Það er beðið. Beðið eftir jólum. Hinkrað í tæpa viku eftir áramótum. Þá lætur HM í handbolta bíða eftir sér. Þegar mótið loks var haldið, fór allt á versta veg og þá var ekkert til ráða nema að bíða eftir næsta tapleik íslenska handboltalandsliðsins. Sá leikur kom og fór og þegar þar var komið var ekkert annað í stöðunni en að bíða eftir næsta leik. Það sýnir sig að þó að liðið tapi þá kemur alltaf leikur eftir tapleik. Leikur sem hetjurnar munu auðvitað vinna... eða ekki. Biðin finnst okkur alltaf af hinu góða og eftir einhverju betra enda selja fyrirtæki okkur gosdrykki, snakk, sælgæti og hvað eina annað til að létta okkur biðina og lina þjáningar ósigranna.
Í miðju öllu þessu drama ríkir vetur konungur og gerir allt vitlaust. Slælegum snjóruðningi er bölvað og beðið eftir því að veðrið batni með hækkandi sól. Sem er ekkert hægt að stóla á en vorboðinn ljúfi Júróvísjón er árviss viðburður, sem sum okkar bíða eftir í 12 mánuði frá lokum einnar keppni til þeirrar næstu. Undirritaður er svo sannarlega ekki einn þeirra en unir þeim vitaskuld að njóta sem vilja.
Dagarnir í dagatalinu
Okkur er boðið upp á að bíða eftir hinu og þessu, þegar ekkert annað býðst. Undanfarin ár og áratugi hafa margir dagar þrungnir eftirvæntingu bæst í dagatalið. Við bíðum bóndadags, fyrsta dags Þorra, Valentínusardagsins, konudags í upphafi Góu, bolludags, sprengidags og öskudags sem er fagnað í byrjun lönguföstu fyrir páska. Allir þessir dagar eru notaðir til að drífa áfram neyslu og þar af leiðandi verslun. Það vita margir sem hafa verið í samböndum að varla telst mjög gott að gleyma því að vera rómó og huggó á Valentínusardegi.
Páskarnir, með allri sinni neyslu, koma svo í kjölfar hinnar sjö vikna löngu föstu sem er vitanlega nefnd langafasta. Hér sit ég og skrifa þetta á meðan ég maula síðasta páskaeggið sem ekki fannst í páskaeggjaleitinni en ég var svo heppinn að finna þegar önnur voru löngu hætt að leita.
Næstur kemur Sumardagurinn fyrsti, sem er oft og iðulega fagnað í hraglandabyl og kulda. Hverjum datt í hug að láta sem komið sé sumar á Íslandi þann 20. apríl 2023? En ... þessi vetur gat ekki orðið öllu verri eða lengri svo að kannski var bara komið sumar?
Baráttudegi verkalýðsins er fagnað 1. maí ár hvert til þess að minna á að enn er til fólk sem hefur það nokkuð skítt þrátt fyrir allt sitt brauðstrit. Mæðradagurinn er næstur og þá er mömmum hampað í einn dag auðvitað með því að kaupa gúmmílaði og blóm eða eitthvað allt annað. Uppstigningardagur kemur svo og hafa margir gleymt af hverju honum er fagnað og sama má segja um Hvítasunnudag. Það má leita svara við því hjá hinni einstaklega glöðu prestastétt landsins eða hugsanlega á Gúgúl eða jafnvel í Nýja testamentinu. Á Hvítasunnu þykir snjallt að hvetja fólk til að skreppa í ferðalag, með tjald, húsvagn eða í bústaðinn. Og auðvitað kaupa eitthvað gott til að maula og drekka.
Sjómannadagurinn er heljarinnar partí þar sem allir sem vettlingi geta valdið fagna sjómönnum sem sumir kalla sjósóknara, eða fiskara og hafa það hlutverk að draga björg í bú fyrir moldríka útgerðargreifa, greifynjur og hvolpana þeirra.
„Hæ, hó og jibbí jei!“ hljómar svo þann 17. júní þegar, við af skyldurækni fögnum því að á þessu ári eru liðin 79 ár frá því að í helli dembu á Þingvöllum lýstu Íslendingar yfir stofnun lýðveldis og endanlegu sjálfstæði frá Dönum. Svo líða nokkrar vikur þar sem alls konar skemmtilegt á að vera að gerast, sem verður enn meira gaman ef við kaupum eitthvað og helst mikið af því.
