Fasteignamat ársins 2024 er 11,7 prósentum hærra en núverandi mat og fasteignamat íbúðarhúsnæðis hækkar enn meira, eða um 13,7 prósent á milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu hækkar fasteignamat íbúða að meðaltali um 13 prósent en hækkunin nemur 16,1 prósenti í landsbyggðunum.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) kynnti fasteignamat ársins 2024 á fundi sem hófst kl. 10:30 í morgun. Heildarmat fasteigna á landinu öllu árið 2024 er 14,4 billjónir, eða 14.403 milljarðar króna.
Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar mun minna en íbúðarhúsnæðis, eða um 4,8 prósent á landinu, þar af um 4,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu og 5,4 prósent í landsbyggðunum. Þetta þýðir að atvinnuhúsnæði er ekki að halda í við verðþróun í landinu og raunvirði fasteignamatsins að lækka á milli ára.
Hækkunin yfir 40 prósent í tveimur sveitarfélögum
Samkvæmt samantekt frá HMS hækkar fasteignamat íbúða mest í sveitarfélaginu Skagabyggð, en þar hækkar íbúðarmatið um 43,9 prósent. Reyndar eru íbúðareignirnar í sveitarfélaginu einungis tólf talsins. Í Reykhólahreppi, þar sem íbúðareignirnar eru 95 talsins, hækkar matið um 43,5 prósent frá fyrra ári og í Vesturbyggð um 33,6 prósent.
Á hinum enda skalans er fasteignamatið að lækka um 0,9 prósent á milli ára í Grundarfjarðarbæ og minnst hækkun er í Stykkishólmi þar sem matið hækkar um 3,3 prósent á milli ára.
Á höfuðborgarsvæðinu nema hækkanir íbúðamats í Reykjavík 13,4 prósentum, í Kópavogi 11,9 prósentum, á Seltjarnarnesi 17,5 prósentum, í Garðabæ 11,4 prósentum og í bæði Hafnarfirði og Mosfellsbæ hækkar matið um 12,9 prósent frá núverandi mati.
Í Reykjanesbæ er hækkunin frá fyrra mati íbúðarhúsnæðis 17,5 prósent, á Akranesi 17 prósent, í Árborg 9 prósent, í Ísafjarðarbæ 16,3 prósent, í Akureyrarbæ 16,6 prósent, í Fjarðabyggð 20,8 prósent og í Múlaþingi nemur hækkunin 24,2 prósentum.
Minni hækkanir en í fyrra
Hækkanir á fasteignamati nú eru töluvert minni en hækkanirnar á milli áranna 2022 og 2023, en þá hækkaði fasteignamatið um 19,9 prósent á milli ára og þar af hækkaði íbúðarhúsnæði um 23,6 prósent og mat á atvinnuhúsnæði hækkaði um 10,2 prósent.
Fasteignamatið er nú í fyrsta sinn í höndum HMS, sem tók við verkefninu frá fasteignaskrá Þjóðskrá síðasta sumar. Fasteignamatið er reiknað út frá þróun kaupsamninga á öllu landinu og er því ætlað að endurspegla markaðsvirði fasteigna á hverju svæði fyrir sig. Fasteignamat ársins 2024 byggir á þeirri þróun átti sér stað á fasteignamarkaði frá febrúar 2022 til febrúar 2023.
Hvað þýðir hærra fasteignamat fyrir mig?
Fyrir þau sem eiga sitt eigið íbúðarhúsnæði þýðir hærra fasteignamat fyrst og fremst tvennt. Í fyrsta lagi er bókfært virði eignarinnar að aukast, sem þýðir aukið viðbótarveðrými. Það þýðir að fólk getur endurfjármagnað lán sín, þó það sé ef til vill ekki kræsilegt í dag, og tekið út fé til dæmis ýmiskonar neyslu án þess að fara yfir það hámarkshlutfall á lánum sem lánveitendur setja.
Í öðru lagi þýðir þetta hærri fasteignaskatta, en sveitarfélög innheimta þá skatta af fasteignaeigendum og eru þeir ákveðið hlutfall fasteignamati hvers tíma í hverju sveitarfélagi fyrir sig. Fasteignaskattar eru stór breyta í rekstri íslenskra sveitarfélaga og eru rúm 15 prósent af tekjum þeirra.
Athugasemdir