmaður Framsóknar hefur jafnvel skrifað greinar um hvernig bæta megi heilsu þjóðarinnar og segir frá því að hann hafi lagt fram frumvarp þess efnis. Hann vill „tryggja rýni allra frumvarpa sem lögð eru fyrir Alþingi út frá áhrifum þeirra á lýðheilsu þjóðarinnar,“ og vill festa í sessi lýðheilsumat hér á landi.
Hans eigið frumvarp um afnám afgreiðslubanns Vínbúða á áfengi á frídögum yrði fyrst til að falla á lýðheilsuprófinu sem hann mælir með. Þetta er stingandi mótsögn.
Frummælendur leggja til að slakað verði á áfengislögum en vilja um leið stórefla forvarnir í leiðinni. Þetta er hrein forréttindablinda og sóun á almannafé, að mínu mati, því að stundum eru boð og bönn og mörk í lögum og reglugerðum ein allra besta forvörnin.
Nefna má einnig að fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, situr í velferðarnefnd Alþingis. En það dugar ekki til.
Ég get því ekki skilið til hvers þessir tveir stjórnarþingmenn, Hafdís og Jóhann, vilja veita ÁTVR leyfi til að selja áfengi á sunnudögum. Ég hef sent þeim bréf til að benda þeim á mótsagnirnar en ekki fengið nein viðbrögð. Hafdís mælti svo fyrir frumvarpinu 7. mars 2023 og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar, veitti einu andsvörin þennan dag. Henni fannst frumvarpið ekki ganga nógu langt og sagði:
„Við skulum fókusera á að treysta fólki og einblína á að efla áfram forvarnir … í stað þess að vera með boð og bönn“. Hún nefndi einnig að opna þyrfti fyrir áfengisauglýsingar í fjölmiðlum, meðal annars til að fjölmiðlar gætu fengið bita af þeirri köku. „Þess vegna segi ég,“ segir hún: „Treystum fólki í þessum málum, það er kominn tími til í þessum efnum.“ „Ekki vera með beislið á þessu …það er sýndarveruleiki.“ Og bætti við að langbest væri að selja áfengi í matvöruverslunum.
Ég botna ekkert í andsvörum Þorgerðar eða í hverju felst sýndarveruleikinn?
„Áfengi er engin venjuleg neysluvara heldur lífrænt leysiefni, eitur sem er notað sem hugbreytandi vímuefni og er fíkniefni og eiturlyf,“ eins og segir í einni umsögn.
Hvað segja lýðheilsufræðingar?
Hvað segja þau sem búa yfir fagþekkingu á fleiru en verslunarfrelsi og kunna að setja hlutina í samhengi? „Félag lýðheilsufræðinga harmar frumvarp til laga um afnám opnunarbanns á frídögum,“ segir í umsögn lýðheilsufræðinga og hvetur ríkisstjórnina til að grípa til aðgerða til að draga úr þeim skaða sem áfengi veldur einstaklingum, fjölskyldum og samfélögum.
Félagið bætir við að á lista yfir 10 aðgerðir sem stungið er upp á hjá WHO er meðal annars að takmarka aðgengi að áfengi með:
-
Ríkiseinokunarverslun sem stýrist af lýðheilsusjónarmiðum.
Félag lýðheilsufræðinga heldur áfram „Aðgengi almennings að áfengi er almennt gott hér á landi og má draga þá ályktun að það séu fyrst og fremst söluaðilar sem hafa að hagsmunum að gæta sem hagnist á þessari lagabreytingu á kostnað viðkvæmra hópa, þeirra sem verst eru settir og hafa minnsta stjórn á neyslu sinni.“
Orðum fylgir ábyrgð, það að leggja fram frumvörp á Alþingi fylgir ábyrgð, þau hafa oft mikil áhrif á lýðheilsu almennings.
Í greinargerðinni með frumvarpinu stendur að vitaskuld þurfi að stórauka forvarnir ef það verður samþykkt.
Hvers vegna? Vegna þess að aukið aðgengi merkir meiri neyslu, og fleiri veikjast.
Athyglisvert er að vísað er oftast í frelsishugtakið í greinargerð en ekki í rannsóknir um velferð, lýðheilsu eða heilsu. Hefur verslunarfrelsi hinna fáu meira vægi en lýðheilsa heillar þjóðar?
Skaðleg áhrif alkóhóls eru til dæmis eitrun í heila vegna lifrarskemmda, skemmdir á litla heila, geðtruflanir, svefntruflanir, taugaskemmdir, aukin hætta á krabbameini í meltingarvegi, fitulifur, skorpulifur, briskirtilsbólga, hjartsláttartruflanir, skemmdir á hjartavöðva, uppsöfnun fitu í lifrinni, beinþynning, auknar líkur á heilablóðfalli.