Eftir nokkra bið rennur loks upp frídagur verslunarmanna, sem kemur eftir helgi kennda við þá stétt fólks. Auðvitað hafa fjölmargir beðið verslunarmannahelgarinnar frá þeirri síðustu og þvílík vonbrigði það voru þegar veira með kórónu eyðilagði gleðina. Almennt eiga allir frí þá helgi, ja nema kannski síst þau sem hafa atvinnu af verslun. Hefur engum dottið í hug að nefna þennan fyrsta mánudag í ágúst Dag Mammons?
Svo kemur Reykjavík Pride/Gleðigangan sem er fjörug. Menningarnótt í Reykjavík er svo haldin með pompi og prakt og þetta árið þann 19. ágúst að degi til vitaskuld. Það er ekki mikið um skipulagða gleði um nóttina og þess vegna kann að þykja undarlegt að dagurinn sé nefndur nótt. Það á sér auðvitað skýringu í snilldarhugmynd kaupmanna um menningarlega næturopnun seint á síðustu öld.
Nú orðið, og áður sennilega líka, er töluvert um óskipulagða gleði þeirra sem eru á perunni og komast ekki vandkvæðalaust heim nema með hjálp lögreglu sem verður til allrar lukku fljótlega vopnuð rafbyssum (það er reyndar ekki komið í gagnið enn). Já, ég kalla þessi hjartastoppandi vopn rafbyssur því að það eru þær.
Enn er beðið þar til fyrsta degi vetrar fagnað, sem er nokkuð vel í lagt þann 28. október og veturinn oft kominn vel á veg. Spyr enn hvort ekki eigi að færa sumardaginn fyrsta og fyrsta vetrardag í dagsetningar sem eru líklegri til að standast - en það er bara ég.
Hrekkjavaka er haldin af norður-amerískum sið með ofgnótt sælgætis og minna úr bandarískum kvikmyndum. Þetta er að vísu eldgamall siður sem kristnir hirtu af keltum og var lengi fagnað á Íslandi - hætt og svo byrjað aftur sem eftiröpun á allra heilagra messu að bandarískum sið. Feðradagurinn er svo næstur og pabba gamla klappað lof í lófa gefið gott að borða og blóm sem eru ekki bleik svo karlmennskunni sé ekki ógnað. Þá er það dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember á fæðingardegi skáldsins Jónasar, sem er hið besta mál.
Þann 1. desember fagna margir fullveldinu sem var merkur áfangi í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga og átti sér stað á þessum degi 1918. Þá eru það blessuð jólin með öllu sem þeim tilheyra og svo endar árið yfirleitt með pompi og prakt á gamlársdag í púðurfnyk sem er viðlíka þeim sem búast má við þegar það viðrar vel til loftárása í Sýrlandi eða Úkraínu.
Um áramót eru oft haldin mikil teiti og fólk gerir sér glaðan dag í mat og drykk. Íslendingar leggja mjög mikið upp úr því að skjóta upp flugeldum. Þeir eru að mestu seldir til styrktar íþróttafélögum sem byggja upp stönduga, vel gerða einstaklinga sem erfa skulu land. Það tekst í flestum tilvikum ágætlega en alls ekki alltaf.
Björgunarsveitirnar sem redda málunum er veðurofsinn verður ofviða þeim bæjar- og sveitarfélögum og áræðnum ferðalöngum, sem ekki gegna viðvörunum veðurstofunnar, eru að miklu leyti reknar fyrir ágóða af flugeldasölu.
Það má segja að margir ofangreindra daga séu að mörgu leyti tilbeiðsla til Mammon. En hver er þessi Mammon? Óhætt er að fullyrða að Mammon sé ekki lýst sem góðviljaðri veru í Biblíunni, ekki síst í fjallræðu Jesú og í Lúkasarguðspjalli. Græðgi og sjálfselska kemur upp í hugann. Á miðöldum var Mammon lýst sem djöfli eða illum guði. Frá 17. öld hefur hugtakið Mammon verið notað til að sýna fram á eftirsókn eftir neikvæðri, veraldlegri eignasöfnun. Þetta á hvorutveggja við um trúarlega túlkun og veraldlega (secular context).
