Ísland ætlar að verða fyrsta og eina landið í sögu mannlegrar siðmenningar til að sigra stríðið gegn fíkniefnum. Vissulega hefur bókstaflega öllum þjóðum heims mistekist fullkomlega í þeirri vegferð, og raunar gert félagslegar aðstæður allra sem að þessum heimi koma bæði verri og hættulegri. En við erum Íslendingar; afkomendur víkinga. Þjóðin sem fangelsaði alla bankamennina og varði vítaspyrnu frá Messi. Eitt fullkomlega glórulaust stríð við vindmyllur og drauga er ekkert fyrir svona heljarmenni. Það er eins og yfirvöld hafi klárað að horfa á The Wire og hugsað með sér: „Það vantaði bara herslumuninn þarna í Baltimore og þá hefði þetta verið komið hjá þeim.“
Eitt af fjölmörgum vandamálum heilbrigðisráðherra í þessum málaflokki var líklega slæm væntingastjórnun. Hann setti sjálfur saman starfshóp í fyrra til þess að semja með sér frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta. Síðan þá hefur staða fólks í vímuvanda aðeins versnað og í staðinn fyrir að bregðast við hefur hæstvirtur ráðherra ákveðið að setja frumvarpið enn á ný í frost. Það var eins og yfirvöld hafi í eitt andartak vaknað upp af áratugalöngu dái til þess eins að lúðra út einu löngu freti, andvarpa og lognast aftur út af.
Í staðinn ætla heilbrigðisyfirvöld að setja meiri púður í „skaðaminnkandi úrræði“, sem er hlægileg leikáætlun beint í kjölfarið á því að slá eina raunverulega skaðaminnkandi úrræðið út af borðinu. „Við höfum ákveðið að nota ekki sýklalyf við þessum faraldri að þessu sinni, en í staðinn ætlum við að stórauka notkun okkar á blóðsugum, kírópraktorum og heilandi bænum.“
Ríkisfjármögnuð jaðarsetningarvél
Það er engin raunveruleg langtíma-skaðaminnkun án afglæpavæðingar því að á meðan samfélagið lítur enn á fíknisjúkdóma sem viðfang lögreglu en ekki heilbrigðisyfirvalda er ekkert öruggt athvarf fyrir fólk sem stríðir við fíkn; það mun ekkert traust ríkja á milli notenda vímuefna og hins opinbera. Það mun áfram vera ótti við að leita sér heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu, ótti við að vera brennimerktur og svo auðvitað óttinn við að vera einfaldlega handtekinn. Í staðinn fyrir að takast á við vandann er honum haldið á jaðrinum, undir yfirborðinu. Það virkar ekki og hefur aldrei virkað.
Það á bara að halda áfram að reka þessa ríkisfjármögnuðu jaðarsetningarvél sem breytir sjúklingum í glæpamenn. Þetta er vanhugsaður skepnuskapur af sama kaliberi og hvernig var komið fram við fólk með geðsjúkdóma fyrir 200 árum (og er reyndar að mörgu leyti enn komið fram við fólk með geðsjúkdóma, en það er annað mál).
Sigmundur sem fékk aldrei boð í skemmtilegt partí
Upphaf þessarar umræðu var fyrirspurn á þingi frá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem virðist hafa fundið sér vonda málstað vikunnar til þess að verja í von um að hann nái að hitta eins og einu sinni í mark á popúlista-píluspjaldinu í þessum dauðakippum hans pólitíska ferils. Hann vill meina að agaleysi nútímans sé helsti skaðvaldurinn hér; að það séu of litlar afleiðingar af því að fikta við vímuefnaneyslu í dag.
„Í minni tíð í menntaskóla, seint á síðustu öld, mætti enginn í bekkjarpartí með ólögleg fíkniefni.“
„Í fyrsta lagi trúi ég því algjörlega að Sigmundi hafi aldrei verið boðið í skemmtilegt partí.“
Sagði Sigmundur í viðtali á Sprengisandi máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi trúi ég því algjörlega að Sigmundi hafi aldrei verið boðið í skemmtilegt partí. Hann virðist frekar vera týpan sem sat með fjórum uppskrúfuðum vinum sínum sem skiptust á að lesa upp úr skrifum Edmund Burke fyrir hver annan. Í öðru lagi er frekar fyndið að hlusta á stjórnmálamann sem hefur gagnrýnt tilfinningasemi fólks í pólitískri umræðu nota eitthvert gagnslaust dæmi frá eigin bitlausu uppvaxtarárum sem rök sem eiga sér bókstaflega engar vísindalegar stoðir í raunveruleikanum.
Ég er raunar hættur að skilja hvert endamarkmiðið með þessari tegund af hundaflautupólitík er. Er það einu sinni hundaflauta ef enginn virðist heyra í henni? Hann er meira eins og Rose á flekanum að reyna að puðra máttleysislega í flautu í veikri von um að einhver tosi hann upp í björgunarbát áður en hann sekkur ofan í hyldýpi gleymskunnar. Ætli stærsti ósigur Sigmundar í pólitík verði ekki að honum tókst aldrei að verða sérstaklega sannfærandi eða góður popúlisti.
