Í síðustu viku settist Geoffrey Hinton, 75 ára bresk-kanadískur sálfræðingur og tölvunarfræðingur, í helgan stein. En í stað þess að horfa af tilhlökkun til eftirlaunaáranna lítur Hinton nú yfir farinn veg og iðrast ævistarfs síns. „Ég reyni að hughreysta sjálfan mig með hinni hefðbundnu afsökun: Ef ég hefði ekki gert þetta hefði einhver annar gert það.“
Hinton er „guðfaðir“ gervigreindarinnar sem umbyltir nú tækniheiminum. Nýverið sagði Hinton starfi sínu lausu hjá tæknirisanum Google og gekk til liðs við ört stækkandi hóp sérfræðinga sem vara við notkun gervigreindar. Hinton segist óttast að uppfinningin geti að endingu leitt til endaloka mannkyns. Til skemmri tíma eru áhyggjur hans þó annars eðlis.
15 stunda vinnuvika
Árið 1928 skrifaði breski hagfræðingurinn John Maynard Keynes ritgerð sem bar heitið „Efnahagslegir möguleikar barnabarnanna okkar“. Í ritgerðinni spáði Keynes því að vegna tækniframfara og aukinnar skilvirkni yrði hagvöxtur svo mikill næstu hundrað árin að barnabörn samtíðarmanna hans þyrftu ekki að vinna meira en 15 klukkustundir á viku til að fullnægja þörfum sínum.
Keynes reyndist sannspár um aukna skilvirkni. Samkvæmt rannsókn afkastar starfsmaður á skrifstofu jafnmiklu á einni og hálfri klukkustund og kollegi hans gerði á heilum vinnudegi árið 1970. Enn bólar hins vegar ekkert á 15 stunda vinnuvikunni.
Almennur vinnutími hefur lítið breyst frá því að hann tók að miðast við 40 stundir á viku. Hér á landi var 40 stunda vinnuvika leidd í lög árið 1971.
Ávinningur tækniframfara síðustu áratuga skilaði sér ekki í styttri vinnuviku. Hann virðist þó ekki heldur hafa endað í launaumslaginu. Framan af 20. öld hélst launaþróun í hendur við aukna framleiðni. Vísbendingar eru hins vegar um að á síðari hluta hennar hafi leiðir tekið að skiljast; framleiðni hélt áfram að aukast en laun stöðnuðu.
En hver naut þá góðs af skilvirkni tækninýjunga ef ekki þau sem unnu störfin?
Alvarleg tilvistarkreppa
Í síðustu viku birtu góðgerðarsamtökin Oxfam nýja skýrslu um launamun forstjóra fyrirtækja og starfsfólks í hinum ýmsu löndum. Árið 2022 lækkaði raungengi launa á heimsvísu um 3 prósent. Laun framkvæmdastjóra þeirra landa sem tekin voru fyrir í könnuninni hækkuðu hins vegar um 9 prósent.
Aukinnar skilvirkni síðustu áratuga sér hvorki stað í veski launafólks né auknum frítíma þess. Í stað þess að leiða til 15 stunda vinnuviku rann stærstur hluti hagnaðarins sem hlaust af sameiginlegum uppgötvunum mannkyns í vasa stjórnenda fyrirtækja og hluthafa. Samkvæmt úttekt bresku hugveitunnar „Common wealth“ jukust tekjur heimila í Bretlandi um 25 prósent á árunum 2000 til 2019. Á sama tíma jukust arðgreiðslur fyrirtækja um 132 prósent.
„Flestir eru hins vegar sammála um að tæknin muni leiða til alvarlegrar tilvistarkreppu.“
Skiptar skoðanir eru um hvort gervigreind á borð við spjallmennið ChatGPT ógni tilvist mannkyns. Flestir eru hins vegar sammála um að tæknin muni leiða til alvarlegrar tilvistarkreppu.
Í skýrslu fjárfestingabankans Goldman Sachs er því spáð að gervigreind komi til með að leysa af hólmi 300 milljón störf á heimsvísu. Talið er að fjórðungur allra verka á vinnumarkaði í Evrópu og Bandaríkjunum verði óþarfur. Bankinn segir fréttirnar þó ekki alslæmar. Aukin skilvirkni muni leiða til virðisaukningar á vöru og þjónustu að allt að 7 prósentum.
Geoffrey Hinton óttast að tæknin sem hann tók þátt í að skapa muni kollvarpa vinnumarkaðinum. „Hún kann að binda enda á leiðigjörnustu handtökin,“ sagði hann. „En hún kann að binda enda á svo miklu fleira.“
Við stöndum nú á tímamótum. Tvennt er í stöðunni. Annaðhvort verður launafólk fórnarlömb aukinnar skilvirkni af völdum gervigreindar eða það fær hlutdeild í henni. Sagan sýnir þó að hið síðara gerist ekki af sjálfu sér.
Athugasemdir (3)