Við finnum öll fyrir þeirri þungu pressu sem markaðsöflin setja í gang fyrir jólin til að hvetja okkur til að kaupa hitt og þetta til að gleðja fjölskyldumeðlimi og vini um hátíðarnar. Við erum hvött til að kaupa og eyða veglega því annars koma jú jólin ekki. Gjafirnar eru líklega til komnar til að líkja eftir gjöfunum sem hinum nýfædda Jesú voru færðar í denn. Því skal þó haldið til haga að þessi siður er tiltölulega nýtilkominn í því formi sem hann er í núna. Að gefa jólagjafir tíðkaðist ekki á Íslandi fyrr en seint á 19. öld. Sumargjafir voru mun algengari fyrir þann tíma. Vinnufólk og annað heimilisfólk fékk oft eitthvað fatakyns að gjöf um jólin.
Þrátt fyrir hina mörgu tyllidaga hellist yfir okkur miðsvetrar bláminn og blús í janúar og til að bjarga því er skreppitúr til Tene, skíðaferð í Alpana eða eltingaleikur við skoppandi kúlur á golfvelli á Spáni alveg bráðnauðsynlegt bjargráð, hvað svo sem Seðlabankastjórinn segir við því. Þó að vaxtahækkanir skelli á okkur sem brimrót væri stöðvar ekkert ferðaþyrstan landann. Að loknum löngum vetri kemur sumarið í einhverri mynd. Þó árétta ég þá skoðun mína að bíða eigi ögn lengur eftir að fagna sumardeginum fyrsta sem er iðulega um miðjan vetur ef mark má taka af tíðarfarinu. Hringrás daganna heldur áfram og kapítalíska samfélagið okkar reiðir sig á þá hátíðisdaga sem dagatalið hefur að geyma. Þeir eru notaðir til að selja okkur eitthvað sem okkur vanhagar um og líka það sem okkur vantar bara alls ekki neitt. Þetta má kalla tímabundið hringrásarhagkerfi.
Beðið var eftir Godot og enn er beðið
Eitt þeirra leikverka sem hafði mikil áhrif á mig er Beðið eftir Godot eftir írska leikritaskáldið Samuel Beckett. Þetta er frábært leikrit og mér þótti einstaklega gaman að horfa á útgáfu sem Channel 4 í Bretlandi gaf út í leikstjórn Michael Lindsay-Hogg með Barry McGovern og Johnny Murphy í aðalhlutverkum. Þetta er auðvitað eitt þekktasta verk Becketts og hefur verið sýnt út um allan heim oft og mörgum sinnum myndað, hljóðritað og sent út á öldum ljósvakanna.
„Kannski er það biðin eftir eilífðinni sem verður oft furðu óþreyjufull.“
Verkið fjallar um tvo flækinga, þá Vladimir og Estragon, sem bíða við tré eftir hinum dularfulla Godot. Biðin er árangurslaus en þær hugrenningar sem verkið kallar fram eru nokkuð flóknar og alls ekki óumdeildar. Það sem kom mér á óvart var að þetta einfalda verk í tveimur þáttum vakti mig til umhugsunar um tímann, eilífðina og Guð. Þá meina ég þann tíma sem okkur er gefinn hér á jörðu og hvort Godot sé í rauninni til eða hvort að hann sé einhverskonar tákn guðlegrar veru. Það skal látið liggja á milli hluta hér en verkið er eitt það áhrifamesta sem ég hef séð og heyrt. Hin mjög svo hnittnu samtöl eru þungamiðja þess. Þeir Vladimir og Estragon virðast, að mínu mati, eiga tilveru sína að þakka Godot sem aldrei lætur sjá sig. Þau hugrenningatengsl að tilgangslausa bið þeirra megi líkja að einhverju leyti við bið okkar eftir þessum tyllideginum eða hinum. Oft er það þannig að dagurinn rennur upp, líður og niðurtalning fyrir næstu hátíð hefst umsvifalaust. Kannski er það biðin eftir eilífðinni sem verður oft furðu óþreyjufull.
Tíminn og vatnið (hluti)
Ljóð eftir Stein Steinarr
Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.
Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.
Og tíminn og vatnið
renna veglaust til þurrðar
inn í vitund mín sjálfs.
Hér skal ekki túlkað hvað Steinn Steinarr meinti en mér finnst líkt og hann sé að árétta við okkur hvað við förum illa með þann tíma sem okkur er gefinn. Margt okkar brölt miðar að því að sanka að okkur hlutum og veraldlegum gæðum sem við munum ekki geta tekið með okkur yfir móðuna miklu fremur en að njóta augnablikanna með því fólki sem okkur er kært.
