Ríkisútvarpið flutti nýlega þætti um Jósafat Arngrímsson „athafnamann“ í Keflavík. Meðal þess sem kom fram í einum þáttanna var að Jósafat þessi var nærri því að flækjast inn í s.k. Geirfinnsmál. Það gerðist með þeim hætti að rannsóknarlögreglumennirnir sem sem rannsökuðu Geirfinnsmálið, þeir Eggert N. Bjarnason og Sigurbjörn Víðir Eggertsson ásamt yfirmanni þeirra Erni Höskuldssyni sýndu Erlu Bolladóttur myndir. Eða eins og segir í málskjölunum:
"Mættu [Erla] hafa verið sýndar myndir af 16 mönnum sem rannsóknarlögreglan telur hugsanlegt að hafi verið við dráttarbraut Keflavíkur og/eða í bátsferð þ. 19.nóv".
Einn þessara manna á myndalistanum var Jósafat Arngrímsson. Flestir mannanna sem lögreglan sýndi sakborningum voru, líkt og Jósafat, athafnamenn í íslensku viðskiptalífi.
Fjögur mál
Hugmyndir rannsóknarlögreglumannanna um „hugsanlega“ tengingu þessara 16 manna við meinta atburði á dráttarbrautinni í Keflavík þ. 19. nóvember 1974, og val þeirra á mönnunum 16 sem sýndir voru sakborningunum bendir til að í hugum lögreglumannanna var Geirfinnsmálið mögulega angi af víðtækari atburðarás eða glæpastarfsemi sem var til meðferðar hjá réttarkerfinu um þessar mundir. Þessi mál sem voru til rannsóknar nefndust Spíramálið, Ávísanamálið og Klúbbmálið. Spíramálið snérist um smygl á spíra og ólöglega sölu á þeim vökva í veitingahúsum og víðar, ávísanamálið var rannsókn á mögulegu fjármálamisferli sem byggðist á útgáfu keðju innistæðulausra ávísana og Klúbbmálið, sem tengdist öllum hinum málunum, var meint sala á ólöglegu áfengi og lokun veitingastaðarins í stuttan tíma. Mennirnir 16 sem lögreglan taldi hugsanlega tengjast hvarfi Geirfinns áttu í ýmsum samskiptum sín á milli, en þeir sem tengdust öllum málunum í huga lögreglunnar voru s.k. Klúbbmenn. þ.e. Magnús Leópoldsson framkvæmdastjóri og Sigurbjörn Eiríksson eigandi. Í Vísi skrifaði blaðamaður þ. 25. september 1976 „Það sem vakið hefur hvað mesta athygli eftir að nöfn reikningshafanna [í ávísanamálinu] hafa verið birt er að allir nema þrír eru tengdir Klúbbnum“.
Ástandið í þjóðfélaginu
Í lok ársins 1974 birtist leiðari í dagblaðinu Vísi undir fyrirsögninni „Ógnaröld“. Í leiðaranum er skráð að: „Íslendingar séu orðnir meiri ofbeldismenn en áður og ofbeldi hafi aukist miklu meira en nemur fjölgun fólks í landinu... Ísland hefur á skömmum tíma breyst úr sveitaþjóðfélagi í bæjaþjóðfélag. Reykjavík fer að bera svip stórborgar. Lögreglan er óviðbúin þessari skjótu breytingu... Við höfum ekki þjálfað lögreglulið til að glíma við vandamál ógnaraldar“.
Þessi skrif birtust, vel að merkja, skömmu eftir að Geirfinnur Einarsson hvarf og um það leyti sem málin, þ.e. þau fjögur sem hér eru til umfjöllunar, komust í hámæli og yfirtóku umræðuna í þjóðfélaginu.
Rúmu ári eftir að vangaveltur ritstjóra Vísis um aukið ofbeldi birtust, birti Alþýðublaðið leiðara 25. febrúar 1976 sem e.k. staðfesting á „Ógnaröldinni“. Þar segir „Risið hafa upp hópar glæpamanna, sem stundað hafa smygl, skattsvik, eiturlyfjasölu, fjárglæfra, fjársvik og fals og jafnvel ekki skirrzt við að fremja enn óhugnanlegri afbrotaverk. Hér erum að ræða menn, sem þykjast eiga talsvert undir sér og umgengizt hafa jafnvel æðstu menn í stjórnmála- og framkvæmdaheimi landsmanna og virðast hafa haft ótrúleg áhrif.“
Hér hljóta orðin um „enn óhugnanlegri afbrotaverk“ að vísa til mögulegra manndrápa.