Hægt að fara að leysa alvöru glæpi
Það er því galið að kerfið virðist taka undir þessa afstöðu Sigmundar. Kerfið ætti þvert á móti að fagna afglæpavæðingu. Það er nú þegar í yfirlýstu stríði við skipulagða glæpahópa. Stríð sem er að miklu leyti heimatilbúið með þessari vanhugsuðu refsistefnu sem býr til jarðveg fyrir starfsemi þessara hópa. Stóra lausnin er beint fyrir framan okkur en við kjósum frekar að plástra það með því að láta vanfjármagnaða og undirmannaða löggæslu fá sífellt stærri vopn í von um að við getum barið það vandamál í burtu líka. Pælið í öllum alvöru glæpunum sem væri hægt að leysa ef svona mikil orka færi ekki í að handjárna sjúklinga fyrir það eitt að framkvæma fullkomlega fyrirbyggjanlega glæpi í heimatilbúnu umhverfi örvæntingar sem þetta fólk er neytt til þess að lifa í.
Lögreglan segir að það verði allt of flókið að reyna að ákvarða hvað sé neysluskammtur og hvað ekki. Hvernig væri bara að ef þetta er ekki teipaður plastmúrsteinn með símanúmerinu hans Svedda tannar utan á þá bara látið þið þetta slæda og farið að pæla í einhverju öðru?
Auðveldara að líta á veikt fólk sem glæpamenn
Ég er enginn sérfræðingur í þessum málaflokki. Langt því frá. Ég er bara að endurtaka það sem nánast allir sem hafa menntun í, vit á og reynslu úr þessum heimi hafa verið að segja í áratugi. Það er ekki neitt sérstaklega umdeild skoðun að segja að núverandi kerfi virkar ekki. Meira að segja fólkið sem heldur hlífiskildi yfir þessu kerfi viðurkennir að það virkar ekki. Það er bara ekki tilbúið að breyta því.
Stríð enda
Sannleikurinn er líklega ótti við hvað úrbætur kosta. Að taka glæpinn úr fíkniefnaneyslu og viðurkenna að þetta sé fyrst og fremst félagslegt heilbrigðisvandamál er að horfast í augu við misskiptingu og kerfislæga jaðarsetningu. Það er að horfast í augu við að þurfa að stórefla velferðar- og heilbrigðiskerfið. Það kostar að hugsa það til enda að það séu dýpri samfélagsmein sem þurfi að takast á við. Það er auðveldara að líta bara á þetta fólk sem glæpamenn og aumingja sem þurfa bara aðeins að herða sig. Það virðist ekki vera geta né vilji á Alþingi til þess að fara í djúpa naflaskoðun. Það virðist þvert á móti vera gríðarlegt óþol fyrir því að taka eina einustu teljandi ákvörðun innan löggjafans þegar kemur að nokkrum sköpuðum hlut, hvort sem það er skaðaminnkun, heilbrigðismál, loftslagsmál, efnahagsmál eða nokkuð annað. Og aftur verður maður að spyrja sig: til hvers er þetta fólk?
Það er ekki eins og við værum að finna upp hjólið hérna. Það er komin ríflega 20 ára reynsla á breyttri refsistefnu í Portúgal. Þar hefur árangurinn verið ótvíræður; rannsóknir hafa sýnt að vímuefnaneytendum hefur fækkað umtalsvert í́ Portúgal og á́ það við um allar tegundir fíkniefna. Dauðsföllum vegna fíkniefnaneyslu hefur fækkað mikið, HIV-smitum hefur fækkað og fleiri sækja sér örugga heilbrigðisþjónustu. Fordæmin eru til. Við bara þorum ekki að fylgja þeim.
Það er enginn að halda því fram að búa til refsilaust umhverfi í kringum fíkniefnaneyslu muni leysa ópíóíðafaraldurinn eitt og sér. Þetta er ekki hugsað sem viðurkenning á skaðleysi vímuefna eða einhver töfrapilla. Það þarf fjölmargar ólíkar lausnir, fjármagn og gjörbreytta nálgun. Markmiðið væri einfaldlega að búa til umhverfi sem opnar dyrnar fyrir fólk sem hefur verið sett á jaðarinn af mannfjandsamlegu kerfi. Hleypa þessu fólki inn, veita því þjónustu, taka utan um það og reyna að aðstoða innan frá. Þetta er spurning um mannhelgi og reisn, spurning um að mæta fólki eins og það er. Þetta snýst um að viðurkenna eðli vandamálsins frekar en að hlaupa í burtu frá því. Vandamál sem á rætur sínar í flóknum félagslegum þáttum, misskiptingu og löskuðu geðheilbrigðiskerfi verður ekki leyst með enn meiri jaðarsetningu, stigmatíseringu og einangrun. Það er ekki hægt að berja fíknina úr fólki með vendi. Það hefur aldrei verið hægt.
Eins og rannsóknarlögreglumaðurinn Ellis Carver sagði í The Wire fyrir rúmum tveimur áratugum:
„Þú getur ekki einu sinni kallað þetta stríð. Stríð enda.”
Athugasemdir (1)