Aftur að raunveruleikanum
Nú eru veður válynd í efnahagsmálum Íslendinga. Ekkert nýtt þar. Við venjumst því samt seint að þau skakkaföll sem almenningur verður fyrir vegna lélegrar efnahagstjórnunar, veiks gjaldmiðils og græðgi þeirra fáu sem eiga fjármagnið setja allt í skrúfuna með reglulegu millibili. Ríkisstjórn og seðlabankastjóri tala um „þjóðarsátt“, meira að segja nýja, til að ná niður verðbólgu. Þetta er mjög undarleg orðræða þar sem eina sáttin sem þarf að eiga sér stað er að við sameinumst í því að byggja hér mannsæmandi þjóðfélag fyrir alla.
Ég geri mér alveg grein fyrir að þetta er að vissu leyti útópísk hugsun þar sem tekist hefur að innprenta okkur að við séum einstaklingar samankomin hér á jörðu til að neyta þess sem okkur stendur til boða. En þessi tegund menningar er ekki farsæl þar sem við siglum reglulega í strand efnahagslega og erum langt komin með að ganga ansi nálægt þeim auðæfum sem jörðin hefur að geyma. Við erum fyrst og fremst hópsálir sem viljum búa í samfélagi. Í samfélagi sem er réttlátt og þar sem allir geta átt þokkalegt líf.
Hin sykursæta bylting
Einn af mínum fremur lélegu bröndurum lét á sér kræla meðan ég setti þessar línur niður á stafrænt blað. Sá fjallar um það að banna nokkra daga á ári, daga sem snúast um að selja okkur vörur auðvitað. Þetta eru annars vegar dagar sem eru séríslenskir og hins vegar dagar komnir frá útlöndum. Hér má nefna allra heilagra messu sem er núna markaðsvæddur dagur. Sama á við um konudag og bóndadag. Valentínusardagur liggur einnig vel við höggi og væri örugglega gott að losna við hann og fría þá sem honum gleyma því hugarangri sem tilvist hans veldur. Ég er hins vegar fremur mótfallinn því að banna nokkuð og læt þess vegna staðar numið hér með þessa pælingu en þá tekur auðvitað önnur við sem snýst um gerræði.
Árið 1969 var spretta sykurreyrs svo mikil á Kúbu að erfitt reyndist að ná honum öllum í hús áður en hann skemmdist. Bændur reyndu sitt besta að vinna uppskeruna áður en hún rotnaði á ökrunum en allt kom fyrir ekki. Jól og áramót voru fram undan.
Bændur vissu að ef ekki yrði brugðist við hratt og örugglega færu mikil verðmæti í súginn. Landbúnaðarráðuneytið bar málið og vandann undir félaga Castro sem flestu réði þar á bæ á þessum tíma. Hann gerði sér lítið fyrir og bannaði jólin það árið með einu pennastriki. Þetta var auðvitað snilldarbragð þar sem Kúba bjó þá við hafnbann Bandaríkjanna og þurfti allar þær tekjur sem hægt var að skapa.
Castro bannaði líka innflutning á vörum sem tengdust jólum. Hér má nefna kexkökur, blöðrur, súkkulaði, partíhatta, leikfangabyssur, kampavín, föt og svo mætti örugglega áfram telja. Auðvitað höfðu þessar aðgerðir áhrif á landsframleiðsluna og viðskiptajöfnuð.
Hinn að eigin sögn óskeikuli leiðtogi gerði gott betur og lét ekki þar við sitja. Hann sagði þeim sem unnu við uppskeru sykurreyrs að áramótagleðinni yrði líka frestað að þessu sinni. Kúbverjar gerðu sér þetta að góðu og lögðu mikið á sig að koma hinum dýrmæta sykurreyr á hús. Ég er viss um um að verki loknu hafi verið fírað upp í Havanavindlum og nokkur glös af rommi fyllt og þau tæmd til þess að fagna vel unnu verki.
