Verðbólga mælist nú 9,9 prósent undanfarna 12 mánuði, en Hagstofan birti nýjar tölur um þróun vísitölu neysluverðs á vef sínum í morgun. Í mars mældist verðbólgan 9,8 prósent og er verðbólgan því að hækka á milli mánaða.
Vísitala neysluverðs hækkar um 1,31 prósent frá fyrri mánuði. Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði um 1,5 prósent, en hluti þeirrar hækkunar skýrist af því að mjólk, ostar og egg hækkuðu um 3,9 prósent á milli mánaða.
Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5 prósent og vegur það þyngst inn í hækkun vísitölunnar og skýrir sú hækkun 0,46 prósentustiga hækkun vísitölunnar á milli mánaða. Verð á húsgögnum og heimilisbúnaði hækkaði um 1,9 prósent og flugfargjöld til útlanda um heil 19,5 prósent, samkvæmt því sem segir á vef Hagstofunnar.
Vísitala neysluverðs, ef húsnæðisliðurinn er ekki tekinn með, hefur hækkað um 8,7 prósent undanfarna tólf mánuði.
Athugasemdir