Meðvirkni er vanmetinn fjölskyldusjúkdómur
Neysla áfengis er ekki einkamál undir frelsi einstaklinganna. Áfengi skaðar ekki bara neytandann, heldur líka aðra einstaklinga og samfélagið allt. Í Heimildinni 12.-18. maí 2023 eru viðtöl við aðstandendur fíkla út frá meðvirkni og rætt við dr. Jónu Margréti Ólafsdóttur lektor í félagsráðgjöf við HÍ um rannsóknir hennar. Aðstandendur þurfa, að hennar mati, nauðsynlega að fá faglega aðstoð, það hefur bæði forvarnargildi og eykur lífsgæði þeirra og barna næstu kynslóða. Hvar er frumvarp í þá áttina? Áfengissýki er fjölskyldusjúkdómur, og meðvirknin er líka sjúkdómur sem kallar á athygli. Það er réttur barna að búa lifa í farsælu umhverfi.
Fyrir utan álagið sem áfengissjúklingar skapa fyrir heilbrigðiskerfið þá þurfa aðstandendur þeirra oft á meðferð að halda vegna þunglyndis, kvíða, vefjagigtar, mígreni, magasára og andlegra veikinda. Er það réttlætanlegur fórnarkostnaður fyrir verslunarfrelsi með áfengi?
Jóna Margrét segir að aðstandendur í lífskrísu hugi oft ekki að eigin heilsu, það verður of upptekið af ástvinum með vímuefnaröskun. Í rannsókn hennar kemur fram að vímuefnaneyslan hefur ekki aðeins áhrif á alla fjölskylduna heldur einnig á stórfjölskylduna. Hlutverk innan fjölskyldunnar verða bjöguð.
Það má alls ekki slaka á í þessum efnum, ástæðan er sú að ákefð fullorðinna í áfengi virðist vaxa með árunum og hefur á Íslandi farið úr 4,5 lítra árið 1988 í 7,5 á kjaft árið 2021.
Aukið aðgengi og betri þjónusta á markaði fyrir kaupendur áfengis er, að mínu mati, lagt til vegna forréttindablinda – og er aðgerð sem fær alltaf falleinkunn þegar farsæld barna er mæld. Höfnum slíkum ráðagerðum. Hlustum fremur á þau sem vita hvernig byggja á upp farsæld barna í samfélaginu.
Hvers vegna þurfum við að segja nei takk?
-
Frumvarpið um opnun Vínbúða á helgidögum flytja fimm framsóknarmenn. Viljum við það? Nei takk!
-
Frumvarpið um lækkun aldurs við áfengiskaup flytja fimm sjálfstæðismenn. Viljum við það? Nei takk!
-
Áform um afnám á banni við heimabruggi á áfengi til einkaneyslu kemur frá dómsmálaráðuneyti. Viljum við það? Nei takk!
-
Frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum til að heimila vefsölu flytja fimm sjálfstæðismenn. Viljum við það? Nei takk!
Hvers vegna ekki? Vegna þess að það hefur aldrei verið lengri biðlisti á Vogi og yfirlæknir þar, Valgerður Rúnarsdóttir, sagði í viðtali við RÚV fyrir stuttu að hún óttaðist að það stefndi í metár í andlátum vegna fíknisjúkdóma, mögulega 80 manns. Ársgömul fyrirsögn í fjölmiðli hljómar svona „Gríðarlegir biðlistar á Vogi… meiri dagleg drykkja, meiri neysla ópíóðíða.“ (DV)
Spurningin sem óneitanlega vaknar er: Hver er metnaður, heimsmynd og samábyrgð þeirra þingmanna sem vilja lækka áfengiskaupaaldur, selja áfengi í vínbúðum á sunnudögum, leyfa vefsölu á áfengi, leyfa heimabrugg á áfengi og selja vín í matvöruverslunum?
Miðað við Sænskar rannsóknir þá mundi sala í matvörubúðum, yfirfært á Ísland, auka kostnað þjóðfélagsins um hátt í 20 milljarða í vinnutapi, í heilbrigðiskerfinu o.fl. Rannsóknir í Bandaríkjunum sýna svipaða niðurstöðu. Þá er ótalin óhamingja barna sem búa við ömurlegar aðstæður vegna áfengisböls og annarra fjölskylduharmleikja sem ekki verða metin til fjár.
Sala áfengis nemur tæpum 40 milljarða kr á ári. Matvöruverslanir horfa auðvitað til þess að þetta yrði gríðarleg og mjög ábatasöm aukning á veltu þeirra ef verslanirnar fengju þessu viðskipti til sín. Hvati matvöruverslana til að seilast eftir áfengisversluninni er því mjög mikill. Þetta leynist engum þegar hagsmunaverðir matvöruverslunarinnar tjá sig um áfengissölu í matvöruverslunum. En ekki er hægt að horfa framhjá því að með því að taka áfengissöluna inn í matvöruverslanirnar eru verslanirnar að gera ógæfu fjölskyldna að féþúfu.