„Af hverju eru engir hérna til að taka á þeim málum sem virkilega brenna á? Eitt er að láta sig alþjóðamálin varða í vikunni en ráðherrar hljóta að átta sig á því að slíkt kemur ekki í staðinn fyrir forystu hér í innanlandsmálum,“ sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar á þingi í dag.
Kristrún sneri aftur á þing eftir fæðingarorlof og spurði forseta Alþingis, Birgi Ármannsson, hvað væri eiginlega í gangi hjá ríkisstjórninni. Fáir ráðherrar voru sjáanlegir á þingi í dag og taldi Kristrún þá ekki sinna forystu hlutverki sínu. Leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í Hörpu á morgun og vera má að hann skýri fjarveru ráðherra en þingmenn voru ósátt með að þjóðarmál væru látin sitja á hakanum fyrir alþjóðamálin.
„Af hverju eru engir hérna til að taka á þeim málum sem virkilega brenna á?“
„Ég ætlaði að eiga hér í dag orðastað við eitthvert af forystufólki ríkisstjórnar, en ekkert þeirra ætlar að láta sjá sig hér á Alþingi í dag og sitja undir svörum, t.d. um verðbólgu, vexti, verkföll og húsnæðismál, enda virðist þeim líða best á meðan pólitíska umræðan hverfist um mál sem snúast ekki um veruleika venjulegs fólks. Þótt þetta sé því efst í huga þessa dagana, efnahags- og velferðarmálin.“ Að lokum óskaði Kristrún eftir því að forystufólk ríkisstjórnarinnar stæði undir svörum síðar í vikunni.
Björn Leví Gunnarsson varaformaður Pírata tók undir beiðni Kristrúnar og lét í ljós óánægðu sína með að 130-140 mál stjórnarandstöðunnar væru föst í nefnd. „Það má kannski vekja athygli á því að stjórnarandstaðan er búin að mæla fyrir 130–140 málum sem eru öll föst inni í nefnd, fullt af þeim málum eru einmitt nákvæmlega á þessum nótum; að bæta kjör almennings.“
Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokk fólksins sló á sama streng og kallaði þinghaldið undarlegt. „Þeir eru of uppteknir við það að vera hér einhverjir veislustjórar á meðan þjóðin bíður eftir fjölmörgum svörum,“ sagði þingmaður.
Athugasemdir (1)