„Ógnaröldin“ fær einnig byr í seglin í skrifum Dagblaðsins , sem þá var nýkomið á dagblaðamarkaðinn. Dagblaðið birti ýmislegt sem byggðist á getgátum blaðamanna, getgátum sem endurspegluðu hversu umfangsmikið og óvenjulegt málið var talið. 13. febrúar 1976 skrifaði blaðamaðurinn BS um Geirfinnsmálið: „Óhætt er að fullyrða, að jafnvel þaulvanir rannsóknarmenn eru slegnir hinum mesta óhug, vegna þess, sem fram hefur komið. Rannsóknin er afskaplega umfangsmikil. Inn í hana fléttast tvö morð og að öllum líkindum fleiri. Heyrzt hefur talað um 5 mannsmorð. Spírasmyglið er og mjög umgangsmikið mál. og inn í það fléttast örugglega tugir manna, allt frá sjómönnum, sem færa varninginn upp að landinu, allt til dreifingaraðila í landinu, sem talið er að hafa verið allmargir og dreifðir.“
Þegar þessi skrif eru birt í Dagblaðinu sitja sex karlmenn í Síðumúlafangelsi grunaðir um að hafa verið á Dráttarbrautinni í Keflavík 19. nóvember 1974, kvöldið sem Geirfinnur hvarf. Blaðamennirnir sem skrifa um málin fá brotakenndar vísbendingar frá aðilum sem tengjast rannsókninni og reyna síðan að fylla í eyðurnar. Þær brotakenndu upplýsingar sem skrif blaðamannanna innihalda virðast endurspegla þá trú lögreglunnar að þeim sé að takast að afhjúpa glæpahóp eða hópa sem stunda stórfellt smygl og fjármálamisferli - og hafi „jafnvel ekki skirrzt við að fremja enn óhugnanlegri afbrotaverk“. Morðin, sem enginn veit enn hvort hafi nokkurn tímann verið framin, eru jafnvel fimm- og það í landi þar sem hvert morð taldist til stórviðburða á þessum tíma.
„Skipulagður hópur fjárglæframanna“
Í umfjöllun um ávísanamálið voru stóra yfirlýsingar í blöðum: „Alþýðublaðið hefur fengið staðfestingu á því hjá Sakadómi Reykjavikur að um 20 manns, áhrifamiklir fjármálamenn, kaupsýslumenn og lögmenn séu viðriðnir umfangsmesta ávisanasvindl, sem um getur hér á landi. Hér virðist um að ræða skipulagðan hóp fjárglæframanna, sem hefur leikið sér að þvi að svindla tugi milljóna út úr bönkum og sparisjóðum síðustu tvö árin.“ (18.8.76)
Þessi blaðaskrif árið 1976 eru augljóslega byggð á hugmyndum um að á ferðinni sé hópur „áhrifamikilla manna“ með tengsl við „æðstu menn í stjórnmála- og framkvæmdaheimi landsmanna og virðast hafa haft ótrúleg áhrif“ sem lögreglan er að rannsaka vegna fjármálamisferlis, ólöglegrar sölu á smygluðu áfengi - og jafnvel morða. Lögreglan lagði síðan fyrir Sævar, Erlu og Kristján Viðar, sakborningana í Geirfinnsmálinu, myndir af þeim körlum sem lögreglan telur að geti tengst þessum málum í þeim tilgangi að tengja þetta við hvarf Geirfinns í samræmi við sviðsmyndina sem unnið var eftir.
Blaðamaður Þjóðviljans skrifaði 29. 12. 1976: „Það munu ár og dagar síðan slíkur fjöldi sakamála af stærri gráðu hafa komið uppá yfirborðið og á því ári sem senn er liðið“. Nefnir blaðamaðurinn sex sakamál og eru Geirfinns- og Guðmundarmál þar á meðal auk ávísanamálsins.
Ávísanamálið, „umfangsmesta ávísanasvindl sem um getur“, hlaut hægt andlát og enginn var ákærður fyrir fjárdrátt. Umboðsdómari sem var skipaður til að rannsaka ávísanamálið sagði 1982 að: „ákveðið þjóðfélagsástand kallaði á rannsókn ávísanamálsins...einhverri umfangsmestu rannsókn á áætluðum fjármunabrotum sem hér hafa verið gerð. Þetta þjóðfélagsástand skaraðist ógnvænlegum sakamálum, sem upp komu í árslok 1975, svokölluðum Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Ekki þarf að rifja upp það umrót og þann ótta, sem greip um sig meðal þjóðarinnar í kjölfar þeirra mála.“
Átök á stjórnmálasviðinu
Ólgan í þjóðfélaginu náði til stjórnmálanna og inn á Alþingi. Í byrjun febrúar 1976 komu fram ásakanir á hendur að Ólafi Jóhannessyni formanni Framsóknarflokksins og dómsmálaráðherra. Hann var sagður hafa stöðvað rannsókn Klúbbmálsins sem Haukur Guðmundsson lögreglumaður og Kristján Pétursson tollvörður unnu að. Meðal aðila sem lágu undir grun um aðild að mögulegum glæpum voru menn sem tengdust Framsóknarflokknum og stigu pólitískir andstæðingar flokksins fram með ásakanir um spillingu og ólöglegar aðgerðir dómsmálaráðherrans.
