Síðastliðna tólf mánuði eða svo er ég búinn að fá að prófa allt eftirtalið: Atvinnuleysisbætur, fullt starf í einkageira, hálft starf í einkageira, sjálfstætt starfandi hark og fæðingarorlof. Það fyndna er að í stóra samhenginu er enginn marktækur munur á framlagi mínu til samfélagsins, milli þess sem ég ber þessa ólíku hatta.
Ekkert er mikilvægara og hagkvæmara en að foreldrar séu til staðar fyrir börnin sín, segja sumir, þannig að í fæðingarorlofi gerir þú mest gagn. Þú losar samfélagið hugsanlega við fíkil eða glæpamann og býrð þess í stað til snilling! Í fullri vinnu borgar þú mesta skatta og gerir augljóslega mest gagn þannig, segja margir. Punktur og basta. List eða dauði segja enn aðrir. Ef þú gast skapað listaverk á bótum þá er gagnið ódauðlegt.
„Ég hef sjaldan eða aldrei hitt raunverulegan iðjuleysingja enda held ég að þeir séu þjóðtrú.“
Fyrir mér er þetta allt fallegt og mikilvægt. Það er fallegt og mikilvægt að upplifa tilgang, að maður sé að færa björg í bú. Það sakar heldur ekki að vera í góðri vinnu. En ef maður fækkar klukkustundunum, sem maður situr við skrifborðið, bætast við fallegar og mikilvægar klukkustundir annars staðar.
Ég hef sjaldan eða aldrei hitt raunverulegan iðjuleysingja enda held ég að þeir séu þjóðtrú. Eins og tannálfurinn. Meira að segja þau okkar sem liggja uppi í sófa klukkan tvö á þriðjudagssíðdegi eru að láta hugann reika, hvílast og mjög líklega tiltæk í mikilvæg hlutverk sem eiga það til að gleymast: Að sinna gamalmennum, spjalla við ókunnuga, sendast hvippinn og hvappinn, fá ólíklegar hugdettur, mynda sér skoðun á málefnum, bara einhverjum málefnum. Það mega vera málefni Bachelor-þáttanna mín vegna. Iðjuleysingjar koma að minnsta kosti engum að sök, ef þeir eru þá til.
Þegar stytting vinnuvikunnar ber á góma er réttlætingin oft þulin upp í samhengi við framleiðni, að það sé vel hægt að fækka vinnustundum og láta fólk líka afkasta heilan helling. Það væri hressandi að heyra hinn pólinn öðru hverju, að það sé æskilegt að stytta vinnuvikuna vegna þess að það er beinlínis jákvætt að draga úr framleiðni. Að vera ekki alltaf svona helvíti dugleg.
Athugasemdir