„Margt efnað fólk er lítið annað en húsverðir eigna sinna,“ sagði Frank Lloyd Wright, þekktur bandarískur arkitekt. Sumir eiga þó meira en aðrir.
Amber Kotrri er þriggja barna móðir sem rekur litla verslun í smábænum Darlington á Norður-Englandi. Í versluninni selur hún handsaumaða kímonó sloppa sem hún hannar sjálf. Innblástur að sloppunum fékk hún þegar hún ferðaðist um Albaníu, fæðingarstað eiginmanns síns, og fylgdist með ættmæðrum hans sauma föt í höndunum. Hún nefndi verslun sína „House of Zana“ í höfuðið á albönskum blómálfi.
Fyrir tveimur árum barst Kotrri bréf. Bréfið var frá lögfræðingum alþjóðlegu verslunarkeðjunnar Zara. Forsvarsmenn Zara sögðu „sjónræn og hljóðræn líkindi“ með nafni verslunar Kotrri og fatakeðjunnar. Slíkt gæti skaðað vörumerki Zara. Var þess krafist að Kotrri endurnefndi verslun sína eða lokaði henni.
Í fyrstu fannst Kotrri hún ekki eiga annarra kosta völ en að verða við skipuninni. En svo fylltist hún reiði. „Ég gat ekki með nokkru móti séð líkindin, enginn viðskiptavina minna sá líkindin,“ sagði Kotrri í viðtali við breska blaðið Guardian.
Þegar Kotrri frétti af því að fleiri lítil fyrirtæki hefðu fengið sambærilega hótun frá fatakeðjunni var henni nóg boðið. „Ég gat ekki sagt við börnin mín að ég hefði lokað fyrirtækinu mínu vegna þess að einhver stærri en ég skipaði mér að gera það.“ Kotrri neitaði að láta undan kröfu Zara.
Málið fór fyrir dómstóla. Kotrri varði sig sjálf gegn teymi lögfræðinga Zara. Málareksturinn hafði af henni dýrmætan tíma með börnunum og við rekstur fyrirtækisins.
En Kotrri hafði að endingu erindi sem erfiði. Í ágúst síðastliðnum úrskurðaði dómari að verslun hennar væri ekki atlaga að vörumerki Zara. Kotrri fagnaði með því að slá upp veislu í verslunargötunni í Darlington.
Verndun vörumerkis
Fyrr í mánuðinum birtist vefsíða á veraldarvefnum undir merkjum sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja. Í tilkynningu á síðunni baðst fyrirtækið afsökunar á framgöngu sinni í hinu svo kallaða Fishrot-hneyksli í Nígeríu. En afsökunarbeiðnin reyndist skáldskapur. Var hún lokaverkefni listamannsins Odee við Listaháskóla Íslands.
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sá þó hvorki listfengi né húmor í gjörningnum. Hann skrifaði starfsmönnum Samherja bréf þar sem hann undirstrikaði „skýlausan rétt okkar og skyldu til að vernda vörumerki félagsins“.
Í öngum sínum
Í fyrra skipaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra samráðsnefnd um endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða. Svandís sagði djúpstæða tilfinningu ríkja meðal almennings um að „sameiginlegri auðlind landsmanna sé ekki skipt á réttlátan hátt“.
Sú tilfinning var ekki úr lausu lofti gripin. Árið 2021 jók sjávarútvegurinn hagnað sinn um 124 prósent milli ára. Frá 2009 og til loka 2021 rann 71 prósent alls hagnaðar til eigenda útgerðarinnar en aðeins 29 prósent fór í opinber gjöld.
Það er þrotlaus vinna að gæta eigna sinna. Því meira sem maður á því lengri eru vaktir húsvarðarins. Þorsteinn Már telur ekki aðeins til eigna sinna fyrirtæki, fiskiflota, frystihús og kvóta, heldur vörumerki sem hann hefur að eigin sögn „byggt upp af kostgæfni á undangengnum fjórum áratugum um allan heim“.
Þorsteinn Már Baldvinsson er í öngum sínum yfir að maður úti í bæ geri að sínu það sem Þorsteinn telur eign sína. Nú veit hann hvernig íslenskri þjóð líður.
Ný skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sýnir að 83 prósent landsmanna telja auðlindagjöld eiga að vera hærri en þau eru nú.
„Nú veit hann hvernig íslenskri þjóð líður.“
Húsvörðum eignanna hættir til að telja eignarrétt sinn ná lengra en raunin er. Húsvörðum fatakeðjunnar Zara fannst eignarréttur sinn ná svo langt að þeir hefðu rétt til að loka óþekktri sloppaverslun í smábæ. Að sama skapi krefst húsvörðurinn Þorsteinn þess að landsmenn virði eignarrétt hans og að vörumerki Samherja sé ekki haft að háði í listrænum gjörningi.
En er þá ekki úr vegi að spyrja: Hvað með eignarrétt þjóðar á auðlindum sínum?
Athugasemdir (1)