Vilmundur Gylfason þingmaður Alþýðuflokksins var þar fremstur í flokki og ásakaði Ólaf Jóhannesson um að hafa stöðvað yfirheyrslur „yfir manni sem rannsóknarmenn hafi talið að gæti varpað ljósi á hvarf Geirfinns Einarssonar“.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins lýsti skoðun sinni á frumrannsókn Geirfinnsmálsins í fréttatíma Ríkissjónvarpsins 9. október 1998: „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það sé mjög ámælisvert hvernig haldið var á þeim málum. Það var logið sökum upp á einstaklinga og menn gerðu mynd af ákveðnum einstaklingi sem var greinilega skipulagt samsæri. Menn hafa aldrei farið ofan í þessi mál og þeir aðilar sem báru ábyrgð á því hafa aldrei þurft að mæta því."
Halldór ruglar að vísu saman gerð Leirfinns og meintu meinsæri Erlu, Sævars og Kristjáns Viðars, en ummælin sýna að tveimur áratugum síðar lifði enn í glóðum þessara átaka.
Málin tengd saman
Í dagblöðum endurómuðu hugmyndir manna um tengsl málanna: „Stórsmyglið og hvarf Geirfinns tengd mál“ (Vísir 14.1. 75). „Staðfest hefur verið, að mál Geirfinns Einarssonar og smyglmálið mikla séu tengd. Tengsl málanna eru í því fólgin, að Geirfinnur var beðinn um að eima visst magn af spíra, sem sjór hafði komizt í. Sú eiming fór þó aldrei fram, enda hvarf Geirfinnur daginn eftir. Af þessu er ljóst, að Geirfinni var kunnugt um smyglið.“ Alþýðublaðið er á sömu slóðum „rannsókn þessa ávísanamáls var í upphafi tengt Geirfinnsmálinu. Rannsókn á ávísunum, stíluðum til Geirfinns Einarssonar, leiddi síðan til þess að rannsóknarmenn komust á sporið.“ (18.8. 76)
Kristján Pétursson tollvörður sem vann að rannsókn bæði Klúbbmálsins og spíramálsins og tengdist einnig rannsókninni á hvarfi Geirfinns, var sá sem ötulastur var við að tengja það mál við aðstandendur Klúbbsins og smygl á spíra. Sjöunda febrúar 1976 fullyrti Kristján í sjónvarpsþætti að „við rannsókn sína hefði hann verið kominn með upplýsingar í hendur sem tengdu fyrrgreind þrjú mál [Geirfinnsmálið, Klúbbmálið og spíramálið] á óvefengjanlegan hátt.“
Í skýrslu rannsóknarlögreglumannsins Eggerts N. Bjarnasonar, sem var einn þeirra sem rannsökuðu Geirfinnsmálið, kemur fram að unnið var samkvæmt hugmyndum um tengingu málanna: „Fljótlega eftir að rannsóknarlögreglan í Rvk. fór að rannsaka hvarf Geirfinns og áfengissmygl í því sambandi...“ Og eftir að fjórmenningarnir voru handteknir skráir Eggert: „Síðan 26. janúar hefur rannsókn málsins haldið áfram með tilliti til hvarfs Geirfinns Einarssonar og smygls á áfengi í sambandi við það.“ Fjórmenningarnir, Magnús Leópoldsson, Eiríkur Sigurbjörnsson, Einar Bollason og Valdimar Olsen, eru komnir á bak við lás og slá grunaðir um að smygla áfengi og vera jafnvel valdir að hvarfi Geirfinns.
En ekki voru allir innan lögreglunnar sammála um tengslin. Bjarki Elíasson fv. yfirlögregluþjónn sagði að „Spíramálið" svokallaða væri að sínu mati i rauninni ekki til. Hér væri um að ræða u.þ.b. sjö smyglmál sem fólk tengdi saman að ósekju og setti jafnvel í samband við svokölluð „Geirfinnsmál" og „Klúbbsmál". M.a. hefðu keflvisku lögreglumennirnir einhverra hluta vegna ruglað þessum málum saman að einhverju leyti og því ekki talið áðurnefnt einstakt smyglmál fullkannað á sinum tíma.