Inn í eilífðina og út í það óendanlega
Við bíðum eftir hinu og þessu og látum okkur hlakka til. Ég bíð til dæmis vikulega eftir þeim stóra í Lottóinu. Það gerist líklega seint að ég fái vinninginn og biðin heldur áfram viku eftir viku. Lag Bjartmars Guðlaugssonar Þannig týnist tíminn sem Raggi Bjarna og Lay Low fluttu svo vel kemur upp í hugann því að þegar öllu er á botninn hvolft þá er eins og tilvera okkar snúist um það að týna tímanum, láta hann líða hratt og vera óþreyjufull ef hann gerir það ekki eða þá að við ergjum okkur yfir þegar hann líður of hægt. Við erum tímabundnar verur sem vitum snemma á ævinni að við höfum aðeins takmarkaðan tíma hér á jörð í líkama okkar.
Meðalaldur karla á Íslandi er 81 ár. Það eru um tveir milljarðar fimmhundruðfimmtíu og sex milljónir eitthundrað og þrettán þúsund eitthundrað og tólf sekúndur. Meðalaldur kvenna á Íslandi eru rúm 84 ár og það gerir um það bil tvo milljarða sexhundruð og fimmtíu milljónir sjöhundruð áttatíu og þrjú þúsund níuhundruðsextíu og átt sekúndur.
Þetta eru þó nokkuð margar sekúndur en þær líða hratt og hraðar ef við viljum. Tíminn er afstæður og þær aðstæður sem við erum í stjórna því hvort tíminn virðist líða hratt eða hægt. Ef okkur leiðist líður hann hægt og ef við erum að fást við eitthvað skemmtilegt þá virðist hann líða hratt. Lykilorðið hér er virðist. Tíminn er nokkuð fastur fyrir og það skeikar litlu á milli daga hvað hann tifar hratt áfram. Við erum á ferðalagi á plánetunni jörðu um geiminn sem við þekkjum takmarkað en æ betur ef marka má þær fréttir sem birtast um hnetti sem geyma vatn, svarthol sem eru nær okkur en vitað var áður og áfram má halda. Vísindamenn eru ekki lengur vissir hvort blessuð kenningin um stóra hvell standist enn skoðun. Ég er ekki vísindamaður en hef lengi verið þeirrar skoðunar að sú kenning standist ekki. En bara til að halda því til haga þá er jörðin ekki flöt.
Hver er tilgangurinn með þessum vangaveltum? Jú, því er auðvitað þannig farið að við vitum öll að okkar bíður það verkefni að deyja einn daginn. Þau örlög vekja flestum ótta og ugg en það dugar ekki að deila við dómarann. Enn sem komið er er endirinn fyrirfram gefinn þó að vegferð hvers og eins okkar sé ekki eins fram að þeirri stundu.
Við skiptumst í hópa sem hafa komið sér saman um túlkun þess hvernig okkur ber að haga okkur meðan við fetum æviveginn og hver áhrif gerða okkar verða á það framhald sem vonast er að taki við. Þar bíður annar staður þar sem vitund okkar fær að vera til áfram þó að við verðum að skilja við líkama okkar þegar jarðvistinni lýkur. Framangreindir hópar eru félög sem skiptast í trúarbrögð þar sem trúleysingjar mega stunda sína trú. Trú sem byggir meðal annars á því að það sé ekkert framhaldslíf eftir dauðann.
Þau trúarbrögð sem mannfólkið hefur orðið hugfangið af eru að mörgu leyti ólík vegna þess hvar þau spruttu upp og í hvaða menningarkima. Trúarbrögð túlka lífið og dauðann með margvíslegum hætti og hafa verið notuð sem stjórntæki til að stjórna heilu þjóðfélögunum, kveikt deilur og úlfúð sem hafa kostað milljónir lífið og valdið ómældum þjáningum.
Hins vegar þegar þysjað er út og horft á öll þessi trúarbrögð í heild, þessi haldreipi mannfólks í þúsundir ára í heild, snúast þau um tilbeiðslu einhvers afls eða veru eða margra vera sem öllu geta breytt, skópu það umhverfi sem við búum í og eru auðvitað sú eða þær einu réttu. Þegar þessi sannleikur hverra trúarbragða fyrir sig hefur verið höndlaður telja fylgjendur þeirra ótækt að almættið sé túlkað með öðrum hætti innan vébanda annarra trúarbragða.
Ég er ekki viss um hvert verður haldið þegar síðasti andardrátturinn sleppur af vörum mínum en ég vona að ævintýri bíði, ævintýri sem setur það sem ég hef gengið í gegnum í samhengi. En eftir stendur sú stóra staðreynd að ég ræð litlu um það hvað verður.
Höfundur er kvikmyndagerðarmaður
Athugasemdir