Stundum virðist sem í veröldinni fyrirfinnist fáar stærri syndir en að eldast. Viðhorfið endurspeglast skýrt í hugtaki sem notað er yfir miðaldra fólk sem á sér drauma; það er til háðungar sagt í miðaldrakrísu.
Suður-afríski rithöfundurinn Darrel Bristow-Bovey var fertugur þegar honum voru gefin ráð sem breyttu lífi hans. Darrel bar stöðugan ugg í brjósti yfir hve mikill tími var liðinn af ævi hans og hve lítill tími væri eftir. Honum fannst hann orðinn of seinn að gera allt sem hann hafði ætlað sér. Tími hans var liðinn án þess að hann hefði nokkurn tímann runnið upp.
Darrel var miður sín yfir meintum leikslokum þegar eldri vinur kom til hans og sagði: „Þú átt meiri tíma eftir en þú heldur.“ Athugasemdin gjörbylti sýn hans á lífið.
Forréttindi hinna ungu
Af viðhorfum samtímans að dæma er miðaldra fólki ekki ætlað að eiga sér drauma. Leitin að hamingju eru forréttindi hinna ungu. Þeir sem orðnir eru miðaldra eiga möglunarlaust að fórna sér fyrir æskuna, eldri kynslóðina og samfélagið. Það er sjálfselska að óska sér einhvers – gefandi starfsferils, velgengni, frægðar, frama – sé maður orðinn miðaldra. Þau sem ekki náðu markmiðum sínum fyrir fjörutíu hafa fyrirgert rétti sínum til þeirra.
Ef um væri að ræða íþróttaleik væru flestir sammála um að í síðari hálfleik gæti enn allt gerst. En þegar kemur að lífinu teljum við öllu lokið í hálfleik.
Skúra, skrúbba og skeina
„Ég dvel í möguleikanum,“ orti skáldkonan Emily Dickinson. Yfir þessum orðum varð ég felmtri slegin á fertugsafmæli mínu fyrir allnokkrum árum. Fram að því hafði ég dvalið í möguleikanum. Allt var opið. Allt gat gerst. Veröldin var ostra. Lífið var ferðalag og flogið var til allra áfangastaða.
En skyndilega var sem búið væri að fella niður öll flug. Hver dagur var spegilmynd þess sem kom á undan – skúra, skrúbba og skeina; „mamma, við erum ennþá svöng“; óhreinn þvottur og innhólfið, að eilífu amen – rétt eins og dagar Sisýfosar sem í grískri goðafræði var dæmdur til að velta steini upp hæð sem rúllaði jafnharðan niður brattann svo að hann varð að byrja upp á nýtt, að eilífu amen.
Tíminn sem dvalið er í möguleikanum er notalegur. Þegar verk er aðeins draumur, athöfn aðeins hugmynd, er hægt að ylja sér við þá óra að allt fari á besta veg; að peysan sem stendur til að prjóna verði meistaraverk, bókin metsölubók; að maður verði að endingu framkvæmdastjóri, rokkstjarna eða einhvers konar frömuður; að áður en yfir ljúki eignist maður Teslu og hús á Nesinu.
En það er auðvelt að verða værukær þar sem dvalið er í möguleikanum.
Síðari hálfleikur lífsins
Ein af uggvænlegri fréttum vikunnar blasir við í dagatalinu. Kominn er júní. Ekki er ólíklegt að mörg okkar vakni nú upp við þann vonda draum að áform sem gerð voru við upphaf árs séu enn aðeins áform. Ef árið væri manneskja væri það miðaldra.
Viðhorf Darrel Bristow-Bovey til síðari hálfleiks lífsins tók stakkaskiptum þegar vinur hans leiðrétti þann misskilning að hann ætti lítinn tíma eftir. „Samtíminn heldur að okkur þeim skilaboðum að við eigum minna eftir en við höldum og okkur beri því að vera óttaslegin, sorgmædd og niðurlút,“ sagði Darrel Bristow-Bovey, sem nú er 52 ára, í nýlegu viðtali. „En þegar ég ákvað að breyta viðhorfi mínu varð ég ekki aðeins hamingjusamari heldur fór ég að taka betri ákvarðanir því ég var ekki lengur knúinn áfram af ótta og skelfingu.“
Í júní erum við öll stödd í miðjunni. Lífsneistinn týnist í Sisýfískum hversdagsleika þar sem steinninn rúllar niður hæðina svo að vonir, draumar og áform merjast undir. Svo kann að virðast sem tíminn sé naumur, árið sé senn á enda og að það taki sig varla að byrja á neinu úr þessu. En staðreyndin er önnur. „Þú átt meiri tíma eftir en þú heldur.“
Ég er áttatíu og eins árs og fagna hverjum degi og hlakka til þess næsta. Lifum lífinu lifandi.