Saga Guðmundar Agnarssonar
Möguleg tengsl Klúbbmanna við hvarf Geirfinns og spírasmyglið komu fyrst fram í lögregluskýrslum í yfirheyrslu yfir Guðmundi Agnarssyni hjá rannsóknarlögreglunni í Reykjavík 23. október 1975. Þá sagðist hann hafa orðið vitni að drukknun Geirfinns þegar þeir voru að fiska upp spírabrúsa sem skipverjar á íslensku skipi hefðu varpað fyrir borð. Guðmundur sagði ennfremur að á dráttarbrautinni í Keflavík hafi verið staddir Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson ásamt fleiri mönnum. Við yfirheyrslu hjá lögreglu síðar sagði Guðmundur að þetta væri allt saman fylleríssröfl sem hann hafi sagt börnum sínum og tengdasyni. Þau höfðu talið málið það alvarlegt að þau tilkynntu það til lögreglu. Guðmundi var sleppt eftir yfirheyrsluna – en í frásögn hans var kominn grunnurinn að þeim málatilbúnaði sem lögreglan byggði á allar götur síðan í meðferð Geirfinnsmálsins.
Helstu sameiginleg atriði með frásögn Guðmundar Agnarssonar og rannsóknartilgátu lögreglunnar, og reyndar niðurstöðu Hæstaréttar 1980 að hluta, eru eftirfarandi:
1. Klúbburinn.
2. Ferð úr Reykjavík til Keflavíkur.
3. Tvær bifreiðar eru notaðar, sendiferðabifreið og fólksbifreið.
4. Símtal úr sjoppu. Símtal úr Hafnarbúðinni.
5. Spírasmygl – spíraviðskipti með þátttöku Geirfinns.
6. Magnús Leópoldsson og Sigurbjörn Eiríksson eru viðstaddir.
7. „Gamla bryggjan“ þ.e. dráttarbrautin í Keflavík er sögð vettvangur atburðanna.
8. Álíka stór hópur manna er á dráttarbrautinni.
9. Geirfinnur deyr.
Guðmundur Agnarsson var í raun að endursegja sumar þær sögur sem gengu manna á meðal þar sem bæði Magnús Leopoldsson og Sigurbjörn Eiríksson voru iðulega tengdir við hvarf Geirfinns. Yfirheyrslan yfir Guðmundi er fyrsta skráða heimildin um meinta aðild Sigurbjörns Eiríkssonar og Magnúsar Leópoldssonar að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Guðmundur segir sína sögu, eða endursögn á almannarómi, í október 1975, en átta mánuðum fyrr höfðu Magnús Leópoldsson og Sigurbjörn Eiríksson snúið sér til yfirvalda og kvartað undan sífelldum orðrómi um tengsl þeirra við Geirfinnsmálið. Leirstyttan sem fékk nafnið Leirfinnur var sýnd almenningi 27. nóvember 1974 og komu fram ábendingar um marga karlmenn sem töldust líkir styttunni, þ.á.m. var Magnús Leópoldsson. Átjánda febrúar 1976 fór fram sakbending þar sem afgreiðslukonan sem skýrast sá þann sem hringdi úr Hafnarbúðinni benti á Magnús Leópoldsson sem þann sem líktist manninum best. En þess ber að geta að hringingin úr Hafnarbúðinni er tilgáta rannsóknaraðila, það var ekkert símtal rakið þaðan heim til Geirfinns. Það er staðfest að einhver hringdi í Geirfinn og að hann sagðist ætla að hitta einhvern eða einhverja kvöldið 19. nóvember 1974. Enginn veit þó með vissu hver hringdi úr síma Hafnarbúðarinnar og í hvern sá aðili hringdi.
Lögreglan í Keflavík hætti að rannsaka Geirfinnsmálið um vorið 1975 og 4. janúar 1976 voru gögnin send til Reykjavíkur.
Hver hringdi í Erlu?
Um miðjan janúar 1976 fer einhver að hringja í Erlu Bolladóttur þar sem hún bjó hjá móður sinni. Í símanum var þögn en greinilegur andardráttur og síðan skellt á. Þetta endurtók sig nokkrum sinnum og voru bæði móðir Erlu og systir hennar vitni að þessum hringingum. Loks kom að því að hringjandinn spurði Erlu „hvort hún væri ekki búin að gera nóg“ og benti henni á að vara sig. Erlu var brugðið og hringdi í lögregluna sem þegar hér var komið sögu voru orðnir einhverskonar vinir Erlu, sem var einstæð móðir í viðkvæmri stöðu með ungabarn. Þeir höfðu jafnframt því sem þeir yfirheyrðu hana um Guðmundarmálið, hjálpað henni m.a. með að flytja búslóð, útvega vottorð ofl. - og þeir vissu, eins og fram kom í skýrslu sálfræðings um Erlu, að hún hefði „tilhneigingu til að stjórnast af öðrum... og að varasamt sé að treysta á viðbrögð hennar sé hún undir tilfinningalegu álagi.“ og „Persónuleiki hennar er veikbyggður og varnir því veikar og er því líklegt, að undir tilfinningalegu álagi, geti geðstjórn brotnað niður og viðbrögð orðið óeðlileg og leitt til truflunar á meðvitund.“
Lögreglumennirnir voru nýbúnir að fá Erlu til að segja margar sögur um hvarfið á Guðmundi Einarssyni og þvinga fram játningar hjá Sævari og félögum hans í framhaldi af því.
