Fjórtán þingmenn úr stjórnarandstöðu hafa lagt fram beiðni á Alþingi um að Ríkisendurskoðun vinni skýrslu um kvótaúthlutanir Byggðastofnunar. Beiðnin byggir meðal annars á því að upp hafa komið tilfelli þar sem byggðakvóta hefur verið úthlutað þvert á lög. Alþingi hefur ekki tekið beiðnina fyrir en hún var lögð fram þann 10. maí síðastliðinn.
Í beiðninni, sem varaþingmaðurinn Sigurjón Þórðarson leggur fram í félagi við þrettán ára, segir meðal annars: „Þá hafa komið upp tilvik þar sem stjórnvöld hafa gert samninga við erlenda aðila um úthlutun byggðakvóta þrátt fyrir að slíkt brjóti í bága við ákvæði laga sem banna erlent eignarhald á íslenskum útgerðum.“ Aðrir þingmenn sem leggja frumvarpið fram eru meðal annars samflokksmenn Sigurjóns úr Flokki fólksins, þingmenn Pírata og tveir þingmenn Viðreisnar.
Samkvæmt íslenskum lögum mega fyrirtæki í meirihlutaeigu erlendra aðila ekki hafa afnotarétt af eða fá úthlutað kvóta eða byggðakvóta á Íslandi.
Hugmyndin með byggðakvóta er að Byggðastofnun geti tekið ákvörðun um að úthluta kvóta endurgjaldslaust til að styrkja byggðaþróun á landsbyggðinni þar sem það er talið þurfa.
Kvóta úthlutað til fyrirtækis í eigu norsks eldisrisa
Með þessum orðum í beiðninni er líklega vísað til fréttar sem Stundin, annar af fyrirrennurum Heimildarinnar, sagði í lok síðasta árs. Í henni kom fram að Byggðastofnun hefði úthlutað 800 tonna byggðakvóta, sem er um 320 milljóna króna virði á ári, til fyrirtækisins Búlandstinds á Djúpavogi sem er í meirihlutaeigu norska laxeldisfyrirtækisins Måsøval.
Samningur um byggðakvótann var gerður árið 2018 og kom fram í svörum Byggðastofnunar að ríkisstofnunin hefði ekki vitað það fyrr en síðasta sumar að fyrirtækið væri að meirihluta í erlendri eigu. Måsøval hefur verið meirihlutaeigandi laxeldisfyrirtækisins Ice Fish Farm á Austurlandi. Byggðastofnun úthlutaði kvótanum til að vega upp á móti neikvæðum afleiðingum þess að grindvíska útgerðin Vísir hætti starfsemi á Djúpavogi árið 2015 og 50 manns misstu vinnuna.
Í samtali við Stundina sagði yfirlögfræðingur Byggðastofnunar, Hjalti Árnason, að stofnunin hefði strax gripið til aðgerða þegar þetta erlenda eignarhald uppgötvaðist. „Þegar ljóst var orðið að eignarhald á Búlandstindi var með þeim hætti sem þú lýsir gerði Byggðastofnun kröfu um að tryggt væri að samningsaðilar uppfylltu kröfur laga nr. 34/1991. [...] Það var klárlega afstaða Byggðastofnunar að eignarhald þessara fyrirtækja þyrfti að standast ákvæði þessara laga.“
Í kjölfarið tók fyrirtæki sem heitir Ósnes við samningsskyldum Búlandstinds um byggðakvótann en það fyrirtæki er alfarið í eigu íslenskra aðila.
„Þá hafa komið upp tilvik þar sem stjórnvöld hafa gert samninga við erlenda aðila um úthlutun byggðakvóta þrátt fyrir að slíkt brjóti í bága við ákvæði laga sem banna erlent eignarhald á íslenskum útgerðum.“
Gagnrýna að stórútgerðir fái byggðakvóta
Í beiðninni kemur einnig fram að einkennilegt sé að stórar útgerðir hafi fengið úthlutað byggðakvóta. Þingmennirnir sem leggja beiðnina fram spyrja meðal annars að því í beiðninni hvort byggðasjónarmið hafi sannarlega alltaf verið höfð sem markmið við úthlutun þessa kvóta í gegnum árin. „Úthlutun byggðakvóta hefur sætt gagnrýni og deilt hefur verið um hvort stjórnvöld hafi ávallt haft byggðasjónarmið að leiðarljósi við ákvarðanatöku um úthlutun byggðakvóta. Þá hefur það sætt gagnrýni þegar stærri útgerðir fá úthlutað til sín byggðakvóta, enda margir sem rekja neikvæða byggðaþróun undanfarinna áratuga til samþjöppunar veiðiheimilda á fárra hendur.“
Þingmennirnir klikkja svo út með það í beiðninni að mikilvægt sé að úthlutun þeirra gæða sem byggðakvótinn er sé hafin yfir allan vafa og að þess vegna þurfi Ríkisendurskoðun að vinna þessa skýrslu. „Það er meginregla íslenskrar stjórnsýslu að þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um úthlutun gæða sé jafnræðis gætt meðal umsækjenda. Þegar um ræðir jafn mikilvæga ráðstöfun og úthlutun byggðakvóta má fullyrða að það sé öllum til gagns að framkvæmdin sé hafin yfir vafa. Því telja flutningsmenn brýnt að ríkisendurskoðanda verði falið að gera úttekt á ráðstöfun byggðakvóta.“
Athugasemdir (1)