Valdhafarnir eru fangar óttans. Þeir geta sig varla hreyft nema með vélbyssuvæddan her allt um kring og í brynvörðum farartækjum. Því fengum við að kynnast hér í Reykjavík, hinni almennt friðsælu borg. Mörgum brá við að sjá alla þá hervæðingu.
Ógn, skelfing og manndráp eru daglega í hugum flestra; þeirra sem laðast að tölvuleikjum, kvikmyndum og bókmenntum þar sem illvirki eru í öndvegi og lífið hangir á bláþræði. Svo má illu venjast að gott þyki – og virðast margir njóta þess að láta sífellt hræða úr sér líftóruna.
Það eitt telst fréttnæmt þar sem ógn og skelfing ríkir, stundum af náttúrunnar völdum en oftast þó af mannavöldum. Af fréttum að dæma eru stríð, morð og hamfarir það helsta sem gerist í heiminum. Það sem vel er gert og þar sem vel gengur telst ekki frétt. Þó má heyra og sjá í fjölmiðlum fólk að gera frábæra hluti, sem einstaklingar eða hópar, en það teljast ekki vera fréttir.
Nú á tímum upplýsingaflóðs og hraða ógna geðraskanir heilsu manna og skyldi engan undra í ljósi af framansögðu. Allt of stór hluti æskunnar líður fyrir kvíða og þunglyndi og ein algengasta dauðaorsökin eru sjálfsvíg.
Nóg um það. Það er ríkt í eðli okkar mannanna að bregðast við af hörku ef að okkur er sótt og lífi okkar ógnað. Þó eru aðrar kenndir okkur eðlislægari, það að hjálpast að og virða hvert annað og elska. Ef við skrúfum fyrir fréttirnar og horfum á það sem flestir hafast að hvern dag, þá vinnur fólk í friðsemd saman að öllu mögulegu, á heimilum, þjónustustofnunum og stórum og smáum fyrirtækjum – að lífsnauðsynjum og skemmtunum og öllu þar á milli. Ást, umhyggja og hjálpsemi er oft hvati þeirrar samvinnu, en stundum er óttinn þar einnig að verki – ótti um að komast ekki af nema með því að þjóna einhverjum atvinnurekanda eða valdhafa og hljóta laun eða umbun fyrir.
„Traust milli manna og öryggiskennd eru afar dýrmæt en almennt vanmetin öfl í mannlegu samfélagi.“
„Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir, ein lítil býfluga afsannar það. Guð hjálpar þeim sem hjálpast að.“ Spilverk Þjóðanna hitti naglann á höfuðið þegar það söng þetta á plötu sinni, Götuskór, fyrir nærri hálfri öld síðan. Með vísindum hefur verið sýnt fram á að gulrót virkar betur en svipuhögg til að fá fólk til að vinna vel. Einnig það að fólk tekur meira mark á því sem það sér en því sem það heyrir um eða les – að fordæmi virka betur en fyrirmæli. Vænlegra til árangurs er að sýna gott fordæmi og laða fólk til góðra verka en að skipa því fyrir og berja það áfram. Hætt er við að neikvætt fréttamat og ofbeldisdýrkun séu lítt til þess fallin að laða fólk til góðra verka.
Traust milli manna og öryggiskennd eru afar dýrmæt en almennt vanmetin öfl í mannlegu samfélagi, stóru sem smáu. Við Íslendingar tökum það sem sjálfgefið og tökum fyrst eftir þegar út af bregður. Herlaust land, með óvopnaða lögreglu – þar sem jafnt börn og stjórnmálamenn fara að mestu frjáls sinna ferða – það er nokkuð sem glöggir erlendir gestir veita eftirtekt. Flestum ætti að vera ljóst hve dýrmætt þetta er í nánu sambandi, fjölskyldu og nærumhverfi. Þennan félagsauð okkar þarf að vernda – fram í rauðan dauðann!
Höfundur er líffræðingur og kennari á eftirlaunum
Athugasemdir (1)