Sigurbjörn Víðir Eggertsson rannsóknarlögreglumaður var sá sem sat við símann og svaraði þegar Erla hringdi. Erla var kölluð til fundar 21. jan. 76 og spurð um hverja hún hræddist og til þess að sýna henni hversu alvarlegum augum lögreglan leit þessa ógnun voru vopnaðir lögreglumenn sendir til að gæta Erlu.
Örn Höskuldsson og Sigurbjörn Víði Eggertsson setjast síðan niður með Erlu og „marg spyrja um það eða hverja hún teldi sig vera svona hrædda við.“ Erla nefndi þá nöfn þriggja manna, þeirra Einars Bollasonar, Sigurbjarnar Eiríkssonar og Jóns Hjartarsonar. Lögreglumennirnir spurðu þá hvers vegna hún væri hrædd „og sagði hún það vera í sambandi við hið svokallaða „Geirfinnsmál“.
Hér hlýtur að vakna mikilvæg spurning: Hver hringdi í Erlu?
Ekki voru það Einar Bollason, Sigurbjörn Eiríksson, Valdimar Olsen eða Magnús Leópoldsson, við vitum núna að þeir komu hvergi nærri þessum málum. Ekki voru það Sævar, Kristján Viðar og Tryggvi Rúnar. Þeir sátu bak við lás og slá.
Sá sem hringdi spyr Erlu hvort hún hafi ekki gert nóg. Væntanlega á hann við að hún eigi ekki að segja meira við lögregluna – en þegar hér er komið sögu hefur Erla ekkert sagt um Geirfinnsmálið. Hver gat sagt við Erlu að hún ætti ekki að segja meira um mál sem enginn utan lögreglunnar vissi að komið var til rannsóknar á ný? Eina málið sem var komið á dagskrá var Guðmundarmálið sem um þessar mundir var talið nánast leyst eftir að Sævar og félagar höfðu játað aðild að hvarfi og dauða Guðmundar Einarssonar.
Á þessu augnabliki voru engir bendlaðir opinberlega við hvarf Geirfinns, og rannsókninni í Keflavík var lokið án árangurs. Það var bókstaflega enginn á lausu til að hringja og hóta Erlu!
Í ljósi framhaldsins þá er því næsta víst að það hafi verið lögreglumennirnir sjálfir sem hringdu í þeim tilgangi að hræða Erlu og fá til hana að segja fleiri sögur sem lögreglan var á höttunum eftir í þeim tilgangi að góma Klúbbmennina Magnús og Sigurbjörn, og fleiri sem lágu undir grun um þátttöku í ólöglegu athæfi. Klúbbmenn, Sigurbjörn og Magnús höfðu verið ákærðir fyrir skattsvik og bókhaldsbrot, Sigurbjörn hafði setið inni í 20 mánuði vegna tékkafals (1961), Valdimar Olsen hafði verið nefndur í skýrslum
lögreglumanna sem njósnuðu um eiturlyfjasala, eða eins og skráð er í skýrslu þeirra „fór fram alls kyns misferli í sambandi við fíkniefni í íbúð Valdimars Framnesvegi“ og Selfosslögreglan hafði einnig velt fyrir sér mögulegri aðild Valdimars að innbroti og stuldi á víni. Einar Bollason hafði selt smyglað áfengi við fleiri en eitt tækifæri og bendlaður við bruggun áfengis í sögusögnum sem gengu meðal manna.
Erla mætti hjá Erni Höskuldssyni og Sigurbirni Víði þ. 21. janúar til að ræða hringingarnar og 23. janúar er hún byrjuð að endursegja sögu keimlíka sögu Guðmundar Agnarssonar- og tveimur dögum seinna voru Einar, Magnús og Valdimar sóttir heim og settir í fangelsi. Sigurbjörn var handtekinn fimmtán dögum síðar.
Fjórmenningarnir handteknir
Saga Guðmundar Agnarssonar og þar með sviðsetning atburðanna á dráttarbrautinni í Keflavík er greinilega að mótast í endurteknum yfirheyrslum yfir Erlu og síðar öðrum sakborningum. Um þá atburðarrás og misbeitingu rannsakenda má lesa í skýrslu starfshópsins sem skilaði skýrslu til Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra 2013. Sú skýrslugerð verður að teljast eina verkið þar sem málin eru könnuð og krufin af fullri alvöru og mögulegir hagsmunir réttargæslukerfisins ekki settir í fyrirúm. Í skýrslunni segir m.a.: „Þar sem almennt er viðurkennt að áreiðanleiki framburða minnkar með síendurteknum upprifjunum er ljóst að rannsóknaraðferðir í Guðmundar- og Geirfinns-málunum voru ekki vel til þess fallnar að leiða sannleikann í ljós.“
Þetta eru atriði sem vert er að staldra við og skoða betur. Þegar lögregla handtekur fólk þá hefur það einhvern aðdraganda. Oft eru menn staðnir að verki við lögbrot og stundum er fylgst með grunuðum og síðan eru þau handtekin þegar tilefni þykir – því lögreglan getur ekki bara stokkið til og handtekið fólk vegna þess að einhver ber á það sakir. Ef einhverjir liggja undir grun um glæpsamlega starfsemi þá er fylgst með þeim, símar hleraðir og sönnunargagna aflað - síðan er látið til skara skríða þegar lögreglan telur sig hafa aflað nægilegra sannanna. Ef engar trúlegar ábendingar berast eða engar sannanir finnast þá gengur það ekki að handtaka fólk „upp úr þurru“.
En þegar Magnús, Einar, og Valdimar eru handteknir eldsnemma að morgni og skellt í 45 daga gæsluvarðhald, og Sigurbjörn fimmtán dögum síðar, virðist ekkert liggja að baki nema ruglingslegar og síbreytilegar frásagnir Erlu, Sævars og Kristjáns Viðars. Frásagnir fólks sem voru bendluð við ýmis afbrot, nægja lögreglunni til þess að snarlega handtaka mennina.
En eins fyrr var getið þá hafði lögreglan úr ýmsu að moða varðandi fjórmenningana því þeir höfðu komið við sögu í öðrum málum og voru þeir þess vegna á listanum yfir „hugsanlega“ aðila vegna hvarfs Geirfinns.
Lögmenn fjórmenninganna kærðu að sjálfsögðu gæsluvarðhaldið en Hæstiréttur staðfesti gæsluvarðhaldsúrskurðinn yfir fjórmenningunum. Hvaða gögn höfðu rannsóknarmenn til að leggja fram annað en frásögn Erlu, Sævars og Kristjáns Viðars? Sögðu þeir Hæstarétti frá grun um stórfelld afbrot Magnúsar, Einars, Valdimars og Sigurbjarnar?
Hér virðist atburðarásin segja okkur að lögreglan hafi þá þegar verið á höttunum eftir Magnúsi, Sigurbirni, Valdimar og Einari. Það kemur fram í lögregluskýrslunum að Erla og Sævar ásamt Kristjáni Viðar nefna alls átta karla sem hafi verið á dráttarbrautinni 19. nóvember. En lögreglan handtekur einungis fjóra og virðist engu skeyta um hina fjóra sem voru þó allir á listanum sem lögreglan „taldi hugsanlegt“ að verið hefðu á dráttarbrautinni. Einn þeirra sem Erla kvaðst vera hrædd við þegar lögreglan spurði hana var Jón Hjartarson. Jón var þó aldrei handtekinn, enda ekki einn þeirra sem féll að þeim hugmyndum sem lögreglumennirnir unnu eftir.
Í dómi Hæstaréttar 1980 voru Erla, Sævar og Kristján Viðar dæmd fyrir meinsæri, þ.e. að hafa sammælst um að ljúga sökum uppá Einar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen.
En það var ekki Erla, ekki Sævar og ekki Kristján Viðar sem tengdu þessa menn við hvarfið á Geirfinni - það var lögreglan sem safnaði saman myndum af þeim sem lögreglan taldi „hugsanlegt“ að tengdust hvarfi Geirfinns og öllum hinum málunum - og að aðeins hluti þeirra sem Erla, Sævar og Kristján Viðar nefndu voru handteknir segir okkur að þarna er það lögreglan sem er að reyna að „uppskera“, þ.e. grípa þá sem tengdust ýmsum málum sem lögreglan var að rannsaka en taldi sig geta fengið játningar með löngu gæsluvarðhaldi og hranalegri framkomu. Hrottaskapur og löng einangrun höfðu dugað rannsóknarmönnum svo vel þegar þeir náðu margvíslegum játningum frá Erlu, Sævari og félögum hans í Guðmundarmálinu.
Bugast eftir viku
Og það lá nærri að þessi áætlun tækist. Einar Bollason sagði frá áhrifum fangavistarinnar í bókinni „Riðið á vaðið“: „eftir viku í einangruninni var ég við það að bugast“. Og ennfremur: „Á tímabili var ég orðinn svo örvinglaður að ég hugleiddi í alvöru hvort ég hefði flækst í eitthvert mál, orðið vitni að einhverjum óhug og fengið svo mikið lost að ég myndi ekki nákvæmlega hvað hefði gerst. Trú mín á réttarkerfinu var sem sagt svo sterk að ég var farinn að trúa því sjálfur að ég væri jafnvel sekur þar sem mér var haldið inni svo lengi“.
Í viðtali í DV 1994 sagði Einar að „Það er ógjörningur fyrir þá, sem ekki hafa setið í einangrun, að setja sig í spor þeirra sem upplifað hafa þá skelfilegu lífsreynslu. Andlegt álag á slíkum einstaklingi er gífurlegt og fáir sleppa heilbrigðir frá þeirri meðferð sem ég mátti þola. Ég má teljast heppinn, þótt ég hafi oft verið ansi nálægt því að gefast upp.“
Og Magnús Leopoldsson sagði í sjónvarpsviðtali eftir sína reynslu: „Eftir því sem er sótt fastar að mönnum. Það er örugglega mjög auðvelt að fá menn, við þessar aðstæður, til að gera nánast hvað sem er.“ Magnús lýsti ennfremur í bókinni Saklaus í klóm réttvísinnar viðmótinu sem mætti honum í Síðumúlafangelsinu eftir að hann var gripinn eldsnemma morguns á heimili sínu og stungið í klefann sem átti eftir að verða hans aðsetur næstu 105 daga.
„Það var farið með mig inn í lítið yfirheyrsluherbergi og þar voru fyrir þrír menn sem ég kannaðist lítillega við í sjón. Mér var sagt að setjast , en helst hefði ég viljað standa og segja þessum mönnum til syndanna. Eitthvað sagði mér að þó að raunum mínum væri ekki alveg lokið. Fangaverðirnir fóru fram og lokuðu á eftir sér, en ég stóð fyrir framan þessa lögreglumenn, ennþá skólaus og vissi ekki hvað klukkan var. Mér fannst ég umkomulaus, ég var varla virtur viðlits til venjulegra mannlegra samskipta. Mér var sagt fyrir verkum, ég var lokaður inni, rekinn fram á gang þar sem lögreglumenn stóðu með kylfur... Þeir sögðu að ég væri grunaður um að vera valdur að hvarfi Geirfinns Einarssonar, þeir hefði næga vitneskju um það og best væri fyrir mig að játa vafningalaust.“
„Þegar ég kom aftur inn í hryllingsklefann brotnaði ég algjörlega niður í fyrsta sinn. Ég fann virkilega fyrir því að þessi innilokun var óþolandi. Tilhugsunin um einn og hálfan mánuð í þessari andstyggðar kompu var mér næstum um megn; ég hafði engan til að tala við, ekkert að lesa, ekkert að sjá, ekkert gott að heyra! Mér fannst ég eins og fluga í köngulóarvef, ég komst ekkert burtu og gat mig varla hreyft í þessum þrengslum. Ég lagðist á grúfu og grét“. „ [lögreglumennirnir] létu fyllilega í það skína að þetta væri alveg vonlaus barátta hjá okkur, það væri best fyrir alla að ég játaði þetta morð, þeir hefðu sterkar sannanir fyrir sekt minni eftir faglega rannsóknarvinnu“... „það yrði ekkert gert fyrir mig fyrr en ég væri búinn að játa. Þangað til yrði ég látinn dúsa þarna áfram.“
Eftir að Magnús, Einar, Valdimar og Sigurbjörn voru leystir úr haldi voru þeir sýknaðir og fengu greiddar bætur. Í sýknudómi Hæstaréttar 3. mars 1983 segir: „Dómurinn telur einsýnt, að stefnandi hafi liðið miklar þjáningar í gæsluvarðhaldinu og eftir það. Skýrsla stefnanda um líðan sína, sem gefin var fyrir dómi, var á allan hátt trúverðug. Þar kemur ljóslega fram sú andlega þjáning að vera hnepptur saklaus í gæsluvarðhald sem framlengt er tvisvar sinnum og verður 105 dagar að lengd. Óvissan, kvíðinn og vanlíðanin, sem leiddi til þess, að saklaus maður fer að efast um sitt eigið sakleysi og fer að halda, að hann hafi í raun verið flæktur í alvarlegan verknað án þess að muna slíkt.“ og ennfremur um hina óvenjulangvinnu gæsluvarðhaldsvist segir í dómnum að það beri að líta á „þá fáheyrðu andlegu og líkamlegu raun, sem henni var samfara“ og meira til: „Húsakynni þau, sem hann var vistaður í, voru ekki forsvaranleg til svo langrar vistunar. Á meðan á gæsluvarðhaldi stóð og í framhaldi af því, varð gagnáfrýjandi síðan fyrir barðinu á einstæðri umræðu í ýmsum fjölmiðlum, er vógu að mannorði hans og annarra með getsökum og hleypidómum.“
Það er fróðlegt að yfirfæra lýsingar Hæstaréttar á áhrifum fangavistar yfir á Sævar Ciesielski sem sat í gæsluvarðhaldi í rúmlega fjögur ár Og þar af var honum haldið í einangrun í 615 daga.
Í skýrslu vegna rannsóknar á harðræði gegn Sævari árið 1979 kom fram að fangavörður sagði að hann „mætti ekki fara á klósettið nema nakinn“ og annar fangavörður hefði gert sér að leik að framkalla mikinn hávaða á ganginum fyrir framan klefa hans. Hann hefði „tuskað“ Sævar til „þannig að hann hafði endaskipti á honum, hristi Sævar til og varnaði honum að hafa ábreiðu (prjónahúfu) yfir ljósakúflinum í loftinu, en slökkvarinn hafði þá löngu áður verið gerður óvirkur þannig að ávallt logaði ljós í klefanum“.
Rannsóknarlögreglumönnunum og dómaranum sem stjórnaði þeim var öllum ljóst að fangavist gat haft mikil áhrif á sakborninga og oft þurfti ekki langan tíma til að efi sækti á þá fangelsuðu og að játningar tækju að hljóma. Þetta var vel þekkt í málum ýmissa afbrotamanna, smáþjófa, eiturlyfjasmyglara ofl. Þegar alvara gæsluvarðhaldsins og einangrunarinnar þrengdi að mönnum þá losnaði gjarnan um málbeinið. Harðræðið sem Sævar sannanlega mátti þola var þeirra eigið tilbrigði við þær ógnir sem sjálf gæsluvarðhaldsvistin var bæði fyrir fanga, jafnt seka sem saklausa.
Lokaorð
Hið stóra plan lögreglunnar um að grípa hóp stórglæpamanna rann út um þúfur, Einar, Magnús, Valdimar og Sigurbjörn brotnuðu ekki, og lögreglan sat uppi með skömmina. En í Síðumúlafangelsinu, sem var „ekki forsvaranlegt til langrar vistunar“ geymdu starfsmenn réttarkerfisins aðra blóraböggla til að fela mislukkaðan leiðangur sinn og afdrifarík mistök.
Daginn sem fjórmenningunum var sleppt var send út risafrétt um að að Erla hefði viðurkennt að hafa skotið Geirfinn með riffli.
Skömmu eftir að Einar Bollason og Magnús Leópoldsson voru handteknir komu fram fjarvistarsannanir sem áttu við allar eðlilegar kringumstæður að verða til þess að fjórmenningunum hefði verið sleppt eftir fimmtán daga í fangelsi. En þeir voru látnir sitja inni í 105 daga og síðan settir í farbann eftir að þeim var sleppt.
Lögreglan handtók Magnús, Sigurbjörn, Valdimar og Einar eftir að kornung kona sagði í yfirheyrslu sögu sem stemmdi við sviðsmyndina sem lögreglan vann eftir skv. þeirri „rörsýn“ sem rannsóknarnefnd innanríkisráðherra taldi einsýnt að þeir hefðu verið haldnir. Sagan passaði einnig við hugmyndir lögreglumanna um tengsl Klúbbmanna ofl. við ólöglega starfsemi, smygl á áfengi, fjármálamisferli og loks mannshvarf tengt smyglinu. Fjórmenningarnir voru allir áður komnir í skýrslur lögreglunnar og voru að auki sérstakur skotspónn hinna áköfu lögreglumanna í Keflavík sem lýstu opinberlega að Klúbbmenn tengdust smygli og mannshvarfi í Keflavík.
Hversu trúlegt er það að unga konan sem hafði „tilhneigingu til að stjórnast af öðrum“ hafi átt upptökin, að hún hafi haft vitneskju um atburði sem aldrei áttu sér stað!
Hversu líklegt er að unga konan hafi ásamt félögum sínum ákveðið að ljúga sök á aðra og einnig sig sjálf, sök á atburðum sem aldrei áttu sér stað!
Þetta var samt niðurstaða íslenska dómskerfisins 1980 og er í raun enn þann dag í dag!
Athugasemdir (2)